Orsakir stríðsins í Tígraí í Eþíópíu alls ekki eins og menn halda, gangur stríðsins hefur tekið óvænta snúninga þvert á væntingar, erlendir aðilar hafa reynst styðja þá sem þeir ættu að fordæma. Sjaldan hefur eins mikill misskilningur ríkt um nokkurt stríð, sjaldan hefur eins miklu verið logið og sjaldan hefur framganga Vestrænna ríkisstjórna verið skammarlegri og yfirhylming mannréttindabrota magnaðri.
Tvö stærstu þjóðarbrot Eþíópía eru Amhara (20%) og Oromo (25%), Amhara eru búsettir suður af Tígraí, en Oromo dreifast um miðbik landsins. Önnur helstu þjóðarbrot eru Tigraí, (5%), Somali (5%), Sidama (2.5%) auk mikils fjöldi annarra. Afar fylki er merkt á kortið, það er að mestu eyðimörk og íbúar 1,3% þjóðarinnar. Tölur byggðar á manntali 2007. Átök undanfarinna ára hafa einkum farið fram í Amhara og Afar fylkjum, en mest lítið í sjálfu Tígraí.
TPLF samtökin hófu stríðið aðfaranótt 4. nóvember 2020 þegar þeir rufu símasamband og internetsamband Tígraí við umheiminn. Flugumenn TPLF innan sambandshersins í höfuðborginni Addis Ababa rufu öll fjarskipti við þann rúmlega helming sambandshersins sem var staðsettur í Tígraí, en bardagasveitir TPLF réðust á herstöðvar sambandshersins og ýmist stökktu þeim á flótta yfir landamærin til Erítreu eða tóku þá í gíslingu í héraðshöfuðborginni Mekelle.
Það leið nærri sólarhringur áður en ríkisstjórn Eþíópíu vissi hvað var að gerast, og fréttir af átökum bárust fyrst í erlenda fjölmiðla daginn eftir, sama dag og forsetakosningar voru haldnar í Bandaríkjunum. Strax frá byrjun var ljóst að þekkingarleysið var algjört. Nánast enginn sem um stríðið fjallaði í Vestrænum fjölmiðlum vissi hvað var að gerast eða hverjar orsakirnar gætu verið. Þeir þekktu ekki forsögu átakanna og voru óvitandi um nútímasögu Eþíópíu. Sambandsleysið reyndist átylla furðufrétta: menn virðast geta skrifað hvaða vitleysu sem þeim sýnist ef þeir slaufa aftan við að í raun viti enginn hvað er að gerast
Fyrsta yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var óheppilega orðuð og illa þýtt og mátti túlka sem svo að þar hafi menn fengið nóg af óspektum TPLF og ákveðið að hefja stríð gegn þeim. Samt var öllum það ljóst sem vita vildu að það var TPLF sem hóf stríðið, enda viðurkenndu þeir það sjálfir stuttu seinna á eigin sjónvarpsrás og hafa aldrei farið dult með það hvorki í ræðu né riti.
Þjóðfrelsisbarátta eða valdagræðgi?
Algengasti, og skiljanlegasti, misskilningurinn virðist vera sá að hér sé á ferðinni einhvers konar þjóðfrelsisstríð, barátta þjóðarbrots fyrir sjálfstæði, enda stendur skammstöfunin TPLF fyrir „Tigray Peoples Liberation Front“. Samtökin voru stofnuð fyrir hálfri öld til að berjast gegn þáverandi kommúnistastjórn Derg, við hlið mun öflugri frelsissamtaka Eritreumanna. Það voru hinir síðarnefndu sem unnu stríðið gegn Derg 1991, en markmið þeirra var að Eritrea fengi sjálfstæði. Ný stjórnarskrá var samin sem skipti Eþíópíu upp í fylki sem hvert um sig gat lýst yfir einhliða sjálfstæði. Erítreumenn héldu kosningar um sjálfstæði sem þeir og fengu 1994, en engum datt í hug að sækja um sjálfstæði fyrir Tígraí fylki.
Sú hugsun að þjóðir og þjóðarbrot eigi og vilji vera sjálfstæð er mjög rík í Vesturlandabúum en á alls ekki alltaf við í öðrum heimshlutum. Það þjóðarbrot sem byggir Tígraí er um 5-6% íbúa Eþíópíu. En helmingur Tígraí þjóðarbrotsins býr í Erítreu og er þar í meirihluta. Samt gerir Eritrea ekkert tilkall til Tígraí en lítur þvert á móti á TPLF sem þeirra helstu ógn. Yfirlýst stofnmarkmið TPLF frá 1976 er enda að leggja undir sig búsvæði Tígraí-fólks í Eritreu og Eþíópíu ásamt mestöllu búsvæði Amhara, og stofna þar Stór-Tígraí sem yrði sjálfstætt ríki. Eina skiptið þar sem íbúar Tígraí eða Erítreu voru spurðir um eigin framtíð var þegar mikill meirihluti Tígraí þjóðarbrotsins í Erítreu kaus sjálfstæði frá hinum helmingnum.
Eitt stærsta þjóðarbrotið á Horni Afríku eru Sómalar sem tala allir sama tungumál og fylgja sömu trúarbrögðum. Þeir dreifast á fjögur ríki hið minnsta (Djíbútí, Eþíópíu, Sómalíu og Kenía) en það talar enginn um að sameina þessa þjóð – þvert á móti er Sómalía sjálf að klofna með aðskilnaði Sómalílands. Vestrænar hugmyndir um sjálfræði þjóða hafa reynst stórhættulegar í Evrópu sjálfri, og eiga sjaldan erindi annars staðar.
