Er stutt í stutta samninga?

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, mun var kominn í Karphúsið, skrifstofu ríkissáttasemjara, en það þykir merki um að styttra sé á milli samningsaðila en ætla hefur mátt af umræðunni. Fundur í kjaradeilu SA og Starfsgreinasambandsins, Landssambands verslunarmanna og VR hófst í morgun klukkan tíu og á að standa til klukkan sex í dag. Markmið beggja aðila er að gera stutta samninga.

Í grein sem þeir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA og Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur og ráðgjafi SA í þessum viðræðum, skrifuðu í morgun er tóninn gefinn. „Minni verðbólga og lækkun vaxta er sameiginlegt hagsmunamál sem allir þurfa að vinna að og vinnumarkaðurinn þarf að fá tækifæra til að leysa. Óbreyttir vextir á miðvikudaginn yrðu gott innlegg í þá lausn,“ skrifa þeir félagar.

Peningamálastefnunefnd Seðlabankans mun senda frá yfirlýsingu á miðvikudaginn næsta. Nefndin hefur hækkað vexti alla vaxtaákvörðunardaga það sem af er ári. Við síðustu ákvörðun, 4. október, var hækkunin aðeins 0,25 prósentur og þá lýsti Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri að líklega væri tíma vaxtahækkana liðinn. Ef samið yrði um litlar launahækkanir þyrfti ekki að hækka vexti meira.

„Fái vinnumarkaðurinn tækifæri til að spila af ábyrgð úr kjarasamningagerð með Seðlabankann á hliðarlínu skapast tækifæri til að ná í senn niður verðbólgu og vöxtum. Þetta skiptir heimilin gríðarlega miklu máli því eins og þekkt er orðið eru það bæði hækkandi vextir og almennar verðhækkanir sem kroppa í kaupmátt fólks um þessar mundir. Með því að snúa þeirri þróun við má auka kaupmátt umtalsvert,“ skrifa þeir Halldór og Konráð.

Samtök atvinnulífsins hafa vilja semja stutt. Tilboð þeirra hefur verið eingreiðslan undir 30 þús. kr. til að bæta eitthvað þá kaupmáttarrýrnun sem orðið hefur á þessu ári þrátt fyrir hækkun 1. maí vegna hagvaxtarauka lífskjarasamningsins. Reikna má með að lífskjarasamningarnir frá 2019 skili öðrum hagvaxtarauka 1. mai á næsta ári, líklega um eða rétt yfir 10 þús. kr. SA hefur síðan boðið innan við 5% hækkun á laun upp að um 600 þús. kr. sem myndi færa fólki á lægstu launum um 17 þús. kr. en fólki með rétt undir 600 þús. kr. um 27 þús. kr.

Í dag eru lágmarkslaun 368 þús. kr. Ef við miðum við taxtalaun sem gefa 370 þús. kr. á mánuði er SA að miða við eingreiðslu á innan við 30 þús. kr. og svo hækkun upp í 387 þús. kr. við undirritun og mögulega upp í 397 þús. kr. með hagvaxtarauka 1. maí.

Fólk með 600 þús. kr. gæti búist við hækkun upp í 627 þús. kr. við undirritun og um 637 þús. kr. eftir 1. maí.

SGS, LÍV og VR hafa viljað hækka þessar upphæðir, en þar sem markmið stuttra samninga er að halda aftur af vaxtahækkunum geta það ekki orðið hækkanir umfram það sem Seðlabankinn telur ásættanlegt. Markmiðið væri að semja um einhverjar hækkanir, en samt ekki svo miklar að það myndi hækka vexti heldur frekar lækka þá. Sem síðan ætti að auka kaupmátt vegna lægri greiðslubyrði.

Í viðtali við Rauða borðið í síðustu viku sagðist Vilhjálmur Birgisson formaður SGS vilja sjá stutta samninga en helst með aðkomu fleiri félaga, en ekki síður stjórnvalda sem kæmu þá með aðgerðarpakka til að lækka skatta á lægstu laun og húsnæðiskostnað almennt. Vilhjálmur sagði í viðtalinu að það myndi koma fljótt í ljós hvort tækist að semja undir stjórn ríkissáttasemjar. Ef það gerðist ekki á fyrstu dögunum myndu félögin leita eftir verkfallsheimild.

Myndin er af Eyjólfi Árna Rafnssyni, formanni Samtaka atvinnulífsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí