Ástarkraftur og arðrán á honum viðheldur kynjamisrétti

Helgi-spjall 1. okt 2022

Það hefur bit að stilla ástarkrafti við hliðina á vinnukrafinum og tala um arðrán á ástarkrafti, segir Berglind Rós Magnúsdóttir prófessor, sem er sannfærð um að þetta hugtak, ástarkrafturinn, sé ekki bara gott til að skilja heiminn heldur líka verkfæri til að breyta honum. Berglind ræddi þennan kraft við Rauða borðið.

Ástarkrafturinn er ekki bara umhyggjan sem við veitum og kærleikurinn á millum okkar heldur líka rómantísk ást sem við gefum og sem stækkar okkur í samskiptum við aðra manneskju. Og hann mótar kynverund okkar. Konur gefa frekar frá sér ástarkraft og eru arðrændar á meðan karlar þiggja ástarkraftinn og taka hann. Með því að skilja þennan ójöfnuð erum við líklegri til að jafna hlut kynjanna. Berglind Rós vill meina að þetta sé meginhugtak til skilnings á ójafnri stöðu kynjanna.

Þrátt fyrir allar þessar lagalegu leiðréttingar á stöðunni, ekki síst í hinu opinbera lífi, þá er kynjamisrétti enn þá staðreynd. En það er einmitt af því við höfum ekki tekist á við tengslin og nándina, og hvað gerist í nánu tengslunum. Og arðránið á ástarkraftinum viðheldur ekki bara kynjamisrétti, heldur er þessi ofurfókus á vinnuhagkerfið og hagvöxt þar ávísun á að við förum á mis við að rækta tengsl og bera virðingu fyrir því að verðmæti verða til í samvinnu. Arðránið viðheldur þannig kynjamisrétti og áherslu einstaklingshyggju.

Það var Anna Guðrún Jónasdóttir prófessor í Örebro-háskólanum í Svíþjóð sem mótaði hugtakið, stillti því upp við hliðina á vinnuafli Marx snemma á tíunda áratugnum í ritgerð sem kallast á íslensku Ástarkraftur, vald og pólitískir hagsmunir. Þar fjallar hún um ást og þann sérstaka skapandi kraft og lífsorku sem hún vill meina að yfirfærist milli fólks í félagslegum tengslum sínum sem kynverur. Anna fjallar um munstur af ójöfnuði í samskiptum kynjanna, hvernig þau njóta, gefa og þiggja af þessum sérstaka ástarkrafti, sem inniheldur bæði erótík og umhyggju.

Berglind Rós ræðir líka stéttaskiptingu við Rauða borðið; stéttaskiptingu í skólum, sem hún hefur rannsakað. Hvernig foreldrar velja sér hverfi og skóla fyrir börnin svo til verða skólar þar sem lang stærsti hluti barnanna í einum skóla er af millistétt en úr verkalýðsstétt í öðrum skóla. Þegar fólk áttar sig á hversu hröð þróunin er í átt til stéttaskiptra hverfa horfa margir til barnanna í lágstéttaskólanum og finnst sem þau séu að missa af einhverju, en Berglind segist ekki siður hafa áhyggjur af börnum í elítuskólunum sem eru líklegri til að hafa rödd og áhrif í framtíðarsamfélaginu.

En Berglind ræðir líka togstreituna milli verkalýðsstéttar og menntaðrar millistéttar sem hefur kannski verið meira áberandi undanfarin misseri en lengi áður. Hún segir millistéttina hafa alla hagsmuni af því að taka þátt í baráttu verkalýðsstéttarinnar og það veiki samfélagið ef þessir hópar geti ekki unnið saman. Það sé aðeins auðvaldið sem græði á því.

Berglind Rós skoðar stéttaskiptingu út frá táknrænu auðmagni, sem fólk býr yfir vegna menntunar og tengsla. Fólk getur haft rödd í samfélaginu þótt það eigi ekkert fjárhagslegt auðmagn. Tekjulágt millistéttarfólk með táknrænt auðmagn sé þannig í mun betri stöðu en verkafólk, sem hefur ekkert auðmagn, hvorki fjárhagslegt né táknrænt. En þó staða þessara hópa sé ólík, og staða verkafólksins áberandi lakari, þá hafi hóparnir báðir sameiginlega fjárhagslega hagsmuni og ættu að sameinast í baráttu fyrir réttlæti og jöfnuði.

Og Berglind Rós ræðir margt fleira við Rauða borðið, til dæmis um námsskrár sem stefna að því að virkja nemendur og valdefla svo þeir geti veit valdhöfum aðhald.

Samtalið má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí