Um þrír tímar af samfélagsumræðu á hverjum degi á Samstöðinni

Eftir því sem áskrifendum fjölga eflist Samstöðin. Bæði fjölgar þáttum og þeir sem fyrir eru eflast. Í liðinni viku voru framleiddir um þrír tímar af samfélagumræðu að meðaltali á hverjum degi. Og samhliða því sem þættirnir verða fleiri og öflugri því fleiri hlusta. Samstöðin er ekki með í útvarpsmælingum, hefur ekki efni á því. En þrátt fyrir að æ fleiri hlusti á Samstöðina í útvarpi hefur hlustun og áhorf aukist í öðrum dreifleiðum.

Meðalhlustun á dag í tímum talið jókst um 15% á Facebook frá september til október. Áhorfendum á dag á youtube fjölgaði að meðaltali um 30% milli mánaða. Og niðurhal á hlaðvarpsveitum fjölgaði um 46% að meðaltali á dag milli þessara mánaða. Þetta er mikill vöxtur, sérstaklega þegar haft er í huga að líklega er vöxturinn í útvarpshlustun miklu meiri. Útvarpssendingar hafa því ekki dregið úr hlustun í öðrum dreifileiðum, jafnvel ýtt undir hana.

Samstöðin er í eigu Alþýðufélagsins, sem er félag þeirra áskrifenda sem kjósa að láta áskriftina sína jafnframt renna sem félagsgjöld til Alþýðufélagsins. Rúmlega 3/4 hlutar áskrifenda kjósa að gera það. Aðrir vilja aðeins styrkja Samstöðina og treysta því að áhugasamir áskrifendur aðrir haldi utan um rekstur hennar.

Áskrift að Samstöðinni er 2.000 kr. á mánuði, en fólk getur valið að borga meira. Áskrifendur fá reglulega sendar fréttir af starfinu, fylgjast þannig með uppbyggingunni. Frá því í haust, þegar útsendingar Samstöðvarinnar hófust að fullu afli aftur, hefur áskrifendum fjölgað um 36%. Það er því margt sem bendir til að mögulegt sé að byggja Samstöðina upp á áskrift og stuðningi almennings og félagasamtaka með takmörkuðum auglýsingatekjum.

Og ríkisstyrk innan nokkurra ára, en núgildandi kerfi vinnur gegn nýjum og minni miðlum en hyglir þeim stærri og eldri. Þrátt fyrir að uppfylla skilyrði varðandi umfang þá fær Samstöðin ekki styrk fyrr en tekist hefur að halda úti rekstrinum í tvö ár. Þessi bið veldur því að Samstöðin verður af tugum milljóna í styrk, sem annars myndu fást og sem þeir miðlar sem Samstöðin er í samkeppni við fá.

Næsta skref Samstöðvarinnar er að hefja sjónvarpsútsendingar. Svo hægt sé að stíga það skref þarf af safna eilítið fleiri áskrifendum. Þau sem vilja styðja Samstöðina á þessari leið geta skráð sig sem áskrifendur hér: Áskrift

Helgardagskráin þéttist

Segja má að helgardagskrá Samstöðvarinnar byrji með Vikuskammti kl. 16 á föstudögum. Þar er farið yfir fréttir vikunnar með góðum gestum. Á föstudaginn síðasta komu þau Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður, Claudia Ashanie Wilson lögmaður, Viðar Þorsteinsson fræðslu- og félagsmálastjóri Eflingar og Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir rithöfundur og ræddu fréttir vikunnar sem sumar voru hryllilegar og uggvænlegar en aðrar léttvægari, jafnvel gleðilegar.

Hlusta má á þáttinn hér:

Á laugardagsmorgni kl. 9 er Helgi-spjall sent út þar sem einn gestur kemur eða Rauða borðinu og við reynum að kynnast honum. Í gær kom Sigríður Gísladóttir formaður Geðhjálpar og sagði okkur frá því hvernig geðsjúkdómur móður hennar mótaði æsku hennar og hvernig hennar eigin sjúkdómur tók við. Og hvernig hún gat unnið úr þessum áföllum öllum, risið upp til að hjálpa börnum í svipaðri stöðu.