En það má vissulega með réttu benda á að yfirlýst langtímamarkmið TPLF sé sjálfstætt Tígraí, talsvert stærra en núverandi fylki, á kostnað Erítreu en einnig Eþíópíu, einkum Amhara fylkis. Það má sjá stríðið 1998-2000 sem skref í átt að þessu markmiði, Eþíópíustjórn undir leiðsögn TPLF hóf stríðið vegna landamæradeilna og reyndi ítrekað að sækja fram til sjávar án árangurs. Einnig stækkun Tígraí fylkis þegar TPLF stóð fyrir samningu stjórnarskrár 1991. Stór svæði sem íbúar Amhara telja tilheyri sér voru lögð undir Tígraí, og þessi svæði eru helstu þröskuldar í vegi fyrir friðarsamningum núna.
Friðsamlegt valdarán endurreisir lýðræðið
En aftur að nútímanum: markmið TPLF þegar þeir hófu núverandi stríð var að steypa ríkisstjórn Eþíópíu og endurheimta fyrri völd í landinu. Eftir að Erítreumenn sögðu skilið við Eþíópíu 1994 sat TPLF eftir sem öflugasta stjórnámalaflið í landinu vegna langrar reynslu þeirra af stjórnsýslu og skipulagningu, en megnið af núverandi Tígraí fylki var undir þeirra stjórn mestallan 9. áratuginn fram að falli Derg.
TPLF stjórnaði landinu í 37 ár segja heimamenn (1991-2018), í skjóli fjórflokks sem þeir stofnuðu ásamt fulltrúum annarra þjóðarbrota, einkum Amhara og Oromo. Með því að sitja á öllum helstu ráðherrastólum og fara með yfirstjórn her- og öryggismála í landinu gátu þeir ráðið því sem þeir vildu, ekki síst með því að espa saman tveimur stærstu þjóðarbrotunum. Amhara og Oromo eru tveir stærstu tungumálahóparnir í Eþíópíu, þeir fyrrnefndu eru yfirgnæfandi kristnir og líta á sig sem hina upphaflegu Eþíópíubúa, enda er opinbert tungumál enn Amharíska. Íbúar af Oromo uppruna eru flestir múslímar og líta margir á Amhara sem sögulega kúgara sína. Það er því af nógu að taka ef menn vilja æsa Amhara upp á móti Oromo og öfugt, nokkuð sem óvinir Eþíópíu hafa nýtt sér óspart og TPLF ekki minnst.
Framan af virtist almenningur sáttur við hina nýju ríkisstjórn og lýðræðislegar kosningar 2000 og 2005 fóru vel fram. En Í kosningunum 2010 stefndi í stórtap stjórnarflokksins og leiðtogi TPLF og forsætisráðherra, Meles Zenawi, sleit talningu og lýsti yfir sigri. Við tók sannkölluð ógnarstjórn sem Eþíópíubúar eru enn að ná sér eftir. Málfrelsi og stjórnmálafrelsi var afnumið, fangelsanir án dóms og laga auk pyntinga varð daglegt brauð. Meles lést 2012 (Eþíópíubúar ávarpa hvorn annan með eiginnafni eins og Íslendingar) og við tók Haile-Mariam Desalegn, upprunninn í litlu þjóðarbroti syðst í landinu, og í raun lítið annað en leppur TPLF.
Ungir leiðtogar í hinum ýmsu fylkisstjórnum og ekki síst háttsettir aðilar innan Amhara og Oromo, hófu að undirbúa að koma TPLF frá völdum og endurreisa lýðræði í landinu. Kosningarnar 2015 reyndust algjör skrípaleikur og miklar óeirðir brutust út og fóru vaxandi næstu árin. Haile-Mariam, sem reyndist síðar hafa verið í nánu samráði við þessa ungu stjórnmálamenn, sagði af sér skyndilega 2018, vegna ástandsins í landinu að sögn, og áður en TPLF gat brugðist við voru hinir flokkarnir í ríkisstjórninni búnir að velja sér nýjan forsætisráðherra, Dr. Abiy Ahmed.
Það er erfitt að lýsa þeirri öldu feginleika og gleði sem reið yfir Eþíópísku þjóðina í kjölfar stjórnarskiptanna 2018. Málfrelsi og stjórnmálafrelsi var komið á að nýju (og hefur haldist að mestu síðan, þótt ekki sé það fullkomið frekar en víða annars staðar). Bannaðir stjórnmálaflokkar voru aftur leyfðir, pólitískum föngum sleppt úr haldi. Ný ríkisstjórn tók við völdum skipuð konum og körlum til helminga, en það sem mestu skipti: TPLF hvar hvergi sjáanlegt.
Dr. Abiy Ahmed (til vinstri) sver hollustueið sem nýkjörinn forsætisráðherra. Fráfarandi forsætisráðherra Haile-Mariam Desalegn til hægri. Þessir tveir ásamt fleiri stjórnmálamönnum unnu að því bak við tjöldin að koma TPLF frá völdum og endurreisa lýðræði í Eþíópíu. Byltingin heppnaðist að fullu og Eþíópíska þjóðin varpaði öndinni léttara.
Undirbúningur stríðs
Fylkisstjórnin í Tígraí var þó áfram að fullu mönnuð TPLF liðum, og þangað náði byltingin ekki. TPLF hafði stjórnað Tígraí að mestu frá því eftir 1980 og að fullu frá 1991 og fram á þennan dag. Þá tæpu fjóra áratugi sem þeir fóru með öll völd í Eþíópíu sjálfri virðast þeir hafa notað til að undirbúa að heyja stríð til að verja valdastöðu sína. Miklar vopnabirgðir voru grafnar í jörðu í Tígraí á þessum áratugum og heilu gámarnir af peningaseðlum voru settir til hliðar, enda þarf að borga hermönnum laun. TPLF tryggði að sambandsherinn væri lítill en vel vopnum búinn, og að hann væri staðsettur að mestu í Tígraí vegna stríðsins við Erítreu. Og loks keyrði TPLF flugher Eþíópíu í svaðið, fjölmiðlar í Tígraí sögðu frá því í gríni 2019 að Dr. Abiy væri að reyna að kaupa herflugvélar í „litla flugherinn sinn“.
Erlendir sérfræðingar hafa mikið skrifað um stjórnarfar TPLF gegnum árin og talið er að æðstu menn hafi komið um 40 milljörðum Bandaríkjadala úr landi. Spilling og misnotkun valds voru einkenni þeirra og þegar ný ríkisstjórn tók að hreinsa til í stjórnkerfi og opinberum fyrirtækjum voru það TPLF liðar sem voru látnir taka pokann sinn og fóru oftar en ekki beint í steininn. Mörgum þeirra tókst reyndar að flýja heim í hérað og földu sig í skjóli félaga sinna í Tígraí.
Næstu tvö og hálft ár, frá byltingunni í mars 2018 og fram að upphafi stríðs í byrjun nóvember 2020, einkenndust af vaxandi óvilja TPLF-manna til þátttöku í hinu nýja og lýðræðislega stjórnmálaumhverfi. TPLF fór ekki leynt með hernaðaruppbyggingu sína og voru duglegir að birta áróðursmyndir af hersýningum. Þegar mest var þóttust þeir vera með 250.000 manns undir vopnum. Ríkisstjórnin vissi auðvitað í hvað stefndi en var í erfiðri stöðu – búið var að reka megnið af yfirstjórn hersins sem að auki taldi aðeins um 70.000 manns, þar af rúmlega helmingur staddur í Tígraí vegna langvarandi stríðsástands við Erítreu.
Fylkisher Tígraí fylkis með hersýningu 2019. Samkvæmt stjórnarskrá (sem TPLF samdi) geta fylkin sjálf byggt upp herlið og TPLF nýtti það óspart, og byggði upp talsvert fjölmennara herlið en sambandsherinn. Það var auðvitað öllum ljóst að Tígraí hérað gat ekki staðið undir kostnaði, en TPLF hafiði nýtt valdatíma sinn yfir öllu landinu í tæpa þrjá áratugi til undirbúnings, meðal annars með því að grafa gáma fulla af peningaseðlum í jörðu.
Árið 2020 dróg til tíðinda á mörgum sviðum. Ríkisstjórnin ákvað að fresta kosningum sem halda átti það ár vegna óvissu um hverjar afleiðingar kóróna faraldursins yrði, en almennt var talið á þeim tíma að Afríkuríki myndu fara verst út úr faraldrinum. En fylkisstjórn TPLF neitaði að fylgja fyrirmælum og hélt sínar eigin kosningar (og unnu auðvitað 100% sæta á fylkisþingi). Ríkisstjórnin samdi um frið við Erítreu strax 2018 og var síðan þá búin að undirbúa brottflutning sambandshersins frá Tígraí, en TPLF vildi ekki að sambandsherinn færi og hershöfðingjanum sem átti að sjá um flutninginn var neitað um lendingu í Mekelle.
Loks tók steininn úr þegar ríkisstjórnin tilkynnti skyndilega um gjaldmiðilsbreytingu í september 2020, öllum að óvörum. Gefnir voru þrír mánuðir til að skipta úr gömlu yfir í nýja seðla, og átti breytingin að vera búin í lok nóvember. Erlendir sérfræðingar sem um slíkar breytingar fjalla höfðu orð á því að seðlamagnið sem prentað var benti til þess að mjög mikið magn seðla lægi væntanlega utan hefðbundins stjórnkerfis, líklegast svarta hagkerfinu, en þó miklu meira en við mætti búast.
En það voru seðlagámarnir sem TPLF hafði falið í Tígraí sem voru utan hagkerfisins og rugluðu gjaldmiðlasérfræðinga í ríminu. Einhvern veginn þarf að borga 250.000 hermönnum laun, og lítið og fátækt hérað í fátæku landi gat ekki staðið undir þeim kostnaði. Gjaldmiðilsbreytingin gat aðeins átt sér stað gegnum bankakerfið, og þótt TPLF hafi reynt að skipta eins miklu og þeir gátu með löglegum hætti var ljóst að þetta var aðeins lítill hluti uppsafnaðs peningamagns. Valið var því ljóst – skera verulega niður í hernaðaruppbyggingu eða hefja stríð og steypa ríkisstjórninni áður en peningarnir yrðu verðlausir.
Allt öðru vísi stríð
Strax á fyrstu vikum stríðsins fóru ýmsir spekingar sem til þekktu að skrifa í vestræna fjölmiðla að TPLF væri svo miklu öflugri en stjórnarherinn að þeim ætti að reynast auðvelt að sigra stríðið á stuttum tíma. Sumir þessara spekinga voru leigupennar TPLF og skrifuðu það sem þeim var sagt, aðrir höfðu tekið afstöðu með TPLF af ýmsum ástæðum, ekki síst því vinfengi sem yfirmenn TPFL höfðu veitt þeim fræðimönnum og fjölmiðlamönnum sem sýndu þeim gagnkvæman velvilja.
TPLF hafði áratugi til að byggja upp tengsl við vingjarnlega stemmda fjölmiðlamenn og fræðimenn á Vesturlöndum. Gagnrýnar raddir voru ofsóttar og allt reynt til að þagga niður í þeim eins og hin kanadíska Dr. Ann Fitz-Gerald hefur lýst. Hún er sérfræðingur á sviði alþjóðastjórnmála og virt rödd í alþjóðaumræðu þar í landi. Hún hefur verið mjög gagnrýnin á framferði TPLF áratugum saman og er ein þeirra sem hefur rannsakað ofbeldisverk þeirra og stríðsglæpi. Kanada hefur enda stillt sér upp við hlið Eþíópíu ólíkt mörgum öðrum Vestrænum ríkjum.
Fréttaflutningur á fyrstu vikum stríðsins einkenndist af mótsagnakenndum fréttum um að hinn vondi Dr. Abiy hefði ákveðið að ráðast á aumingja litla Tígraí í geðvonskukasti. En að TPLF væri svo miklu öflugri en sambandsherinn að þeir myndu sigra stríðið á stuttum tíma og endurheimta völd sín.
En stríðið fór allt öðru vísi en menn bjuggust við – það tók innan við þrjár vikur að hrekja TPLF á flótta og endurheimta Mekelle, og um tveimur vikum seinna féll síðasta varnarstaða TPLF manna í gömlum bækistöðvum þeirra í fjallendi suðaustur af Mekelle. Milli 10 og 20 þúsund sambandshermenn voru leystir úr gíslingu og mikill fjöldi TPLF forsprakka handsamaðir.
Nefndar hafa verið ýmsar skýringar á þessari óvæntu niðurstöðu. Fylkisher Amhara fylkis reyndist öflugri en menn bjuggust við og tók fullan þátt við hlið sambandshersins. Þátttaka Eritreu í kjölfar eldflaugaárása TPLF á Asmara skipti einnig talverðu máli. Þeir sem vel til þekkja benda einnig á að stuðningur almennings við TPLF innan Tígraí hafi verið talsvert minni en þeir sjálfir og aðrir höfðu reiknað með.
En það voru drónarnir sem eru almennt taldir hafa ráðið úrslitum í þessari fyrstu lotu stríðs. Þegar Dr. Abiy var að þykjast kaupa flugvélar í „litla flugherinn sinn“ var hann í raun að byggja upp öfluga drónadeild innan flughersins, og vegna áhugaleysis TPLF á þessu sviði tókst það án þeirra vitneskju. Kínverskar eftirlíkingar Predator drónans Bandaríska, sem frægur varð í seinna Íraksstríði, voru keyptar og drónastjórnstöð byggð skammt norður af Addis Ababa. Hefðbundinn hernaður TPLF hafði enga möguleika gegn nútíma drónum.
Way Loong drónarnir Kínversku eru almennt taldir eftirlíkingar af Predator dróna Bandaríkjahers. Í aðdraganda stríðs hafði Eþíópíustjórn komið sér upp öflugri drónaherdeild án vitneskju TPLF. Þessir drónar réðu úrslitum í fyrstu lotu stríðsins, en síðar hefur Eþíópíustjórn fengið mikinn fjölda Baktyar dróna fra Tyrklandi þrátt fyrir tilraunir Bandaríkjamanna til að koma í veg fyrir það.
Vesturlönd taka afstöðu gegn lýðræðislegri ríkisstjórn
Þessi fyrsta lota stríðsins reyndist aðeins forleikur að því sem koma skyldi. Sambandsherinn var að vísu búinn að vinna stríðið, en var mjög laskaður og hafði misst verulega mikið af vopnabúnaði og mannafla, en mannfall á báða bóga má telja í tugum þúsunda. TPLF átti enn megnið af liðsafla sínum í felum víðs vegar um Tígraí en um 50.000 höfðu flúið til Súdan og áttu eftir að stunda hernað þeim megin frá næstu árin. TPLF hóf því þegar undirbúning að næstu lotu. Fyrst þurfti að koma sambandshernum út úr Tígraí og til þess beittu þeir skæruhernaði en ekki síst áróðurshernaði.
Almenningi í Tígraí var af TPLF talin trú um að sambandsherinn ætlaði að fremja víðtæk fjöldamorð á íbúum fylkisins. Og á Vesturlöndum var sami leikur leikinn, fjölmiðlar tóku að birta óstaðfestar fréttir af meintum stríðsglæpum sambandshersins, fjöldamorðum og skipulögðum hópnauðgunum svo eitthvað væri til talið án þess að reyna að komast að hinu sanna. Fréttir af raunverulegum fjöldamorðum sem TPLF liðar frömdu í Mai Kadra á fyrstu viku stríðsins hurfu í þessa áróðursbylgju vestrænna fjölmiðla sem núna skall á Eþíópíu.
Það tók íbúa Eþíópíu nokkra mánuði að átta sig á því hatri gegn landi þeirra sem skyndilega virtist vella upp úr Vestrænum fjölmiðlum. Eflaust munu fjölmiðlafræðingar framtíðar rannsaka það hversu vel TPLF tókst að fá fjölmiðla til að birta einhliða fréttir eftir forskrift og brjóta algjörlega grundvallar reglur heiðarlegrar fréttamennsku.
Ríkisstjórnir á Vesturlöndum tóku nú einnig að sýna fjandskap gagnvart Eþíópíustjórn, og fremst fór ný ríkisstjórn Bandaríkjanna. Fráfarandi ríkisstjórn Trump hafði sýnt stríðinu lítinn áhuga, en ýmsir framámenn þar höfðu þó tekið afgerandi afstöðu gegn TPLF, meðal annars Michael A Raynor þáverandi sendiherra Bandaríkjanna í Eþíópíu.
Demókratar hafa hins vegar alltaf verið herskárri og margir í hinni nýju ríkisstjórn hafa lengi verið fylgjandi hernaðaríhlutunum og stríðsrekstri ef það mætti efla áhrif og stöðu Bandaríkjastjórnar. Meðal þessara hauka voru ýmsir sem höfðu verið í ríkisstjórn Obama og Clinton áður, þeirra á meðal Samantha Power, Suzan Rice og Antony Blinken.
Ríkisstjórn Dr. Abiy hefur reynt af ýtrasta megni að efna til friðsamlegra samskipta milli ríkja á Horni Afríku og orðið talsvert ágengt. Friðarsamningar við Erítreu báru auðvitað hæst, en friðsamleg samskipti við Djíbúti, Sómalíu, Sómalíland og Suður Súdan efldist mjög. Úganda og Kenía hafa hefðbundið verið vinveitt Eþíópíu og voru það að mestu áfram.
Bandaríkjamenn einhverjir virðast hafa talið þessa nýja friðsamlegu stöðu undir leiðsögn Eþíópíu, langfjölmennasta ríkis á svæðinu, sem ógn við hagsmuni þeirra. Hin nýja ríkisstjórn var þeim ókunnug, en flestir haukanna meðal Demókrata höfðu haft góð tengsl við TPLF, nokkuð sem Eþíópíumenn hafa seint fyrirgefið þeim – Obama er t.d. engin hetja þar í landi þrátt fyrir afrískan uppruna og sögufræga heimsókn. Ríkisstjórn Dr. Abiy virtist vilja stunda sjálfstæða utanríkisstefnu, sem fólst meðal annars í því að viðhalda vinsamlegum samskiptum við Kínverja og Rússa ekki síður en Bandaríkjamenn. En það er víst ekki nógu gott í augum hinna síðastnefndu.
Bandaríkjamenn tóku upp mjög fjandsamlega stöðu gagnvart Eþíópíu undir yfirskyni hlutleysis. Sérlegur sendifulltrúi þeirra á Horni Afríku, Jeffrey Feltman, reyndi að fá Tyrki og Sameinuðu Arabísku Furstadæmin til að hætta hernaðarstuðningi við Eþíópíustjórn, en hélt því á sama tíma fram að Bandaríkjastjórn væri hlutlaus, tæki ekki afstöðu með hvorugum aðilanum. Nokkuð sem danski blaðamaðurinn Rasmus Sonderiis hefur fjallað um og bent á að umbótasinnuð ríkisstjórn lýðræðisríkis með langvarandi stöðu bandamanns sé að berjast fyrir tilveru sinni gagnvart fyrrum einræðisherrum – og Bandaríkjastjórn ákveður að vera hlutlaus? Þetta er ekkert nema rýtingur í bakið á Eþíópíustjórn að mati Rasmus.
Þrýstingur jókst úr öllum áttum, og hótanir um viðskiptaþvinganir af hálfu Bandaríkjamanna og síðar einnig Evrópusambandsins bættu ekki ástandið. Að lokum ákvað stjórnin að draga sambandsherinn, sem enn var verulega laskaður, að mestu út úr Tígraí um mitt sumar 2021, nokkuð sem kom mönnum mjög á óvart.
Fylkisher Amhara og Erítreuher voru þegar farnir út úr Tígraí nokkru áður. Samt var mikilvæg undantekning hér á: Svæði það sem margir kalla Vestur Tígraí en er oftar kallað Welkeit meðal Eþíópíumanna, var áfram á valdi sambandshersins og í raun innlimað í Amhara fylki. TPLF liðar voru því einangraðir í þeim 3/4 hluta Tígraí fylkis sem þeir héldu eftir, en Erítreuher ásamt fylkisher Amhara hafa varið Welkeit gegn öllum áhlaupum TPLF nánast frá fyrstu viku stríðsins (sjá kort hér fyrir neðan).
Árásarstríð og stórfelld mannréttindabrot í skjóli þagnar Vesturlanda
Næsta skrefið í hernaðaráætlunum TPLF var að beita allri Tígraí þjóð sem vopni nú þegar ljóst var að hefðbundinn hernaður fyrstu tilraunar hefði mistekist gegn drónavæddum nútímaher. Mannhafsbylgjutaktík er gamalreynd hernaðartækni, sem gengur út á að beita miklum mannfjölda gegn fámennari varnarsveitum, og skiptir þá ekki öllu máli hvort allir séu vel vopnaðir eða hafi fengið nægja þjálfun.
Mikið magn hjálpargagna hefur borist til Tígraí allan þann tíma sem stríðið hefur staðið. En um mitt síðasta ár tóku trukkarnir að „týnast“ í Tígraí og hafa ekki enn skilað sér. Það má með ólíkindum telja að WFP hafi getað misst þá rúmlega 1000 trukka sem hurfu án þess að kvarta – og að þeir hafi sífellt fundið fleiri trukka til að keyra frá miðri Afar eyðimörkinni aðra leiðina inn í hernaðarmaskínu TPLF.
TPLF lét boð út ganga um að sérhver sýsla í landinu skyldi skila 5000 manns í mannhafsherinn, en sýslurnar eru 50 talsins. Þessi fyrsta herkvaðning hefði því átt að skila 250.000 manns, sem dugði þó ekki til því fljótlega var farið að heimta að hver einasta fjölskylda í landinu skyldi skila einum meðlimi í mannhafsherinn. Miðað við íbúafjölda og dæmigerða fjölskyldustærð hefði þessi herkvaðning átt að skila hátt í milljón manns.
Fjöldi þjálfunarbúða voru settar upp víðs vegar um landið, en hvernig átti að koma mannhafinu á vígstöðvarnar? Þar datt TPLF í lukkupottinn því sendingar hjálpargagna til Tígraí héldu áfram sleitulaust og skyndilega fór að bera á því að vörubílar sem sendir voru frá dreifingarmiðstöðinni í Afar eyðimörkinni hættu að skila sér aftur til baka. Starfsmenn sameinuðu þjóðanna í Addis Ababa tístuðu um miðjan september að 466 trukkar á vegum WFP (Matvælastofnunar Sameinuðu Þjóðanna) hefðu ekki skilað sér aftur til baka. Alls hurfu nærri 1100 trukkar inn í Tígraí og hafa ekki sést síðan. Hvorki WFP né SÞ hafa kvartað undan þessu.
Hér er rétt að staldra við – svo virðist sem sterk öfl innan ýmissa stofnana SÞ hafi reynst stuðningsmenn TPLF. Sá augljósasti er Tedros Adhanom yfirmaður WHO og fullgildur félagi í TPLF. Starfsmenn SÞ í Addis hafa lýst því við blaðamenn hvernig stofnanir á borð við WFP hafi skyndilega sent nýja yfirmenn til Eþíópíu þegar stríðið hófst, en að þessir yfirmenn hafi lítið sem ekkert dvalið í Addis Ababa en þeim mun meir í Mekelle. Það voru þessir sömu starfsmenn SÞ sem bentu á trukkahvarfið mikla, en hvorki WFP né SÞ hafa séð ástæðu til að kvarta.
Um svipað leyti og trukkarnir voru að hverfa í Mekelle hófust árásir TPLF út fyrir fylkismæri Tígraí. Markmiðið var greinilega að reyna að rjúfa einangrun Tígraí með því að opna leið að landamærunum að Súdan, eða ná undir sig aðal þjóðveginum til Djíbútí. Síðari sóknarleiðin var mun auðsóttari vegna legu lands og vegakerfis, en það kom ekki í veg fyrir stanslausar tilraunir Súdan megin.
Smám saman safnaðist mannhafsbylgjan til árása fyrst suður eftir aðal veginum í átt að Addis Ababa en síðan eftir hliðarvegum í átt að þjóðveginum til Djíbúti. Það var hér sem sambandsherinn tók til varnar og það var hér sem mestu orrustur stríðsins voru háðar. Enginn veit hversu margir féllu í þessum tilgangslausa hernaði TPLF gegn eigin þjóð og eigin landi, en ýmsar heimildir bæði frá sambandshernum og frá TPLF benda til þess að hundruð þúsunda hafi fallið, mest íbúar Tígraí sem smalað hafði verið í mannbylgjuhernaðinn. Mannfallið gæti jafnvel numið hálfri milljón manns sem er óhugnanleg tala, ekki síður í ljósi þess að íbúar Tígraí eru ekki nema um fimm milljónir.
Árásarhernaður TPLF á síðari helmingi árs 2021. Langstærstu orrusturnar urðu þar sem toturnar tvær ganga í átt að þjóðveginum til Djibouti sem er gulmerktur á kortinu. Bláa svæðið er sá hluti Tígraí sem TPLF missti strax á fyrstu viku stríðsins, oftast kallað Welkeit af heimamönnum. Þetta landsvæði er Amhara mælandi að meirihluta og hefði aldrei átt að vera hluti af Tígraí, en það var TPLF sem ákvað fylkjamærin 1991. Undanfarna mánuði hafa vísindamenn á vegum háskólans í Gondar fundið tugþúsundir líka í fjöldagröfum á svæði sem heimamenn nefna Gahenna (helvíti) og voru fangabúðir á vegum TPLF undanfarin 40 ár eða meira. Merkilegt hvað erlendir fjölmiðlar sýna þessu lítinn áhuga!
Ríkisstjórnir og fjölmiðlar á Vesturlöndum létu eins og þeir vissu ekkert um þau gríðarlegu mannréttindabrot sem hér var verið að fremja. Nauðungarherkvaðning og mikil notkun barnahermanna er hvort tveggja bannað samkvæmt alþjóðalögum. Framferði TPLF einkenndist af skipulögðum þjófnaði og tilgangslausri eyðileggingu, skýlaus brot á alþjóðalögum. Liðsmenn TPLF hvar sem þeir komu nauðguðu og drápu að vild, tugir þúsunda óbreyttra borgara voru teknir af lífi í Amhara fylki og skrásettar nauðganir skipta þúsundum.
Allt var þetta vel þekkt og vel staðfest á meðan það var að gerast og vel rannsakað síðar meir. En á Vesturlöndum þóttust menn ekkert sjá, og varla var hægt að gefa TPLF skýrari skotleyfi. Og þegar TPLF var búið að gefast upp á að ná Djibouti veginum og þóttist ætla að sækja í átt að Addis Ababa sýndu Vesturlandabúar sitt rétta andlit – allir fögnuðu væntanlegum sigri þessa óbótalýðs og Bandaríkjamenn og aðrar Nató þjóðir gerðu sitt til að æsa upp til skelfingar í Addis Ababa svo sigurinn yrði TPLF sem auðveldastur.
Ágætt dæmi um óskapnaðinn var þegar CNN birti fréttir þess efnis að TPLF væri í útjaðri Addis Ababa og birti með tveggja ára gamla ljósmynd frá allt öðrum stað. Á sama tíma voru framvarðarsveitir TPLF í 200 km fjarlægð, umkringdar og í raun búnar að gjörtapa eina ferðina enn.
Það voru ekki margir í árásarliði TPLF sem tókst að flýja heim aftur, og sambandsherinn hrósaði fullnaðarsigri í desember 2021. En enn var talið óráðlegt að sækja inn í sjálft Tígraí. Eþíópíustjórn lýsti yfir einhliða vopnahléi sem TPLF virti að mestu, en samþykkti aldrei.
Endalokin nálgast
Friður ríkti að mestu fram yfir mitt ár, og nokkuð var rætt um hugsanlegar friðarviðræður. Eþíópíustjórn hefur endurtekið aftur og aftur að hún sé reiðubúin til friðarviðræðna án annarra skilyrða en að Afríkusambandið færi með yfirumsjón. TPLF hefur dregið mjög lappirnar og reynt að fá aðra aðila til að stjórna viðræðunum enda vita þeir sjálfsagt að flestir leiðtogar Afríkuríkja sjá í gegnum þá og vita upp á hár hvaða óbótamenn þeir eru.
Meðal krafna sem TPLF hefur sett fram, og Bandaríkjamenn og fulltrúar Evrópusambandsins hafa tekið undir, er að matvælaaðstoð verði tryggð og að grunnþjónustu á borð við rafmagns- og símasamband og bankastarfsemi, verði komið aftur á. En TPLF hefur ekki fengið hljómgrunn frá þessum fyrrum bandamönnum um annan viðræðuvettvang en á vegum Afríkusambandsins.
Það er að koma í ljós undanfarna mánuði að Vestrænar ríkisstjórnir eru búnar að gefast upp á TPLF og á sama tíma hafa Vestrænir fjölmiðlar nánast hætt að fjalla um ástandið hér, enda af nógu öðru að taka. En kannski skammast einhverjir sín fyrir að birta rakalausar og einhliða áróðursfréttir upprunnar frá árásaraðilanum?
Afríkusambandið boðaði til friðarviðræðna sem áttu að hefjast 4. ágúst síðastliðinn. Fyrirvarinn var stuttur en TPLF lýsti sig reiðubúna til þátttöku að vissum tæknilegum skilyrðum uppfylltum. Ekkert varð þó úr þessum viðræðum, TPLF gaf aldrei grænt ljós og hafa sumir þóst sjá skína í innanflokksdeilur innan TPLF en það hefur lengi verið ljóst að ekki eru allir vinir á þeim bæ.
Stríðið hófst svo skyndilega aftur 24. ágúst síðastliðinn með enn einni sókn TPLF í suður inn í Amhara fylki. En í þetta skiptið gekk þeim ekki eins vel og áður. Þeim tókst að komast nokkra tugi kílómetra í suður en voru stöðvaðir. Á sama tíma hófst sókn sambandshersins með stuðningi Eritreumanna inn í Tígraí úr vestri og norðri og skyndilega virtust TPLF liðar átta sig á því að stríðið væri tapað og voru allt í einu miklu áhugasamari um friðarviðræður en áður.
Undanfarnar þrjár til fjórar vikur hefur TPLF hörfað á öllum vígstöðvum og fyrsti stóri sigurinn var þegar varnarlið í Shire, annarri stærstu borg Tígraí, gafst hreinlega upp. Aðrar minni borgir fylgdu í kjölfarið, þar á meðal sögufrægar borgir Axum og Adwa en einnig Adigrat og Alamata. Svo virðist sem stjórnarherinn fari sér hægt og forðist óþarfa átök, en að flótti hafi brostið á TPLF en óbreyttir liðsmenn gefist upp í hrönnum.
Afríkusambandið boðaði til viðræðna með stuttum fyrirvara sem hefjast áttu í gær 24. október en virðast hafa frestast um minnst einn dag. Flestir helstu forsprakkar TPLF, tólf talsins, eru þegar mættir til Suður Afríku en fréttir frá Tígraí eru varla uppörvandi fyrir þá. Fylkishöfuðborgin Mekelle er umkringd og flugvöllurinn á valdi sambandshersins, og sögusagnir ganga um að ýmsir lægra settir TPLF liðar hafi verið handteknir á flótta.
Það er erfitt að sjá um hvað eigi að semja í Suður Afríku. Kröfur TPLF eru vel þekktar, að þeir endurheimti Welkeit („Vestur Tígraí“), fái áfram að stjórna Tígraí eftir eigin höfði, geti áfram verið með sinn fylkisher, og helst fengið aðgang að ríkisstjórninni með einhverjum hætti sem ekki krefst kosninga. Þeir hafa látið undan að einu leyti, þeir viðurkenna núna lögmæti ríkisstjórnarinnar, nokkuð sem þeir gerðu ekki í upphafi.
En það er erfitt að sjá að ríkisstjórn Eþíópíu fallist á annað en uppgjöf og í besta falli að háttsettir TPLF liðar sleppi við að þurfa að svara til saka fyrir landráð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Atburðir næstu daga gætu reyndar farið fram úr friðarviðræðunum, allt eins má búast við því að síðustu leifar TPLF í Mekelle gefist hreinlega upp á meðan topparnir sitja við samningaborðið.
Eþíópía sigrar enn
Fréttir undanfarna daga í Eþíópískum fjölmiðlum hafa einkum beinst af þeim miklu matvælabirgðum sem finnast hvarvetna þar sem TPLF hefur gefist upp. Mest fundust 300 tonn af hveiti á einum stað, en mjög algengt að finna frá nokkrum tonnum upp í nokkra tugi tonna. Allt er þetta í 50 kg. sekkjum rækilega merkt USAID. Þegar er byrjað að dreifa þessum matvælum til almennra borgara.
Bankastarfsemi er hafin aftur í Shire og verið er að undirbúa að hefja hana í öðrum frelsuðum borgum. Allir bankar í Tígraí hættu starfsemi stuttu eftir að stríðið byrjaði eftir bylgju bankarána á vegum TPLF. Vinnuflokkar hafa verið að flykkjast inn á nýfrelsuð svæði til að endurreisa rafmagns- og símasamband en flest öll innviði voru eyðilögð eða þeim stolið.
Uppgjafar-TPLF liðar með matvælabirgðir sem þeir voru búnir að koma sér upp. Á myndinn má sjá minnst 20 tonn af hveiti í 50kg. sekkjum merktum USAID. Svipaðar matvælabirgðir finnast alls staðar þar sem TPLF hefur gefist upp, mest 300 tonn á einum stað.
Almenningur í Eþíópíu telur ljóst að sigur sé unninn í þessu stríði og að framtíðin sé björt. Aðal atriðið er auðvitað að vera endanlega laus við TPLF og skuggann af hugsanlegri endurkomu þeirra. En þetta stríð hefur haft í för með sér margvísleg óvænt áhrif.
Eþíópíska þjóðin hefur þjappast saman sem aldrei áður, og stuðningur við ríkisstjórnina virðist algjör. Sambandsherinn hefur stækkað verulega og telur núna líklega minnst þrjú hundruð þúsund. Hlutfall þjóðerna í hernum er það sama og á landsvísu, og merkilegt að sjá að bæði Oromo og Amhara ungmenni vilja frekar ganga í sambandsherinn en fylkisheri. Tígraí þjóðarbrotið er með sitt hlutfall einnig enda fjölmargir búsettir utan Tígraí.
Hagvöxtur hefur verið góður allan tímann. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn áætlar 3.8% hagvöxt þetta ár og 6% á því næsta. Matvælaframleiðsla hefur aukist verulega mikið með auknum áveitum og breyttu lagaumhverfi. Hveitiframleiðsla hefur aukist þannig að Eþíópía er orðin sjálfri sér næg á þessu ári og stefnir að útflutningi á því næsta. Útflutningur á avókadó og kaffi hefur einnig aukist verulega, og svo skemmtilega vill til að þessar tvær verðmætu afurðir má rækta saman, því kaffirunninn er skuggsæll og þrífst vel í skugga avókadó trjáa.
Orkuframleiðsla er hafin í nýju GERD virkjuninni miklu á Bláu Níl, sem samsvarar einni Kárahnjúkavirkjun, en á eftir að sjöfaldast á næstu þremur árum. Virkjunin er með um 150 metra fallhæð, en óvirkjuð fallhæð fyrir ofan hana um 1300 metrar.
Kenía og Súdan hafa gert orkukaupasamninga við Eþíópíustjórn og Úganda er einnig spennt fyrir að kaupa orku, en auðvitað þarf einnig að sinna þeim 60% Eþíópíubúa sem enn skortir aðgang að rafmagni.
Loks má geta þess að ríkisstjórn Dr. Abiy hefur haldið áfram að styrkja sambönd sín við nágrannaþjóðir. Abiy og William Ruto, nýkjörinn forseti Keníu, eru mestu mátar og hafa undirritað samstarfssamning milli þjóðanna. Jafnvel Súdanstjórn er að gefast upp gagnvart friðarsókn Dr. Abiy, yfirmaður herforingjastjórnarinnar al-Burhan var í Eþíópíu í upphafi mánaðarins ásamt yfirmönnum öryggismála í Súdan að spjalla við kollega sína her í landi og lofa verulega bættu samstarfi til framtíðar. Þetta er gríðarlegur diplómatískur sigur því Súdansher hefur látið mjög ófriðlega á landamærum ríkjanna og stutt TPLF leynt og ljóst.
Framtíð Eþíópíu virðist björt, en orðstír og áhrif Bandaríkjastjórnar og Evrópusambandsins hafa látið verulega á sjá. Efnahagsþvinganir þessara aðila hafa lítil sem engin áhrif haft önnur en að styrkja ítök Kínverja og annarra sem seilast til áhrifa hér, svo sem Tyrkja og Indverja. Tyrkir og Sameinuðu Arabísku Furstadæmin hafa sýnt að þeirra utanríkisstefna er einnig sjálfstæð og ekki hlýðin við hernaðarsinna á Vesturlöndum.
Stærsta lexía þessara tveggja ára er þó hversu algjörlega Vestrænir fjölmiðlar hafa fallið á prófinu. En þegar betur er að gáð er kannski ekki við meiru að búast. Fréttaflutningur af Úkraínustríði er ekki síður einhliða, og það virðist lenska í blaðamennsku á Vesturlöndum að mega ljúga hverju sem menn vilja upp á fátækar þjóðir í öðrum heimsálfum og viðhalda þar með fordómum gagnvart þeim og íbúum þeirra, allt svo lengi sem hægt sé að selja fleiri auglýsingar.
Höfundur greinarinnar, Brynjólfur Þorvarðarson, lifir og starfar í Eþíópíu.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga