Eftir að þjóðin hafði sofnað í kvíðakasti eftir erindi Geirs H. Haarde til þjóðarinnar fyrir fjórtán árum, að kvöldi 6. október 2008, vaknaði hún við það að morgni næsta dags að Davíð Oddsson tilkynnti að rússneska ríkið hefði fallist á að veita Íslandi fjögurra milljarða evra lán, 565 milljarða króna á gengi dagsins í dag.
Í dag er sem sé Hrundagurinn, dagur til að minnast þess þegar nýfrjálshyggjan hrundi yfir Íslendinga, og yfir heimsbyggðina alla. Þrátt fyrir Hrunið var þessi stefna rekin áfram og hefur hlaðið upp í annað hrun. Fyrir fjórtán árum var sagt að fall Lehman bræðra hafi valdið hruni. Nú er fylgst með orðum og athöfnum Lehmann bankastjóra Credit Suisse sem reynir hvað hann getur að bjarga bankanum frá gjaldþroti eða yfirtöku svissneska ríkisins.
Lis Truss hélt varnarræðu nýfrjálshyggjunnar í gær. Hélt því fram að ekki ætti að skattleggja hin ríku vegna þess að peningnum væri miklu betur komið í höndum þeirra sem kynnu með þá að fara, þ.e. hinna ríku en ekki ríkisins. Sem ætti ekki að skipta sér af, ekki hafa eftirlit, ekki setja reglur, ekki skattleggja og ekki byggja upp velferðarríki; láta allt eftir hinum ríku svo þau gætu skapað sína veröld og lyft okkur öllum upp til velsældar og sælu.
Rússneska lánið kom aldrei þrátt fyrir sterk tengsl Sjálfstæðisflokksins við Putín á þessum árum. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafði gert Moskvuborg Júrí Luzhkov, náins bandamanns Pútíns, að vinabæ Reykjavíkur um svipað leyti og Sjálfstæðisflokkurinn var í bandalagi með flokki Pútíns, Sameinað Rússland, í Evrópuráðinu. Kannski geta Íslendingar þakkað fyrir það í dag, að lánið reyndist einhver misskilningur hjá Davíð.
Við munum fjalla um Hrundaginn við Rauða borðið í kvöld. Góð upphitun fyrir þá umfjöllun er þetta erindi Geirs H. Harrde sem hann flutti fyrir fjórtán árum.
Myndin sem fylgir fréttinni er af Davíð Oddssyni þegar hann útskýrði hið stóra lán frá Rússum í Kastljósi 7. október 2008.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga