„Í upphafi árs spáðu sérfræðingar á fjármálamarkaði því að arðgreiðslur út úr fyrirtækjum sem eru í kauphöllinni yrðu minnst 200 milljarðar á þessu ári. Önnur fyrirtæki eru líka að skila miklum hagnaði og arðgreiðslum. Peningarnir flæða út úr fyrirtækjunum,“ skrifar Stefán Ólafsson, prófessor og sérfræðingur Eflingar í morgun.
„Árleg hækkun launa til þorra vinnandi fólks á tíma Lífskjarasamningsins á almennum markaði kostaði fyrirtækin ekki mikið meira en 50 milljarðar. Það er mjög lítið í samanburði við væntar arðgreiðslur nú,“ bætir Stefán við.
Of spyr: „Sjá menn ekki samhengið? Það er augljóslega gott svigrúm til að umbuna launafólki og skila því hluta sínum af hagvextinum. Launahækkanir þurfa nú að bæta upp bæði tapaðan kaupmátt vegna verðbólgu og vaxtahækkana – og fyrir hagvöxtinn að auki. Annars mun hlutur launafólks af þjóðarkökunni minnka, sem væri óeðlilegt.“
Grein Stefáns í Kjarnanum, Gamaldags atvinnurekendur í leikhúsi kjarasamninganna, er einskonar gagnrýni á aðalfund Samtaka atvinnulífsins þar sem því var haldið fram að á Íslandi væru hæstu laun í heimi og þau gætu ekki hækkað meir.
„En ég segi að slíkt geti vel gengið ef við erum með næst hæsta verðlag í heimi – sem er raunin,“ skrifar Stefán. „En þetta er ekki einu sinni rétt, því við erum nær því að vera með sjöundu hæstu ráðstöfunartekjur í heimi, en ekki þær næst hæstu.“
Stefán vísar síðan til þess að Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, hafi bent á sköpun nýrra starfa. Alls hefðu um 30.000 ný störf orðið til á Íslandi á þessum sama áratug og kaupmáttur átti að hafa hækkað um 57% samkvæmt SA, sem Stefán heldur fram að sé vitlaust reiknað. Og Stefán segir SA líka reikna vitlaust fjölgun starfa, segir að fjöldi starfandi á landinu hafi aukist úr 180.000 í um 220.000, eða um nær 40.000 á sl. 10 árum.
„Þarna gengur dæmi SA-manna hins vega ekki upp,“ segir Stefán og vísar til hækkunar launa og fjölgunar starfa á sama tíma. „Vinnumarkaðshagfræðin kennir að þegar laun eru orðin of há þá hætta fyrirtæki að bæta við starfsfólki. Ný störf verða ekki lengur til. En sú hefur sem sagt ekki verið staðan á Íslandi. Hér eru slegin met í fjölgun nýrra starfa, þannig að flytja þarf inn vinnuafl í þúsundum til að manna þau. Launin geta því ekki verið of há í þeim aðstæðum sem ríkja á Íslandi. Það er augljóst.“
Stafán vitnar til ummæla Halldórs Benjamíns um tímann fyrir þjóðarsáttarsamningana 1990. Þá hafi launin hækkað um 1.850% án þess að skila nokkurri kaupmáttaraukningu.
„Þetta er eins rangt og nokkuð getur verið,“ skrifar Stefán. „Einkaneysla jókst að raunvirði um 23% á áratugnum frá 1981 til 1990 og það gerist ekki án aukins kaupmáttar. Á áratugnum fyrir þjóðarsátt jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna um 2,2% á ári að meðaltali, eða jafn mikið og á áratugnum eftir þjóðarsátt. Almennt jukust bæði kaupmáttur ráðstöfunartekna og einkaneysla hátt í helmingi meira á ári að jafnaði á þremur áratugum fyrir þjóðarsátt og varð á þremur áratugum eftir þjóðarsátt, þrátt fyrir mikla verðbólgu vegna tíðra gengisfellinga á fyrra skeiðinu.“
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga