Nú þegar aðeins tólf tímar eru síðan Bjarni Benediktsson varð forsætisráðherra hafa yfir sjö þúsund manns skrifað undir yfirlýsingu á Ísland.is þar sem segir: Bjarni Benediktsson hefur ekki minn stuðning sem forsætisráðherra. Þetta jafngildir um 10 manns á hverri mínútu. Og er þó nóttin innan þessa tíma, þegar flestir sofa og fáir tjá sig um pólitík.
Þessi miklu viðbrögð endurspegla mikið vantraust landsmanna á Bjarna Benediktssyni, sem er óvinsælasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar. Einstaka stjórnmálamenn hafa mælst með lítið traust og mikið vantraust um skamma stund, en enginn jafn afgerandi og lengi og Bjarni.
Síðast þegar Maskína spurði um traust til ráðherranna sögðust aðeins 16,7% treysta Bjarna en 74,7% vantreysta honum. Þetta var langversta útkoma ráðherranna. Vantraustið á Bjarna var yfirgnæfandi í öllum aldurshópum og öllum byggðum, meðal tekjulágra sem tekjuhárra og meðal allra kynja. Konur höfðu þó afgerandi minna traust á Bjarna en karlar. Aðeins 10,9% kvenna treystu Bjarna en 21,9% karla.
Eini hópurinn sem treysti Bjarna frekar en vantreysti voru kjósendur Sjálfstæðisflokksins. 67,5% Sjálfstæðisflokksfólk treysti Bjarna. Næst kom stuðningsfólk Vg, en 26,2% þess treysti Bjarna. Svo kom Miðflokksfólk með 22,1% traust og Framsóknarmenn með 12,9%. Traust stuðningsfólks annarra flokka til Bjarna mældist í eins stafs tölu. Enginn sósíalisti treysti Bjarna samkvæmt þessari mælingu.
Bjarni var forsætisráðherra í um átta mánuði árið 2017. Þá var traust á honum mælt tvisvar. Það mældist 28% fjórum mánuðum eftir að hann tók við en 19% undir lok ferils hans. Þetta er með lökustu mælingum á trausti til forsætisráðherra. Geir H. Haarde mældist með 22% traust eftir Hrun, Jóhanna hékk í 18% trausti þegar ríkisstjórn hennar var orðin verklaus og kom engu í gegn og Sigmundur Davíð féll niður í 10% traust eftir að hann gekk út úr viðtali um félag sitt Wintris, sem var í Panamaskjölunum.
Hér má skrifa undir yfirlýsinguna: Bjarni Benediktsson hefur ekki minn stuðning sem forsætisráðherra