Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, harmaði í dag að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefði brugðist þegar kæmi að fullnægjandi viðbrögðum við árásarstríði Ísraela á Gaza, sem og við innrás Rússa í Úkraínu. Sagði hann að með viðbragðsleysi sínu hefði Öryggisráðið mögulega grafið harkalega undan stöðu sinni.
Guterres hafði þessi orð yfir í ræðu sinni við upphaf fundar Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf. Þar sagði hann einnig að Öryggisráðið væri iðulega í pattstöðu og „ófært um að bregðast við í mikilvægustu friðar- og öryggismálum vorra tíma“.
„Skortur á samstöðu innan ráðsins varðandi innrás Rússa í Úkraínu og varðandi hernað Ísraela á Gaza í kjölfar hinna hryllilegur hryðjuverkaárása Hamas hinn 7. október hafa að verulegu leyti, mögulega óbætanlega, grafið undan áhrifum þess,“ sagði Guterres einnig. Hann bætti einnig við að þörf væri á verulegum umbótum á starfsháttum Öryggisráðsins, sem og starfsháttum þess.
Yfirlýsingar Guterres koma í kjölfar þess að Bandaríkin beittu neitunarvaldi sínu gagnvart ályktun Öryggisráðsins í síðustu viku, þar sem krafist var tafarlauss vopnahlés á stríðsrekstri Ísraela á Gaza, af mannúðarástæðum. Það var í þriðja sinn sem Bandaríkin beittu neitunarvaldi sínu frá því að árásarstríð Ísraela hófst.
Guterres sagði enn fremur að Rafah væri miðpunktur þeirrar mannúðaraðstoðar sem hægt væri að veita á Gaza og allsherjarárás Ísraelshers á borgina myndi hafa hrikalegar afleiðingar. Ef af árásinni yrði myndi það þýða að síðasti naglinn í kistuna yrði rekinn þegar kæmi að mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna.