Adolf Ingi kallar áfengisneyslu á skíðasvæði Akureyringa ómenningu

Eitt er það sem nóg er til af fyrir norðan þessa dagana, það er skíðasnjórinn í Hlíðarfjalli.

Aftur á móti hafa menningarlegar breytingar á skíðasvæði Akureyringa ekki farið vel í alla. Adolf Ingi Erlingsson, fyrrum landskunnur íþróttafréttamaður, segir að áfengisneysla sem nú er leyfð á skíðasvæðinu sé ómenning.

Í aðsendri grein á vefnum akureyri.net, segir Adolf Ingi, sem er brottfluttur Akureyringur, að hálf öld sé liðin síðan hann fór fyrst að renna sér í Híðarfjalli. Hann endurnýjaði kynni sín við norðlensku brekkurnar fyrir skemmstu.

„Nema hvað þegar við, eftir ríflega klukkutíma skíðun, ákváðum að hvíla okkur á pallinum við Strýtuna, brá okkur nokkuð þegar“ við sáum fjölda fólks sitja að áfengisdrykkju í hádeginu. Ýmist með bjór eða freyðivín í glösum. Þarna sat fólk með börnum sínum og jafnvel barnabörnum og teygaði mjöðinn af miklum móð. Þrír ungir menn virtust ætla að eiga langan laugardag, því þeir voru komnir í gírinn, höfðu hátt, reyktu og drukku hratt. Gutti, 10 til 12 ára, kom út úr skálanum með bjórglas í annarri hendi og vatnsglas í hinni, auðsjáanlega sendur til að sækja bjór fyrir einhvern. Maður hafði á tilfinningunni að maður væri mættur á barinn en ekki í fjallið, að viðbættum börnum,“ segir íþróttafréttamaðurinn fyrrverandi.

Hann telur að áfengiadrykkja eigi sinn stað og stund en skíðasvæðið sé ekki í þeim hópi.

„Löngum hefur verið talið að útivera og íþróttir séu lykilatriði í að koma í veg fyrir áfengisneyslu ungmenna. Viljum við senda þeim þau skilaboð að skíði og áfengi eigi samleið?“

Hann heldur áfram:

„Sú var tíðin að flestir voru með kakó og samlokur í nesti, en nú þykir það líklega ekki nógu fínt. Enga sáum við með slíkar veitingar, í staðinn sat fólk að sumbli. Einhverra vegna ákváðu rekstaraðilar í Hlíðarfjalli að selja áfengi og þar með að normalísera áfengisdrykkju í útivistarparadís.“

Adolf Ingi segir að ekki megi rugla saman „après ski“ í Ölpunum við sull í miðri skíðaeinkunn enda vísi „aprés“ til þess sem eigi sér stað eftir skíðaiðkun ekki á meðan á skíðamennsku stendur.

„Drykkja í fjallinu á að mínu mati ekkert skylt við menningu, heldur er ómenning. Sem betur fer hafa staðarhaldarar í Bláfjöllum ekki elt Akureyringa í þessari vitleysu og þar sitja fjölskyldur enn saman með kakóið sitt og samlokurnar.“

Sjá alla greinina á akureyri.net hér: Ómenning í fjallinu | akureyri.net

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí