„Sakirnar á hendur Julian Assange eru þær að hafa komið á framfæri upplýsingum um stríðsglæpi Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í írak, Afganistan og víðar,“ skrifar Ögmundur Jónasson á síðu sína, en hann stendur með fleirum fyrir samstöðu við Alþingishúsið á morgun til þess að krefjast þess að Julian Assange verði látinn laus úr fangelsi.
Ögmundur segir að upplýsingarnar sem Wikileaks birti hafi síðan verið birtar í öllum helstu fjölmiðlum um allan heim enda þóttu þær mikilvægt innlegg í umræðu um ofbeldi og mannréttindabrot.
„Þingmenn, fjölmiðlafólk og allur almenningur verða að rísa upp til varnar Julian Assange og þar með frjálsri fjölmiðlun. Ofsóknir á hendur Wikileaks og Julian Assange beinast gegn tjáningarfrelsinu og þar með lýðræðinu,“ skrifar Ögmundur.
Samstaðan hefst kl. 12 og líkur kl. 13 á sama tíma og efnt verður til sams konar fundar við breska þingið í London. Með þessu móti eru þingmenn þar og hér hvattir til að beita sér fyrir því að látið verði af ofsóknum á hendur Julian Assange og Wikileaks.
Hér getur fólk skráð mætingu á Facebook: Mótmælum framsali Julian Assanges til Bandaríkjanna.