Leigufélagið Alma auglýsti nýverið til leigu 35 fermetra stúdíóíbúð í kjallara við Digranesveg í Kópavogi á litlar 210 þúsund krónur á mánuði. Alla jafna hefði verðlagið þótt fréttnæmt í sjálfu sér, enda gífurlega hátt verð fyrir stúdíóíbúð, sér í lagi í kjallara og langt fyrir utan vinsæl svæði í miðbænum eða Vesturbæ.
En nei, það sem vekur sérstaklega athygli að þessu sinni eru þær upplýsingar sem fylgdu í leiguauglýsingunni um að hvorki væri hægt að fá þinglýstan leigusamning fyrir íbúðina né færa lögheimili á íbúðina.
Hvoru tveggja bendir til þess að íbúðin sé í raun ekki samþykkt hvað varðar byggingarstaðla.
Umræða um auglýsinguna spratt upp í hópi leigjenda á Facebook, Umræðuhópur leigjenda, þar sem margir leigjendur eru forviða á verðlagi og þessum upplýsingum, en sér í lagi spyrja margir sig hvort að það sé löglegt að auglýsa slíka íbúð til leigu.
„Enginn samningur. Er verið að stinga undan skatti eða??“, spyr ein manneskja í umræðuhópnum. „Maður hefði haldið að leigufélög þyrftu að hafa löglegar íbúðir í útleigu, sem færu eftir öllum kröfum varðandi t.d. brunaöryggi og tryggingar.“
Önnur manneskja segir „svo mikið ógeð“ um leigufélagið. „Karma á eftir að bíta ölmu í rassin.. einn góðan veður dag er eg viss um..“, segir enn önnur.
Þetta væri ekki í fyrsta skipti sem leigurisinn Alma auglýsir bæði okurleigu og undarleg skilyrði, enda fyrirtækið orðið alræmt fyrir löngu fyrir siðferðislega vafasama viðskiptahætti sína.
Þegar fyrirtækið snarhækkaði leiguverð á öryrkja árið 2022 varð þannig í kjölfarið til sniðgönguhreyfing gegn fyrirtækinu og tengdum fyrirtækjum, sem almennir leigjendur, borgarar og Leigjendasamtökin hafa haldið á lofti.
Eins og áður hefur komið fram í umræðu um leigufélagið Ölmu þá er það í eign hóps hinna svokölluðu Mata-systkina; Eggerts Árna, Guðnýju Eddu, Halldórs Páls og Gunnars Þórs. Ásamt Ölmu eiga þau heildsölufyrirtækið Mata í viðskiptaveldi sem þau erfðu frá athafnamanninum Gísla V. Einarssyni, föður þeirra, sem var um áratugabil áhrifamikill maður í íslensku viðskiptalífi og sat í stjórnum opinberra fyrirtækja og banka svo dæmi séu tekin.
Veldi Mata-systkinanna inniheldur líka fyrirtækin Ali, Matfugl, Freyju og Salathúsið. Ásamt leigufélaginu Ölmu eru fyrirtækin öll sameinuð undir einn móðurfélagshatt í Langisjór ehf.
Systkinin hafa greitt sér út marga milljarða í arð á undanförnum árum og verið gerð afturreka með ýmislegar ráðagerðir um að koma hagnaði sínum undan skatti í skattaskjólum erlendis. Heimildin rak sögu ættarveldisins ítarlega á síðasta ári og þar var um að ræða langa sögu fúsks og brasks þessara systkina.
Leigufélagið Alma er enn sem áður gríðarstórt á íslenskum leigumarkaði með um 1100 íbúðir í sínum fórum. Verðlag þeirra er afar hátt í almennu tilliti og hefur fyrirtækið verið leiðandi í hækkunum á almennu verðlagi leiguverða.