Hvað kostar mikið að koma fyrir klukku og hitamæli í Nauthólsvík? Það getur verið erfitt að segja en þó er ljóst að langflestir myndu ekki giska á að það kostaði fjórar milljónir króna. Það er þó verðmiðinn sem Reykjavíkurborg setur á slíkt verkefni á vefnum Betri Reykjavík. Þetta er ekki eina dæmið um nánast ótrúlegan kostnað á vefnum, en Oddrún Magnúsdóttir bendir á það á Twitter.
Annað dæmi sem hún nefnir er verkefni sem felst í því að koma fyrir skiltum á leiksvæðum, með almennum upplýsingum. Þessar upplýsingar yrðu svo einnig aðgengilegar á vef Reykjavíkurborgar. Áætlaður kostnaður við þetta fremur einfalda verk eru litlar 7 milljónir króna. Þetta eru ekki einu dæmin sem má finna á vefnum Betri Reykjavík um ótrúlega dýr, en þó einföld, verkefni. Áætlaður kostnaður við vegvísi í undirgöngunum við Snorrabraut er talinn vera sex milljónir króna.
Oddrún veltir því fyrir sér hvort þessi óeðlilegi kostnaður stafi af útvistun verkefna hjá borginni, að verktakar séu einfaldlega að okra svona rosalega. „Hver sá sem sér um að áætla kostnað við verkefni fyrir betri reykjavík er annað hvort hræðilegur í sínu starfi eða þá að verktakar eru að mergsjúga borgina. 7 milljónir fyrir flipa á heimasíðu? 4 milljónir fyrir klukku???,“ spyr Oddrún.