Launafólk mun ekki eitt bera byrðarnar af verðbólgunni

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, telur það geta verið betra fyrir launafólk að gera stuttan kjarasamning. Annars vegar vegna óvissu um hversu þungt það reynist fjölmörgum heimilum með fasta óverðtryggða vexti til næstu mánaða þegar bankarnir hækka vextina skarpt. Hins vegar er reynslan frá lífskjarasamningunum sú að ríkisstjórnin efnir illa loforð sín. Og af þeim sökum getur verið betra að semja til skamms tíma svo hægt sé að ýta á eftir efndunum.

Starfsgreinasambandið vísaði kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara í gær ásamt VR og Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna. Ástæðan er að tilboð SA til launafólks var of veikt og lítið, í raun krafa um að launafólk tæki á sig kaupmáttarrýrnun vegna verðbólgunnar á sama tíma og gósentíð ríkir í fyrirtækjarekstri.

Vilhjálmur sagði við Rauða borðið að þvert á móti væri nú augljóslega tækifæri til að hækka kaupmáttinn. Hagnaður fyrirtækja í fyrra hefði verið um 400 milljarðar króna og eigið fé fyrirtækja hækkað um 462 milljarða króna. Sjávarútvegurinn hefði aldrei gengið betur, hagnaður í álvinnslu væri í hámarki og hingað kæmi metfjöldi ferðamanna. Það sé fáránleg hugmynd að í slíku ástandi eigi launafólk að kyngja mikilli kaupmáttarrýrnun vegna verðbólgunnar, eins og það eitt ætti að bera ábyrgð á henni.

Vilhjálmur benti á að svo til allur ávinningurinn af lífskjarasamningunum hefði tapast á síðustu tólf mánuðum. Vaxtahækkun hefði hækkað greiðslubyrði heimila með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum um tugir þúsunda, líklega um 100 þús. kr. á mánuði á meðal íbúð. Aukin verðbólga hefði hækkað neysluvísitölu og þar með húsaleigu, um 20-25 þúsund krónur á venjulega íbúð. Sveitarfélög hefðu kynnt gjaldskrárhækkanir á allri sinni þjónustu og matur og aðrar nauðsynjar hækkað mikið.

Til að vinna þetta til baka og bæta kjör fólks þyrfti samning sem margir aðilar kæmu að. Seðlabankinn stjórnar vaxtastiginu, bankarnir vaxtamuninum, verslanir stjórna verðlaginu, sveitarfélög gjaldskrá fyrir nauðsynlega þjónustu og ríkisstjórnin sköttum, húsnæðisstuðningi og mörgu öðru. Ef vilji er til að vinna á verðbólgunni og bæta um leið lífskjör þarf víðtækan samning, samstillt átak.

Þetta er mikilvægt og ekki síst vegna þess að yfir fjölmörgum heimilum hagnir snjóhengja í formi um 600 milljarða króna lána sem eru á föstum óverðtryggðum vöxtum, en til skamms tíma. Innan tólf til átján mánaða munu að óbreyttu vextir af um helming þessara lána hækka mikið og höggva niður kaupmátt tug þúsunda fjölskyldna. Og vextirnir af afganginum af þessum lánum mun hækka árin þar á eftir. Ef þetta verður látið óáreitt mun það valda gríðarlegum skaða. Það verður að bregðast við þessari vá strax og af festu.

Vilhjálmur sagðist hafa átt fundi með Seðlabankastjóra og ráðherrum, auk fundanna með SA. Hann vildi ekkert gefa upp um hvort hann teldi að mikils væri að vænta frá stjórnvöldum. Með því að vísa deilunni til ríkissáttasemjara væri SGS, VR og LÍV að auka þrýstinginn. Ef viðræður færu ekki á skrið þyrfti ekki að líða meira en vika eða tíu dagar þar til félögin gætu borið verkfallsboðun undir sitt félagsfólk.

Ef til þess kemur telur Vilhjálmur líklegast að skæruverkföllum verði beitt, að starfshópar sem lamað geta mikilvæga starfsemi fari í verkföll. Að hluta til væri það gert til að hafa mikil áhrif lengur, nýta betur digra verkfallssjóði hreyfingarinnar. Allsherjarverkfall gengur hraðar á sjóðina.

En Vilhjálmur sagði vona að til þessa kæmi ekki. Það geti verið dýrt fyrir samfélagið ef hér verða hörð átök á vinnumarkaði. Af þeim sökum er líka til mikils að vinna, að semja svo að komast megi hjá verkföllum.

Vilhjálmur fór yfir sviðið í samtalinu við Rauða borðið, meðal annars hvernig stjórnvöld vildu leggjast á sveif með fjármagns- og fyrirtækjaeigendum og gegn verkalýðnum. Og um hvað átökin snúast, sem er fyrst og fremst að losa fólk undan baslinu, sem þarf að berjast fyrir að eiga í sig og á. Það væri ekki aðeins mikilvægt gagnvart þeim sem eru í þessari stöðu og börnum þess fólks, heldur væri það mikilvægt fyrir samfélagið allt.

Viðtalið við Vilhjálm má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí