Þegar stjórn Skeljar ákvað að ráða Ásgeir Helga Reykfjörð Gylfason sem forstjóra og gera starfslokasamning við Árna Pétur Jónsson fól sú ákvörðun í sér 265 m.kr. útgjöld félagsins. Þessi útgjöld voru færð sem kostnaður í bækur Skeljar og komu því til frádráttar frá skattskyldum tekjur, lækkuðu skatta Skeljar um 53 m.kr. Ríkissjóður, og þar með almenningur, tók þátt í þessum hrókeringum og ofurlaunum fyrrverandi og núverandi forstjóra.
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason er tekjuhæsti forstjórinn sem er í starfi. Ofan hann á listum yfir tekjuhæstu forstjóranna er Hjalti Baldursson, fyrrverandi forstjóri hugbúnaðafyrirtækisins Bókunar. Ásgeir tók við sem forstjóri Skeljar, áður Skeljungi, í febrúar í fyrra. Inn í 20,4 m.kr. laun hans í fyrra blandast því líklega laun og starfslokasamningur vegna brotthvarfs hans sem aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingabankasviði Arion banka. 20,4 m.kr. á mánuði eru álíka laun og rúmlega 50 lægstu laun á landinu. Um 65-faldar ellilífeyrir frá Tryggingastofnun.
Ragnar Önundarson, fyrrum útibússtjóri, hefur lagt til að fyrirtæki fái ekki að skilgreina ofurlaun forstjóra sem kostnað, sem komi til frádráttar frá skattskyldum tekjum. Ragnar leggur til að lagt sé þak á þessa heimild, þannig að laun sem eru umfram fimmföld lægstu laun, um 2 m.kr. í dag, séu ekki frádráttarfær og hluthafar verði þá að borga þau án aðstoðar ríkisins.
Í ársskýrslu Skeljar kemur fram að þegar Ásgeir Helgi var ráðinn fékk hann 3 m.kr. í laun á mánuði eða 36 m.kr. á ári. Að auki fékk hann eingreiðslu upp á 45 m.kr. í fyrra, 60 m.kr. í ár og hann mun fá aðrar 60 m.kr. á næsta ári og 15 m.kr. árið 2025. Auk 3 m.kr. launa er hann því með 180 m.kr. á þessum fjórum árum, um 3.750 þús. kr. á mánuði. Samtals eru þetta 6.750 þús. kr. í laun. Ofan á þetta bætist síðan ríkulegur kaupréttur sem skilar Ásgeiri Helga arði og miklum tekjum ef verð á bréfum Skeljar hækka. Það hefur ekki gerst hingað til, gengi bréfanna hafa fallið um 20% frá því Ásgeir tók við, fallið í verði um 6,7 milljarða króna. Í árslok voru 64 m.kr. í varasjóð Skeljar til að mæta kauprétti Ásgeirs og þessi upphæð mun hækka á næstu árum.
Í töflunni hér að neðan má sjá tíu launahæstu forstjóranna samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins. Listinn er eilítið öðruvísi hjá Heimildinni. Mestu munar að Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, er í 10. sætinu þar en ekki Árni Oddur, með 8,7 m.kr. á mánuði.
Nr. | Forstjóri | Staða | Laun á mánuði |
---|---|---|---|
1. | Hjalti Baldursson | fv. forstjóri Bókunar | 24,8 milljónir króna |
2. | Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason | forstjóri Skel | 20,4 milljónir króna |
3. | Jón Þorgrímur Stefánsson | forstjóri NetApp á Íslandi | 17,5 milljónir króna |
4. | Brett Albert Vigelskas | frkvstj. Costco á Íslandi | 13,5 milljónir króna |
5. | Jón Sigurðsson | forstjóri Stoða | 11,2 milljónir króna |
6. | Grímur Karl Sæmundsen | forstjóri Bláa Lónsins | 10,8 milljónir króna |
7. | Haraldur Líndal Pétursson | frkvstj. Johan Rönning | 11,2 milljónir króna |
8. | Guðmundur Fertram Sigurjónsson | forstj. Kerecis | 9,3 milljónir króna |
9. | Herdís Dröfn Fjeldsted | fv. forstjóri Valitor | 8,6 milljónir króna |
10. | Árni Oddur Þórðarson | forstjóri Marels | 8,6 milljónir króna |