Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra segir að upplýsingaóreiða ríki um hlutverk utanríkisráðherra og veltir því fyrir sér hvort að ásetningur liggi að baki því þegar haldið er á lofti röngum fullyrðingum um framgöngu hans í þá tíð er hann sat á þeim stóli.
Þetta kemur fram í grein sem Guðlaugur Þór skrifar í Morgunblaðið í dag og fjallar um sérstaka vernd sem Venesúelabúum var veitt hér á landi. Guðlaugur segir að sér hafi undanfarið borist fyrirspurnir úr mörgum áttum um af hverju hann hafi sem utanríkisráðherra ákveðið að veita þá sérstöku vernd. „Í fyrstu gerði ég ráð fyrir, og taldi augljóst, að um misskilning væri að ræða enda hafði ég sem utanríkisráðherra ekkert forræði yfir þessum málum og ákvörðunum þeim tengdum. Ég taldi þessa staðreynd máls augljósa og gerði ráð fyrir því að þetta væri öllum ljóst, enda heyra útlendingamál ekki undir utanríkisráðuneytið,“ skrifar Guðlaugur.
Hann rekur áfram í greininni að þrátt fyrir þetta hafi fyrirspurnum af sama tagi ekki linnt. Blaðamaður Morgunblaðsins hafi þannig haldið þessu fram síðastliðið haust í þættinum Dagmálum. Steininn hafi þó tekið úr að mati Guðlaugs Þórs þegar þáttarstjórnandi í Vikulokunum í Rás 1 hafi fullum fetum haldið hinu sama fram í febrúar án þess að viðmælendur hafi andmælt því með nokkrum hætti. Hið sama hafi átt sér stað í vinsælum hlaðvarpsþætti og nýlega einnig á prenti í Viðskiptablaðinu þar sem sagði: „Guðlaugur Þór Þórðarson ákvað af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að opna landið fyrir fólki frá Venesúela…“
„Þessar fullyrðingar eru kolrangar,“ skrifar Guðlaugur Þór. Útlendingamál og þar með talin málefni kærunefndar útlendingamála hafi ekki verið á hans könnu sem utanríkisráðherra, „ekki frekar en málefni Landspítalans eða Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Aðrir ráðherrar báru ábyrgð á málaflokknum“.
En þrátt fyrir það, skrifar Guðlaugur Þór, fljúgi fiskisagan áfram og upplýsingaóreiðan aukist, þar sem einn endurtaki ummæli annars. „Það er ekki annað hægt en að velta vöngum yfir því hvort einfaldlega sé um að ræða misskilning eða hvort ásetningur liggi að baki þeirri undarlegu og röngu söguskýringu að utanríkisráðherra beri ábyrgð á ákvörðun sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar á málefnasviði dómsmálaráðuneytisins um aukna vernd íbúa Venesúela.“