Hópur fólks hefur hafið undirskriftasöfnun á netinu til að krefjast þess að Erla Bolladóttir verið sýknuð. „Þetta mál er blettur á íslensku þjóðinni og hefur í reynd eyðilagt líf Erlu,“ segir Maríanna Friðjónsdóttir, einn aðstandenda söfnunarinnar í viðtalið við Rauða borðið.
„Erla var dæmd fyrir meinsæri á sínum tíma en löngu er ljóst að vitnisburður Erlu var þvingaður fram“, segir í yfirlýsingu hópsins. „Framganga yfirvalda í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu er svartur blettur á réttarsögu Íslands. Fimm aðrir sakborningar fengu mál sín endurupptekin og voru í kjölfarið sýknaðir. Erla Bolladóttir er enn neydd til að berjast fyrir réttlæti í máli sínu en staðan er orðin verulega vandræðaleg fyrir dómsmálayfirvöld þar sem ljóst er orðið að sakborningar komu hvergi nærri hvarfi Guðmundar og Geirfinns. Þó áttu þeir að hafa tekið saman ráð sín um að koma sökinni yfir á aðra fjóra saklausa menn en játuðu á sig sökina á sama tíma. Dómsmálayfirvöld hanga á því einu að þegar Erla skrifaði undir skýrslu sem vitni, þá var hún ekki gæsluvarðhaldi.“
Í yfirlýsingu hópsins segir að skýrslur réttarsálfræðinganna Gísla Guðjónssonar og Friðriks Sigurðssonar útskýri með skýrum hætti hvernig rannsóknarlögreglumenn voru í tíðum samskiptum við Erlu vikurnar fjórar sem leiddu til undirritunar hennar á röngum sakargiftum og að Sævar hafi undirritað slíka skýrslu daginn áður. Samnefnari þeirra fjölda skýrslna og yfirheyrsla sem fram fóru er aðeins einn, rannsóknarlögreglumenn sem hafa kosið að þegja þunnu hljóði þrátt fyrir þær alvarlegu sakir sem á þá eru bornar.
„Öllum má vera ljóst það andlega og líkamlega harðræði sem Erla mátti þola,“ segir í yfirlýsingunni. „Auk þess hafði hún fætt sitt fyrsta barn aðeins 11 vikum áður en hún var upphaflega sett í einangrun, án nokkurra upplýsinga um hvar barnið væri niðurkomið. Erla sat saklaus í einangrun í 239 daga. Þess til viðmiðunar þá má benda á það að í dag má ekki halda einstaklingum í einangrun lengur en 30 daga samkvæmt íslenskum lögum, þar sem það er vitað að einangrun er mannskemmandi.“
Maríanna segir að markmiðið sé að ná 25 þúsund undirskriftum og fær Katrínu Jakobsdóttur þær og senda út til Mannréttindadómstólsins ef málið ratar þangað.
Skrifa má undir yfirlýsinguna hér: Við krefjumst sýknunar fyrir Erlu Bolladóttur
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga