Samkvæmt könnunum Maskínu er næsta víst að Katrín Jakobsdóttir næði ekki kjöri ef tillögur hennar um breytingar á stjórnarskrá hefði náð fram að ganga. Katrín lagði til forgangsröðunaraðferð, eins og til dæmis er notuð á Írlandi, í stað núgildandi aðferðar, að sá frambjóðandi sé kjörinn sem fær flest atkvæði.
Í frumvarpi Katrín frá 2021 er gert ráð fyrir að í 5. grein stjórnarskrárinnar standi: „ Forseti skal kjörinn beinum, leynilegum og almennum kosningum af þeim er kosningarrétt hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 2,5% kosningarbærra manna og mest 5%. Sá sem flest fær atkvæði með forgangsröðunaraðferð, ef fleiri en einn eru í kjöri, er rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu.“
Frumvarpið var lagt fram en aldrei mælt fyrir því, það dagaði uppi. En ef það hefði náð í gegn er líklegt að möguleikar Katrínar til að verða forseti yrðu að engu.
Í forgangsröðunarkosningum númerar kjósendur frambjóðendur. Í yfirstandandi kosningum getur hann merkt frambjóðendur frá 1 og upp í 12, en þarf þess ekki. Kjósendur geta kosið að merkja aðeins við einn, tvo, þrjá og svo framvegis. Talningin fer þannig fram að talið er þar til einn frambjóðandi hefur fengið meira en 50% atkvæða. Ef enginn nær því í fyrstu umferð er sá sem hefur fæst atkvæði felldur burt og auka-atkvæði kjósenda hans skipt á milli þeirra sem eftir eru og svo koll af kolli.
Maskína gerði svona könnun undir lok síðustu viku, bað þátttakendur að númera frambjóðendur með írsku lagi. Í könnun Maskínu var röðin þessi eftir fyrsta val:
Katrín Jakobsdóttir: 25,5%
Halla Tómasdóttir: 19,2%
Baldur Þórhallsson: 18,2%
Halla Hrund Logadóttir: 17,5%
Jón Gnarr: 11,8%
Arnar Þór Jónsson: 5,3%
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir: 1,1%
Ástþór Magnússon: 0,5%
Viktor Traustason: 0,5%
Ásdís Rán Gunnarsdóttir: 0,4%
Helga Þórisdóttir: 0,2%
Eiríkur Ingi Jóhannsson: 0,1%
Þegar búið var að fella þau sjö neðstu út og dreifa aukaatkvæðum þeirra á meðal hinna var röðin þessi:
Katrín Jakobsdóttir: 25,8%
Halla Tómasdóttir: 21,3%
Baldur Þórhallsson: 19,7%
Halla Hrund Logadóttir: 19,5%
Jón Gnarr: 13,7%
Og þegar Jón Gnarr var felldur burt var röð þeirra fjögurra sem eftir var þessI
Katrín Jakobsdóttir 28,5%
Baldur Þórhallsson 25,1%
Halla Tómasdóttir 24,3%
Halla Hrund Logadóttir 22,0%
Þar með væri Halla Hrund felld burt og auka atkvæði hennar skipt á milli hinna þriggja. Þá væri röðin þessi:
Baldur Þórhallsson 34,5%
Halla Tómasdóttir 34,4%
Katrín Jakobsdóttir 31,0%
Og þar með félli Katrín út og auka-atkvæði kjósenda hennar yrðu skipt á milli tveggja efstu. Og niðurstaðan yrði þessi:
Halla Tómasdóttir 50,9%
Baldur Þórhallsson 49,1%
Og þar með yrði Halla Tómasdóttir kjörin forseti. Miðað við þessa könnun Maskínu og ef kosningakerfið yrði eins og stjórnlagaráð lagði til og síðar Katrín Jakobsdóttir sjálf. Eins og sést á þessu myndi írska leiðin tryggja að frambjóðandi sem nýtur fjórðungsfylgis en sem aðrir kjósendur vilja alls ekki geti náð kjöri.
Það sama kom fram í könnun Maskínu vikunni á undan. Þá var fylgi Höllu Hrundar meira svo niðurstaðan hefði orðið sú að hún og Katrín hefðu setið eftir þegar Baldur Þórhallsson félli út. Í þeirri umferð voru þær Katrín og Halla Hrund með jafn mikið fylgi, 34,8%. En þar sem fylgi Baldurs fór að meira en 2/3 hlutum til Höllu Hrundar varð niðurstaðan að hún fékk 56% atkvæða en Katrín aðeins 44%.