Haukur Arnþórsson skrifaði:
Ég ætla að leyfa mér að fullyrða – þótt ég sé ekki með doðranta Bjargar Thorarensen í stjórnskipunarrétti við höndina hér í sumarbústað, ef þeir þá taka á þessu – að ákvarðanir Alþingis verða ekki ógiltar af framkvæmdarvaldinu, hversu mjög sem það vill. Hins vegar á það í flestum tilvikum að framkvæma þær. Hvort sem Gunnar Bragi notaði nú rétt hugtak í bréfinu eða ekki. Umsókn Alþingis um aðildarviðræður var þingsályktun – sem í þessu tilviki, eins og oftast, er ákvörðun (þótt þingsályktun geti líka verið stefnumörkun og kannski fleira).
Ef ég væri settur upp að vegg myndi ég segja að þótt framkvæmd ákvörðunar Alþingis sé undir framkvæmdarvaldinu komin (nema Alþingi kveði nánar á um hana, sem það gerði ekki) og Gunnar Bragi geti stöðvað hana, þá getur hann ekki fellt hana úr gildi. Stöðvun hans hlýtur að jafngilda frestun, jafnvel mjög langri frestun – eða þangað til Alþingi tekur nýja ákvörðun í málinu.
Ég er því sammála afstöðu Eiríks Bergmanns en á öðrum forsendum. Hins vegar finnst mér ekki að þessi fullyrðing (að umsóknin sé í gildi) eigi að halda vöku fyrir þjóðernissinnum. Ríkisstjórnin mun láta kjósa um akkúrat þetta efni sem þingsályktunin fjallar um á þriðja starfsári sínu. Það er í stjórnarsáttmála.
Þess má geta að Eiríkur Bergmann verður gestur í kvöldfréttum Samstöðvarinnar. Og það í beinni útsendingu.