Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, sagði við Rauða borðið augljóst að leikskólakerfið þyldi ekki þann vöxt sem verið hefði og enn síður þann sem kallað væri eftir. Það vantaði fjármagn og starfsfólk, hlutfall menntaðra leikskólakennara hefði lækkað og ljóst væri að við yrðum að fara hægar. Nær væri að lengja fæðingarorlof en að ætla að stækka leikskólakerfið til að mæta þörfum foreldra til að komast út á vinnumarkaðinn til að afla tekna.
Haraldur benti á að sveitarfélögin fjármögnuðu leikskólanna að öllu leyti en að þeim bæri ekki skylda til þess samkvæmt lögum að reka leikskóla. Leikskólarnir væru því ekki verkefni sem ríki og sveitarfélög hefðu samið um til að tryggja fjármögnun og framkvæmd, eins og á t.d. við um málefni aldraðra og fatlaðra og um grunnskólinn. Það hefði því aldrei verið settur skýr grunnur undir leikskólastarfið.
Uppbygging kerfisins hefði heldur ekki byggst á raunverulegu samtali í samfélaginu um hvernig við ætluðum að mæta þörfum foreldra til að komast út á vinnumarkaðinn eftir að fæðingarorlofi lýkur. Ein leið væri að bjóða upp á dagvist fyrir 12 mánaða gömul börn eins og margt sveitarstjórnarfólk hafi lofað fyrir síðustu og þar síðustu kosningar. Önnur leið væri að lengja fæðingarorlofið. Og svo væri auðvitað hægt að gera hvort tveggja, bjóða upp á lengri aðlögun þar sem yngstu börnin byrjuðu á leikskóla aðeins part úr degi. En til að ná þessu þyrfti breytt samkomulag í samfélaginu.
Haraldur sagði að leikskólakennarar hefðu kannski lagt of mikla áherslu undanfarna áratugi á að börn ættu að fara á leikskóla. Það væri hins vegar ekki víst að það væri það besta fyrir yngstu börnin. Þau hafa mikla þörf fyrir að vera með foreldrum sínum. Það er því mikilvægt að við ræðum þetta í samfélaginu, finnum lausnir sem er bestar fyrir börnin sjálf.
Í samtalinu sem má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan ræddi Haraldur fleiri þætti sem tengjast örum vexti leikskólakerfisins. Við hvetjum alla til að hlusta og taka þátt í þessari mikilvægu umræðu.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga