Ögmundur spyr frá hverjum hafi fyrst verið stolið í Hamraborgarráninu

Samfélagið 21. apr 2024

Peningunum sem stolið var frá öryggisvörðum í Hamraborg á dögunum hafði þegar verið stolið, af fólki sem ekki er sjálfrátt gerða sinna, spilafíklum. Í ljósi þess að greint hefur verið frá því að rekstraraðilar spilakassana voru tryggðir í bak og fyrir, svo féð er ekki tapað fyrir þá, þá er eðlilegt að spyrja hvort eðlilegt sé að „þeir sem upphaflega var stolið frá liggi óbættir hjá garði. Hvar sé þeirra trygging ef allir voru tryggðir? Hlyti það ekki að taka til þeirra sem hafa tapað aleigunni og stundum heilsunni í fjárhættuspilum af þessu tagi?“

Að þessu spyr Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, í grein í Sunnudags Mogganum. Rekur hann þar sem fyrr segir að þeir fjármunir sem rænt var í Hamraborg, einar 30 milljónir króna, hafi verið úr spilakössum komnir. Ekki segist Ögmundi vera ljóst í hvaða þjóðþrifastarfsemi peningarnir hafi átt að renna en hann hafi þó séð að talskona Háskóla Íslands, „sem nærir sig reglulega á peningum úr spilakössum,“ hafi sagt að peningarnir væru tryggðir. Má greina nokkurn brodd í þessum skrifum Ögmundar sem hefur áratugum saman talað hart gegn spilakössum, sem og öðrum tegundum fjárhættuspila, bæði á þingi og utan þings. 

„Sem kunnugt er hefur mörgum þótt það vera álitamál hvort fjárhættuspilakassar séu með öllu löglegir. Ósiðlegir eru þeir í það minnsta, því með kössunum er haft fé af fólki sem ekki er sjálfrátt gerða sinna, enda nefnt spilafíklar. Ef svo er, þá er ekki fjarri lagi að segja að spilafíklarnir séu þeir sem stolið var af fyrst. Löngu síðar í ferlinu voru þjófarnir sem stálu frá öryggisvörðunum,“ skrifar Ögmundur. 

Ögmundur spyr hver beri ábyrgð á því tjóni sem spilafíklar verði fyrir með rekstri spilakassanna og veltir því upp hvort það séu ekki mögulega Alþingi og ríkisstjórnin, sem lögin setji. „Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er andvígur rekstri fjárhættuspilakassa og vill ekki fjárhættuspil á netinu. Þetta hefur komið fram í vönduðum skoðanakönnunum. Þrátt fyrir það lætur ríkisvald og löggjafi sér þetta í léttu rúmi liggja. En það mega þau vita að athafnaleysi stjórnvalda getur verið saknæmt ef það sannanlega veldur tjóni.“

Ögmundur bendir á þegar að flestu, þar á meðal veitinga- og skemmtistöðum var lokað í Covid-faraldrinum, hafi lengi verið þráast við að halda spilakassasölum opnum. Þegar þeim hafi loks verið lokað “skyldu bæta rekstraraðilum spilasalanna tjónið með tugum milljóna króna. Með öðrum orðum, allir skyldu tryggðir. En ekki alveg allir, ekki þeir sem stolið var frá fyrst.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí