Varaþingkona segir sig úr Samfylkingunni 

Stjórnmál 21. apr 2024

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, mannréttindafrömuður og varaþingkona Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að segja sig úr flokknum. Í færslu á Facebook segir Inga Björk að henni hafi þótt Samfylkingin að undanförn „sofna á verðinum í veigamiklum mannréttindamálum“. Hún lýsir því að hafa í baráttu sinni fyrir því að mannréttindamál væru á dagskrá flokksins, sem og að úthýsa hatursorðræðu af samkomum flokksins, fengið kaldar kveðjur fyrir og að hafa fengið tvo fyrrverandi formenn flokksins upp á afturlappirnar gegna sér. Hún og Þorbjörg Þorvaldsdóttir, fyrrverandi formaður Samtakanna ‘78, hafi verið „beðnar um að halda okkur til hlés“.

Í færslu sinni segir Inga Björk að mannréttindi séu grunngildi jafnaðarstefnunnar. Í samfélaginu séu hópar fólks sem vinni statt og stöðugt að því að takmarka frelsi og réttindi annarra. „Mannréttindi eru reipitog og Samfylkingin hefur látið sinn enda á jörðina. Afleiðingarnar verða miklar fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum,“ skrifar Inga og segir einnig að mannréttindi megi aldrei leggja til hliðar eða leyfa skoðanakönnunum að ráða för, „því kostnaðurinn er líf og velferð fólks. Spyrjið bara konur í Íran og Bandaríkjunum, eða hinsegin fólk á Bretlandi og Ítalíu.“

Segist hafa fengið kaldar kveðjur

Inga Björk segir að hún hafi aldrei ætlast til þess af flokknum að mannréttindi séu eina eða stærsta áherslumál hans, heldur að þau séu einfaldlega með. „Í bylgju hinsegin hatursorðræðu og ofbeldis voru engin viðbrögð frá flokknum. Síðar var Arnþrúði Karlsdóttur, sem rekur útvarpsstöð sem básúnar hatursorðræðu gegn hinsegin fólki og innflytjendum, boðið að tala á fundi. „Við erum á leið út úr bergmálshellinum“ var viðkvæðið. Ég og fleira hinsegin fólk innan flokksins þurftum að útskýra að líf okkar og réttindi gætu aldrei verið til umræðu.“

Inga Björk lýsir því hversu vont það sé að þurfa að útskýra „að það að leyfa útvarpskonu sem hefur verið dæmd fyrir hatursorðræðu, að láta gamminn geysa, hefur áhrif á líf mitt, fjölskyldu minnar og alls annars hinsegin fólks. Það er vont að þurfa að opna sig upp að kviku til að reyna að fá fólk til að hlusta. Að lokum var hætt við fundinn, en kveðjurnar í kjölfarið voru ekki hlýjar“.

Þá segir Inga Björk að hún hafi verið ein fjölda fólks sem kom að því að skrifa tillögu að ályktun um útlendingamál sem lögð var fyrir flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar í gær. Rótin að henni segir hún að sé aukin útlendingaandúð í íslensku samfélgi sem nauðsynlegt sé að bregðast við. Hins vegar hafi, eins og Samstöðin fjallaði um fyrr í dag, verið ákveðið að samþykkja ekki tillöguna heldur vísa henni til lokaðs málefnahóps. Segir Inga Björk að slíkt geti verið eðlilegt en í umræddan hóp hafi aðeins ákveðnum flokksmönnum verið boðið til þátttöku og segist hún ekki muna eftir slíkum vinnubrögðum áður á þeim áratug sem hún hafi verið virk í flokksstarfinu. 

Fékk fyrrum formenn upp á móti sér

Inga Björk lýsir því enn fremur að fyrir fundinn hafi tæplega þrjátíu manns skrifað undir brét til þingflokks Samfylkingarinnar þar sem hann var hvattur til að leggjast gegn svokölluðum „lokuðum búsetuúrræðum“ og þrengri rétti til fjölskyldusameininga, sem ríkisstjórnin boði. „Frumvarpið hefur verið gagnrýnt af 20 mannréttindasamtökum á Íslandi, en þingmenn flokksins hafa sagt opinberlega að þeir styðji meginmarkmið frumvarpsins. Það er mikið áhyggjuefni.“

Þá hafi hún og Þorbjörg Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi og fyrrverandi formaður Samtakanna ‘78 skrifað opið brét til að minna á hjarta jafnaðarstefnunnar, sem sagt mannréttindi. „Í kjölfarið fengum við tvo fyrrum formenn flokksins upp á afturfæturnar og vorum beðnar um að halda okkur til hlés.“

Segir Inga Björk að nú sé svo komið að hún þurfi eftir langan aðdraganda að segja sig frá starfi Samfylkingarinnar. „Þetta er erfið ákvörðun eftir að hafa lagt nótt við dag fyrir jafnaðarstefnuna, en hún er rétt. Ég mun því segja af mér varaþingmennsku og öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí