Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflngar hvetur félaga í Vinstri hreyfingunni grænu framboði til að slíta stjórnarsamstarfinu vegna Íslandsbankamálsins. Það sé ekki hægt að verja það að halda áfram stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra sem beri ábyrgð á sölu á hlut ríkisins í bankanum. Sólveig Anna furðar sig á stuðningi Katrínar Jakobsdóttur formanns Vg við söluferlið og vörnum hennar fyrir Bjarna. En bendir á að enginn flokkur sé bara ein manneskja. Í Vg sé margt gott og réttsýnt fólk sem hljóti að taka völdin af formanninum.
Sólveig Anna segir það nauðsynlegt að almenningur fái að taka afstöðu til Íslandsbankamálsins í kosningum. Þetta sé stórt mál sem leggja beri fyrir almenning í umfangsmikilli og alvarlegri umræðu í aðdraganda kosninga. Það sé óásættanlegt ef ráðherrarnir ætli að freista þess að láta málið enda með því að stjórn og bankastjóri Íslandsbanka verði rekin. Og ekkert annað gerist.
Umræðan um Íslandsbankahneykslið kom í lok samtals við Sólveigu Önnu við Rauða borðið. Þar var farið yfir vígstöðuna fyrir komandi kjarasamninga. Sólveig Anna sagði að þeir samningar myndu snúast annars vegar um að verkafólk fengi hlut í auknum hagvexti og hins vegar um að stjórnvöld breyttu stefnu sinni í veigamiklum málum, svo sem húsnæðismálum, einkum gagnvart leigjendum, varðandi stuðning í gegnum skattkerfið við barnafjölskyldur og ekki síst einstæða foreldra og í öðrum velferðarmálum.
Á móti þessum kröfum standa annars vegar Samtök atvinnulífsins sem hafa stuðnings stjórnvalda. Ríkisstjórnin hefur til dæmis samþykkt að setja fram lög sem takmarka verkfallsrétt verkalýðsfélaga, að kröfu SA. Og hins vegar stjórnvöld með ríkisstjórn sem er að leysast upp vegna innri ágreinings og hneykslismála.
Skiljanlega vildi Sólveig Anna ekki spá fyrir um hvernig kjaraviðræður haustsins færu. Hún sagðist gera þá kröfu að verkalýðshreyfingin tæki upp kröfur Eflingar um að kjör hinna lægst launuðu, einstæðra foreldra, leigjenda og þeirra sem byggu við verstu kjörin, yrði bætt mest. Og að tryggt væri að einhver einn myndi ekki rjúka til og ganga frá samningum sem síðan yrði reynt að reka ofan í önnur félög. Það hlyti að vera lærdómur vetrarins, hversu illa það reyndist.
Hér má sjá og heyra viðtalið við Sólveigu Önnu: