Kúbverjar hafa samþykkt ný fjölskyldulög í þjóðaratkvæðagreiðslu sem heimila samkynhneigðum að giftast og ættleiða auk þess að endurskilgreina réttindi barna.
Löggjöfin, sem inniheldur meira en 400 greinar, var samþykktur með 66,9 prósentum atkvæða þó enn eigi eftir að telja skil frá nokkrum kjörstöðum samkvæmt kjörstjórn landsins.
Umbæturnar höfðu mætt mótspyrnu frá vaxandi evangelískri kristinni hreyfingu á Kúbu þrátt fyrir umfangsmikla herferð stjórnvalda í þágu breytinganna, þar á meðal hundruð funda og umfangsmikillar fjölmiðlaumfjöllunar sem studdi lögleiðinguna.
Nýju lögin munu að auki leyfa staðgöngumæðrun, bætta vernd aldraðra og innleiða ráðstafanir til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi.
Miguel Diaz-Canel forseti viðurkenndi við atkvæðagreiðsluna á sunnudag að umbæturnar njóti ekki stuðnings allra: „Flestir okkar munu greiða atkvæði með breytingunum, en þetta eru vandamál sem samfélagið okkar í heild skilur ekki enn,“ sagði hann.
Ráðstöfunin hafði þegar verið samþykkt af þjóðþingi Kúbu eftir margra ára umræðu um slíkar umbætur. Einn helsti stuðningsmaður aðgerðarinnar var Mariela Castro dóttir fyrrverandi forseta Raul Castro og frænka Fidel Castro.
Á meðan atkvæðagreiðslan fór fram undirbjuggu Kúbverjar sig fyrir fellibylinn Ian sem átti að ná landi á sósíalísku eyjunni seint í gærkvöldi.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga