„Þetta kveikir í okkur reið, því við viljum ekki að svona gerist í okkar samfélagi, og fyrstu viðbrögð eru að sýna mikla hörku. Þetta verði að stoppa og að þetta verði ekki stoppað nema hörku eins og dauðarefsingu. Að við verðum að gjalda líku líkt, þetta er bara gamla testamentið. En ég held að við sem samfélag, velferðarsamfélag, erum komin yfir þetta stig. Við verðum engu bættari að beita dauðarefsingu, þá erum við að halda áfram þessari ofbeldisöldu.“
Þetta segir Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur í viðtali við Rauða borðið sem sýnt verður í kvöld. Helgi ræðir stöðuna sem upp er komin í samfélaginu eftir að barn drap barn með hnífi. Óhætt er að segja að þjóðin sé í áfalli en hjá sumum vekur málið fyrst og fremst reiði. Til marks um það þá hafa sumir á samfélagsmiðlum kallað eftir dauðarefsingu. Helgi er ómyrkur í máli og segir að harðari refsingar, hvað þá dauðarefsing, séu ekki fara að leysa þetta samfélagslega vandamál. Hann telur að aukin svartsýni og spenna gæti skýrt alvarlegra ofbeldi á Íslandi í dag en áður.
„Er svarið við því þegar börnin okkar fremja afbrot, í þessu tilviki mjög alvarlegt brot, að refsa af mikilli hörku? Það eru fyrstu viðbrögð en rannsóknir sýna að það að beita allt í einu mjög hörðum refsingum fyrir brot af þessu tagi, það dregur ekki úr brotum af þessu tagi. Það er alveg klárt. Rannsóknir í afbrotafræði, sem eiga sér áratugasögu, sýna okkur það svart á hvítu,“ segir Helgi.
Auk þess segir Helgi að dauðarefsingar njóti ekki mikils stuðnings meðal Íslendinga alla jafna. „Við afnámum dauðarefsingu 1928, síðasta aftakan var Agnes og Friðrik, líkt og frægt er, árið 1830. Þannig að þetta er löngu komið út úr okkar lagabókum og þetta er komið út úr lagabókum hjá öllum Vesturlöndum nema Bandaríkjunum. Afstaða Íslendinga til dauðarefsingar, þetta var innan við 10 prósent sem sýndi stuðning við það að taka upp dauðarefsingu. Það var yfirgnæfandi meirihluti andvígur því.“
Ítarlegt viðtal við Helga Gunnlaugsson afbrotafræðing má sjá og heyra við Rauða borðið í kvöld.