Í dómi Hæstaréttar stendur að miða verði við að það hafi verið Kristján Viðar Viðarsson sem kom í Hafnarbúðina kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Samt benti ekkert vitni á Kristján, hvorki á mynd né þegar honum var stillt upp með öðrum mönnum. Og afgreiðslukonan í Hafnarbúðinni þekkti til Kristjáns og tók skýrt fram að það hafi ekki verið hann sem kom í Hafnarbúðina, sagði Tryggvi Hübner tónlistarmaður við Rauða borðið, en Tyggvi er mikill áhugamaður um þetta mál.
Ástæða þess að Tryggvi nefndi þetta atriði var að þetta var það fyrsta sem hann rak augun í þegar hann opnaði eitt af fjölmörgum bindum Hæstaréttardómsins. Hann hafði fengið bindið lánað hjá Erlu Bolladóttur, valið það ellefta af handahófi og tekið með sér í strætó á leið suður í Hafnarfjörð að spila inn á plötu með Gylfa Ægissyni. Hann opnaði bindið um miðja bók og byrjaði að lesa. Og las fyrst þennan vitnisburð og sá að eitthvað meira en lítið bogið væri við rannsókn þessa máls og þar með dóminn.
Og Tryggvi las afganginn af bindunum og síðan allt sem hann komst yfir um þetta mál. Hann hefur líka rætt við margt fólk sem tengdist málinu. Og ekki skipt um skoðun. Hann segir að það sé augljóst öllum sem skoða að rannsóknin og dómurinn standist ekki.
Tryggvi segist hafa orðið hálf heltekinn af þessu máli þarna í strætóunum og um fátt annað hugsað í tvö ár á eftir. Þá hafði enginn áhuga á að ræða Geirfinnsmálið, dómurinn ný fallinn og fólk líklega orðið þreytt á margra ára umfjöllun. Tryggvi segist hafa verið orðin hálfgerð plága vegna dellu sinnar fyrir málinu, verið fleygt út úr partíum fyrir að vilja ekki tala um annað en Geirfinnsmálið. Hann hafi þurft að beita sig hörðu til að hætta að hugsa um þetta mál og ræða það ekki við neinn.
Hann segir að þannig hafi ástandið verið fram á miðjan níunda áratuginn. Sævar Ciesielski hafði farið til Ameríku eftir að hann losnaði og kom svo heim og hóf sína baráttu, þá í mjög góðu ástandi og skýr. Tryggvi bauð fram aðstoð sína ásamt öðru fólki en Sævar náði engum árangri í þessari tilraun. Það var ekki fyrr en eftir að Sævar dó að málið var í raun látið niður falla með því að saksóknari í endurupptökumálinu féll frá ákæru.
En eftir standa dómar um rangar sakargiftir sem standast engan veginn að sögn Tryggva. Dómurinn byggir á því að þessir krakkar hafi verið að bera sök á saklausa menn til að beina grun frá sjálfum sér og hylma yfir eigin glæpi. Sem nú liggur fyrir dómur um að hafi ekki verið framinn.
Hvernig á það að ganga upp? spyr Tryggvi. Voru Sævar, Erla og Kristján að bera sök á menn um glæp sem þau vissu ekkert um, ef ske kynni að grunur myndi falla á þau seinna. Um að hafa framið glæp sem ekki var framinn?
Tryggvi segir það ákaflega óréttlátt að Erla fái ekki uppreist æru og losni frá þessum ömurlega máli. Hún þvældist inn í afvegaleidda rannsókn lögreglunnar ung og í veikri stöðu, með nýfætt barn og alltaf með hótun um gæsluvarðhald yfir sér, gæsluvarðhald sem gat mögulega orðið tvö ár eins og í tilfelli Sævars.
Tryggvi þekkir Erlu vel og segir hann flotta, klára og sterka konu. Samfélagið ætti að gefa henni frið frá þessu máli. Það er löngu komið nóg.
Samtalið við Tryggva Hübner má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.
Hér má líka sjá og heyra tvö fyrri viðtöl við Rauða borðið við áhugafólk um Geirfinnsmálið, annars vegar við Soffíu Sigurðardóttur:
Og hins vegar við Hjálmtý Heiðdal:
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga