Börn allt niður í fimm ára gömul hafa lýst því fyrir starfsmönnum Lækna án landamæra á Gaza að þau vilji deyja. Slíkur sé hryllingurinn sem þau hafa upplifað og ljóst er að þau muni aldrei bíða þess bætur andlega sem þau hafa orðið vitni að.
Þetta sagði Christopher Lockyear, framkvæmdastjóri Lækna án landamæra, þegar hann ávarpaði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í gær, fimmtudag. Lockyear gagnrýndi Bandaríkin harðlega fyrir að beita neitunarvaldi sínu ítrekað í ráðinu og koma þannig í veg fyrir ályktun Sameinuðu þjóðanna um tafarlaust vopnahlé á Gaza.
„Í 138 daga höfum við orðið vitni að kerfisbundinni eyðileggingu á heilbrigðiskerfi sem við höfum stutt við svo áratugum skiptir. Við höfum horft upp á sjúklinga okkar og samstarfsfólk myrt og slasað. Staðan sem uppi er, er hápunktur stríðs sem Ísraelar heyja gegn öllum íbúum Gaza, stríð sameiginlegra refsinga, stríðs án laga og reglna, stríðs hvað sem það kostar,“ sagði Lockyear.
Hann lýsti því jafnframt hvernig Ísraelar hefðu sprengt upp hús þar sem starfsmenn samtakanna og fjölskyldur þeirra hefðu hafst við í borginni Khan Younis síðastliðinn þriðjudag, með þeim afleiðingum að tvennt lést og sex hlutu mjög alvarleg brunasár. Fimm af þeim eru konur og börn. Þetta hefði gerst þrátt fyrir að stríðandi fylkingum hefði verið gert fullkomlega ljóst hvar starfsfólk samtakanna hefðist við. Sprengjuárásinni hefði fylgt áköf skothríð sem hefði komið í veg fyrir að sjúkrabílar kæmust á staðinn til bjargar hinum særðu.
„Þetta er alltof kunnuglegt. Ísraelsher hefur ráðist á bílalestir okkar, handtekið starfsfólk, keyrt jarðýtur yfir bifreiðar okkar og sjúkahús hafa verið spengd upp. Þetta er í annað skipti sem húsnæði starfsfólks okkar verður fyrir árás. Annað hvort er um að ræða ásetning eða þetta er til marks um kæruleysi og vanhæfni,“ sagði Lockyear einnig.
Lockyear sagði þá enn fremur að ísraelski hersinn hefði engar sannanir fært fram til stuðnings yfirlýsingum sínum um að sjúkrahús væru notuð af Hamas í hernaðartilgangi. Þrátt fyrir það hefðu Ísraelar eyðilagt hvern spítalann á fætur öðrum og nú væri svo komið að ekki væri hægt að segja að um nokkra heilbrigðisþjónustu væri að ræða lengur á Gaza. Ísraelar brytu alþjóðalög og alþjóðasáttmála með árásum sínum og niðurbroti á sjúkrahúsum og heilbrigðisþjónustu.
Þá sagði Lockyear að heilbrigðisstarfsfólk hefði bætt við nýrri skammstöfun í orðfæri sitt, WCNSF, sem er skammstöfun á því sem útleggst á íslensku: Sært barn, engir eftirlifandi ættingjar. „Börn sem munu lifa þetta stríð af munu ekki aðeins bera sjáanleg ör eftir áverka, heldur einnig þau ósýnilegu. Þau sem tilkomin eru eftir að hafa ítrekað þurft að leggja á flótta, eftir að hafa búið við stanslausan ótta, eftir að hafa horft upp á fjölskyldumeðlimi sína beinlínis tætta í sundur fyrir augunum á þeim. Þessir sálrænu áverkar hafa leitt til þess að börn allt niður í fimm ára gömul hafa sagt okkur að þau vilji deyja.“