Hlusta má á þáttinn hér:

Á eftir Helgi-spjallinu sendum við út Úrval vikunnar út kl. 11. Þar er dregin saman nokkur áhugaverð viðtöl frá vikunni sem er að líða. Í gær kusum við að senda út nokkur viðtöl um fátækt, en alþjóðlegur dagur fátæktar var á þriðjudaginn síðasta. Í Úrvalsþættinum heyrum fyrst Kjartan Ólafsson félagsfræðing skýra út skýrslu um fátækt, en hann er einn þeirra sem tók saman enn eina skýrsluna um fátækt fyrir stjórnvöld. Í tilefni alþjóðlegs baráttudags gegn fátækt koma þrjár konur sem hafa reynslu af fátækt og þekkja vanlíðan foreldra og barna af eigin raun: Þær Laufey Líndal Ólafsdóttir, Elísabet Hauksdóttir og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir.  Við ræðum við formann Leigjendasamtakanna, Guðmund Hrafn Arngrímsson, um hvernig leigumarkaðurinn dregur fólk niður í fátækt og heldur því þar. Atli Þór Þorvaldsson, fyrrverandi formaður kjarahóps ÖBÍ, segir okkur frá fátækt öryrkja, en við erum að skoða fátækt þeirra hópa sem útsettir eru fyrir fátækt. Fjórir Íslendingar Karla Barralaga Ocón, Ian Mcdonald, Sherry Ruth og Natalie Scholtz, innflytjendur sem þekkja bæði styrk og skugga, segja okkur frá þrældómi, rasisma og aðbúnaði innflytjenda sem er í sárri og hrópandi andstöðu við þá ímynd Íslands sem er seld til að laða ferðamenn að.

Úrvalsþátturinn er sendur út í útvarpi en ekki á Facebook og youtube, en nálgast má hann á youtube-síðu Samstöðvarinnar. Hér má hlustan á úrvalsþáttinn:

Á sunnudagsmorgni er Oddný Eir Ævarsdóttir með þátt sinn Mótmæli í morgunmat, sem stundum kallast líka Friðarviðræður. Það átti við þáttinn í morgun, en þar fékk Oddný Eir til sín mæður og föður til að segja okkur frá mótmælareynslu sinni og ræða um mikilvægi friðarviðræðna milli kynslóða og mátt þess að koma saman og ræða saman, greina í sundur upplýsingaflækjur, lesa ljóð, syngja og svo framvegis í átt að réttlætinu. Gestir þáttarins voru þau Sólveig Hauksdóttir, Ævar Kjartansson, Elsa María Blöndal, Magga Stína, Salvör Gullbrá og börnin valsa inn og út.

Horfa má á þáttinn hér:

Í hádeginu, eða kl. 12:40 á sunnudögum er þátturinn Synir Egils þar sem bræðurnir Sigurjón Magnús og Gunnar Smári Egilssynir taka á móti gestum og ræða helstu fréttir og pólitík. Í dag tóku þeir á móti Heimi Má Pétursson fréttamann, Þórarinn Eyfjörð formann Sameykis og Guðrúnu Margréti Guðmundsdóttur mannfræðing. Þeir bræður fóru líka yfir daginn og veginn og fjölluðu síðan um háskalega stöðu bænda, slígu á þráðinn til Þórarins Inga Péturssonar, bónda og þingmanns, og fengu svo þau Gunnar Þorgeirsson, formann Bændasamtakanna og Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra samtakanna, til að kortleggja erfiða stöðu bænda.

Horfa má á þáttinn hér:

Og líka dagskráin á virkum dögum

Dagskráin á virkum dögum er líka að þéttast. Þátturinn Sanna Reykjavík hefur breyst yfir í Reykjavíkurfréttir þar sem Trausti Breiðfjörð Magnússon og Sanna Magdalena Mörtudóttir fjalla um borgarmálefni. Í vikunni sögu þau fréttir úr borgunni, heimsóttu hjólhýsabyggðina við Sævarhöfða og fengu gesti í stúdíóið til að ræða húsnæðiskreppuna í höfuðborginni. Gestir þáttarins voru Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Samtaka leigjenda, Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins og Bjarni Þór Sigurðsson sérfræðingur í húsnæðismálum hjá ASÍ.

Þátturinn er sendur út á þriðjudögum kl. 16. Sjá má þátt vikunnar hér:

Miðjan á miðvikudegi er þáttur í stjórn Sigurjóns Magnús Egilssonar, ritstjóra Miðjunnar, þar sem hann fær til sín ýmsa gesti. Sigmundur Ernir Rúnarsson er að senda frá sér sína tuttugustu og fimmtu bók. Að þessu sinni skrifar um hann um fjölmiðla frá 1980 og til dagsins í dag. Sigmundur Ernir kann að segja frá. Í samtali hans og Sigurjónsbar margt á góma. Flest skemmtilegt.

Horfa má á þáttinn hér:

Þátturinn Sósíalískir femínistar er í umsjón Söru Stef Hildardóttur og Maríu Pétursdóttur. Í þættinum ræða þær við fólk um málefni líðandi stundar í ljósi feminískrar baráttu en feminísk barátta er í grunninn barátta allra undirskipaðra hópa sem reyna að lifa af í kapítalísku feðraveldi fyrr og nú. Í vikunni ræddu þær við Sunnu Símonardóttur nýdoktor í félagsfræði um rannsóknir hennar á foreldrahlutverkinu og sér í lagi móðurhlutverkinu, ákafa mæðrun út frá stéttagreiningu, leikskólamálin, viðhorf og kröfur dagsins í dag um kvenleikann.

Sjá má þátt vikunnar hér:

Samstöðin stefnir að því að senda út mikilvæga fundi, er að safna fyrir nauðsynlegum tækjabúnaði og einhverjum launum fyrir þau sem sjá um útsendingarnar. Um síðustu helgi sendi Samstöðin út frá samstöðufundi á Austurvelli með Palestínumönnum þar sem Ögmunur Jónasson og Sólveig Anna Jónsdóttir fluttu ræður.

Sjá má fundinn hér:

Eftir fundinn var fjallað um neyðarástandið í Ísrael – Palestínu í Rauðum raunveruleika í samhengi við það sem á undan hefur gengið og rætt við Muhammed Alkurd. Í kynningu þáttarins segir að .úsundir manna hafi dáið á síðustu dögum í grimmum árásum Ísraelshers sem reglulega rekur fólk frá landinu sínu, drepandi marga, og neyðir þau inn í risavaxna úti fangelsið Gaza. Viðtalið er á ensku.

Sjá má þáttinn hér:

Auk þessara þátta voru sendir út fjórir þættir af Rauða borðinu. Á mánudaginn ræddum við við Jacek Godek stórþýðanda í Gdansk um pólsku kosningarnar og stjórnarskiptin sem virðast vera í nánd. Við ræddum við Kjartan Ólafsson félagsfræðing um fátækt, en hann er einn þeirra sem tók saman enn eina skýrsluna um fátækt fyrir stjórnvöld. Hver er byrði fátækar, ekki bara á þá einstaklinga og fjölskyldur sem verða fyrir henni, heldur samfélagið allt? Við heyrðum í Helen Ólafsdóttur öryggissérfræðingi um Hamas, Palestínsku þjóðina og herinn í Ísrael. Hverir eru að fremja stríðsglæpi og með stuðningi hverra? Og við heyrðum í Guðmundi Auðunssyni um stöðuna í breskum stjórnmálum, nú þegar flokkarnir hafa haldið sín flokksþing.

Sjá má mánudagsþáttinn hér:

Á þriðjudaginn ræddum við við formann Leigjendasamtakanna, Guðmund Hrafn Arngrímsson, um atburði dagsins, leigjenda sem fórst í bruna í iðnaðarhverfi upp á höfða. En einnig um hvernig leigumarkaðurinn dregur fólk niður í fátækt og heldur því þar. Við rddum um myndina Baráttan um Ísland, en ekki síður um baráttuna um söguna af Hruninu við þá Þórð Snæ Júlíusson blaðamann, Jón Gunnar Bernburg félagsfræðing og Árna Daníel Júlíusson sagnfræðing. Þá komu félagar í Pepp, félagi fólks í fátækt að Rauða borðinu, Laufey Líndal Ólafsdóttir, Ásta Þórdís Skalddal Guðjónsdóttir og Elísabet Hauksdóttir, og segja okkur frá fátækt og baráttu fátæks fólks í tilefni af degi fátæktar, sem er í dag. Í lokin sagði Vilhjálmur Hjálmarsson formaður ADHD-samtakanna okkur frá rannsóknum á ADHD og meðferð við sjúkdóminum.

Sjá má þriðjudagsþáttinn hér:

Á miðvikudaginn ræddum við við Sæunni Kjartansdóttur sálgreini um þarfir ungra barna og hvort þeim sé mætt í því kerfi sem við höfum smíðað í kringum þau; fæðingarorlof, leikskóla o.s.frv. Mun framtíðin horfa gagnrýnum augum á kerfin okkar? Hafije Zogaj læknir sagði frá baráttu sinni, sem er lík baráttu margra innflytjenda við að fá menntun sína viðurkennda á Íslandi. Atli Þór Þorvaldsson, fyrrverandi formaður kjarahóps ÖBÍ, sagði okkur frá fátækt öryrkja, en við skoðuðum fátækt þeirra hópa sem útsettir eru fyrir fátækt þessa vikuna. Orri Vésteinsson fornleifafræðingur mætti og ræddi skaðsemi lokunar safna, sem ekki skaða aðeins fræðafólk heldur lýðræðið í samfélaginu, sem nærist á frjálsu aðgengi að upplýsingum. Og í lokin sagði Guðjón Jensson okkur frá gamalli morðgátu eða meinti morðgátu öllu heldur.

Sjá má miðvikudagsþáttinn hér:

Í fimmtudagsþættinum var Evrópa á dagskrá. Valur Ingimundarson prófessor og Ásgeir Brynjar Torfason sérfræðingur í fjármálum sögðu okkur frá stöðunni í Evrópu og hvert hún stefnir. Við héldum áfram að fjalla um fátækt og þá hópa sem eru útsettir fyrir henni. Komið var að innflytjendum. Karla Barralaga Ocón, Ian Mcdonald, Sherry Ruth og Natalie Scholtz segja okkur frá stöðu innflytjenda í samfélagi sem vill halda þeim niðri. Græn landamæri eftir Agnieszku Holland er magnað listaverk og stórkostleg samfélagsgreining á stöðu flóttafólks við landamæri Evrópu. Sema Erla Serdaroglu stofnandi Solaris og Jasmina Vajzović Crnac fóru á myndina og sögðu okkur frá henni og sinni upplifun. Bjarki Þór Grönfeldt Gunnarsson kom að Rauða borðinu og fræddi okkur um sameiginlegan narsissisma.

Hér má sjá fimmtudagsþáttinn:

Samanlagt eru þetta rúmur 21 tími af frumfluttu efni eða um þrír tímar á dag. Þar sem þetta efni er ekki blandað auglýsingum eða tónlist, er þetta hátt í tvöfalt meiri dægurmálaumræða en Bylgjan sendir út í hverri viku.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí