Heilsuvernd tekur yfir Vífilsstaði við einkavæðingu rekstrarins á öldrunarþjónustunni þar. Teitur Guðmundsson læknir stofnaði Heilsuvernd en eiginkona hans er nú skráð fyrir félaginu sem á 60% hlut í Heilsuvernd. Teitur var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir vanskil á opinberum gjöldum.
Teitur var dæmdur til sektar og skilorðsbundins fangelsis vegna vanskila á opinberum gjöldum félags sem fór í þrot. Teitur er forstjóri Heilsuverndar og eiginkona hans, Lilja Þórey Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar. Félag sem Lilja er skráð fyrir á 60% í Heilsuvernd á móti 40% hlut Sturlu B. Johnsen lækni.
Ýmiss heilbrigðisþjónusta hefur verið einkavædd til Heilsuverndar, rekstur heilsugæslu í Kópavogi og nýverið öldrunarheimili Akureyrarbæjar. Þar var gripið til kunnuglegra ráða til að ná út arði úr rekstrinum, þrengt að launakjörum starfsfólks. „Við erum með hugmyndafræði á því hvernig þetta getur gengið upp. Við stefnum ekki á taprekstur, það er alveg klárt,“ sagði Teitur þegar Heilsuvernd tók reksturinn yfir.
Heilsuvernd rekur heilsugæslu í Urðarhvarfi og hefur starfsemin þar vaxið hratt. Heilsuvernd bauð ríkinu að opna þar stórt hjúkrunarheimili fyrri 100 sjúklinga en samningar tókust ekki. Þá sinnir Heilsuvernd læknaþjónustu fyrir Hrafnistu og fleiri stofnanir og er með fjölþættan rekstur á mörgum opinberrar þjónustu og einkarekstrar.
Félagið var stofnað með lágmarkshlutafé á sínum tíma, eða 500 þús. kr. Eigið fé þess var 356 m.kr. um síðustu áramót.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga