Færeyingar hafa boðað til þingkosninga þann 8. desember eftir að formaður Miðflokksins Jenis av Rana var rekinn af ráðherrastól sínum í landsstjórninni. Ástæða þess að Bárður á Steig Nielsen lögmaður Færeyja vék Janis sem var mennta- og utanríkismálaráðherra úr starfinu er afstaða hins síðarnefnda til réttinda samkynhneigðra.
Forsaga málsins er að á síðasta ári samþykkti Færeyska lögþingið frumvarp stjórnarandstöðunnar sem tryggði réttindi barna samkynja foreldra en mikið gekk á í þinginu og lá við að slitnaði þá upp úr stjórnarsamstarfi þeirra þriggja flokka sem setið hafa í ríkisstjórninni, Sambandsflokksins, hins Kristilega Miðflokks og Fólkaflokksins.
Neitaði að sitja til borðs með Jóhönnu Sigurðardóttur og Jónínu Leósdóttur
Jenis av Rana varð mörgum Íslendingum kunnur árið 2010 þegar hann neitaði að sitja kvöldverð með Jóhönnu Sigurðardóttur og eiginkonu hennar í opinberri heimsókn þeirra til Færeyja. Hann kallaði það hreina ögrun og ekki í samræmi við boðskap biblíunnar en Jenis hefur ekki hvikað í afstöðu sinni til samkynhneigðra og segir útilokað trúar sinnar vegna að tilgreina konu sem föður barns.
Lögmaðurinn Bárður á Steig Nielsen segir Jenis svo hafa farið út fyrir mörk eftir að hann sat fyrir svörum í kosningaútvarpi þann 25. október og var spurður hvort hann myndi styðja hægristjórn í Danmörku með samkynhneigðan forsætisráðherra í forsvari, það er Sørens Pape Poulsen formann danska Íhaldsflokksins. Jenis svaraði því til að það kæmi aldrei til greina og það að lifa sem svokallaður samkynhneigður maður væri á skjön við hans persónulegu grundvallarreglur sem og flokks hans og Færeyja í heild sinni.
Ráðherra er fulltrúi allrar þjóðarinnar
Høgni Hoydal, formaður Þjóðveldisflokksins lagði svo fram vantrauststillögu á Jenis og sagði í viðtali við Kringvarpið að flytjendur tillögunnar hafi viljað láta reyna á ábyrgð ráðherra í landstjórninni „Þú þarft að tala út frá þeirri ábyrgð sem þú gegnir því þú ert fulltrúi allrar þjóðarinnar og getur ekki notað ráðherrastólinn sem þinn persónulega vettvang“.
Johan Dahl, þingmaður Sambandsflokksins, tekur undir þetta. „Það er ekki í lagi að Jenis av Rana setji okkur alla Færeyinga á sama bás með afstöðu hans til samkynhneigðra.
Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja nýtti sér heimild í færeyskum lögum til að reka Jenis úr embætti og segir hann umburðarlyndi sitt í garð ráðherrans hafi verið á þrotum eftir að Jenis hafi beinlínis hvatt aðra ráðherra til að ganga gegn orðum sínum. Meirihluta þingmanna þurfti þó til til að samþykkja brottreksturinn.
Kosið 8. desember
Kosið verður í Færeyjum fimmtudaginn 8. desember. Eyjarnar eru eitt kjördæmi, þingmenn 33 og því lágur þröskuldur til að ná inn í manni.
Ríkisstjórnarflokkarnir voru með minnsta mögulega meirihluta. Ef við reynum að átta okkur á hverskonar stjórn þetta var þá má segja að Fólkaflokkurin sé systurflokkur Sjálfstæðisflokksins, Sambandsflokkurin systurflokkur Framsóknar og Miðflokkurin skyldastur Miðflokknum á Íslandi.
Í stjórnarandstöðu hafa verið Javnaðarflokkurin systurflokkur Samfylkingarinnar, Tjóðveldi systurflokkur Vg, Framsókn sem líklega myndi flokkast sem systurflokkur Viðreisnar þrátt fyrir nafnið og Sjálvstýri, sem flokka mætti sem vinstri arm Framsóknarflokksins.
2019 fóru kosningarnar svona:
Flokkarnir í ríkisstjórninni sem sprakk:
Fólkaflokkurin: 24,5% – 8 þingmenn
Sambandsflokkurin: 20,4% – 7 þingmenn
Miðflokkurin: 5,4% – 2 þingmenn
Ríkisstjórnin: 50,3% – 17 þingmenn
Flokkarnir í stjórnarandstöðu:
Javnaðarflokkurin: 22,1% – 7 þingmenn
Tjóðveldi: 18,1% – 6 þingmenn
Framsókn: 4,6% – 2 þingmenn
Sjálvstýri: 3,4% – 1 þingmaður
Stjórnarandstaðan: 48,2% – 16 þingmenn
Myndin er af Jenis av Rana.