„Það er mín innsta sannfæring að við sem samfélag getum ekki vænst þess að hlutur kvenna og þeirra sem eru undirsettir verði réttur, í okkar réttarríki, fyrr en ríkið sjálft hefur að fullu viðurkennt og horfst í augu við náttúru þess ofbeldis sem það taldi og virðist enn telja réttlætanlegt að beita Erlu Bolladóttur,“ segir Sigrún Sif Jóelsdóttir, ein þeirra sem stendur fyrir samtöðufundi með Erlu á Austurvelli á laugardaginn.
Í yfirlýsingu hópsins eru talið upp það sem Erla hefur mátt þola: Innrásir lögreglu á heimili kornungra foreldra. Foreldrar teknir frá ellefu vikna gömlu barni sínu. Mörg hundruð klukkustunda yfirheyrslur, flestar óskráðar. Hundruðir daga í einangrunarvist. Ítrekuð ofbeldisbrot meðan á einangrun stóð. Margra ára fangelsisdómar. Samfélagsleg útskúfun. Þöggun og þolendaskömmun af hálfu yfirvalda til dagsins í dag.
Síðan segir: „Með niðurstöðu endurupptökudómstóls í máli Erlu Bolladóttur hefur íslenskt dómskerfi endanlega sýnt að það muni hvorki taka þátt í því að draga fram sannleik né réttlæti í þessum brýnu úrlausnarefnum. Sú niðurstaða dómstólsins bætist því við þá hartnær hálfrar aldar löngu sögu mannréttindabrota og eineltis sem á undan er gengin.
Þegar einn angi ríkisvaldsins bregst – eins og dómsvaldið hefur hér sannarlega gert – þá er bæði rétt og sjálfsagt að aðrir grípi inn í. Með samstöðufundi viljum við benda á að þetta eru engar málalyktir sem hægt er að sætta sig við. Við komum saman á Austurvelli laugardaginn 15. október kl. 14:00 til að sýna Erlu Bolladóttur að hún stendur ekki ein og einangruð, líkt og hún og aðrir dómþolar þurftu að gera áratugum saman.“
Sigrún Sif koma að Rauða borðinu og ræddi um mál Erlu og hvernig það tengist baráttu hópsins Líf án ofbeldis, en Sigrún Sif segist hafa varið öllum mínum frítíma og orku síðastliðin ár við að leita færra leiða, til að fá ríkið og samfélagið til að sjá að sér gagnvart því kerfisofbeldi og ranglæti sem viðgengst gagnvart þeim sem settir eru undir í félagslegu stigveldi, konum og börnum sem þolað hafa ofbeldi.
Hér getur fólk skráð mætingu á samstöðufundinn á Facebook: Samstaða með Erlu Bolladóttur – 49 ár af mannréttindabrotum. Tryggvi Rúnar Brynjarsson and Elínborg Harpa standa fyrir þessum viðburði, en rætt verður við Tryggva Rúnar í Helgi-spjalli Rauða borðsins kl. 17 í dag.
Sjá má og heyra viðtalið við Sigrúnu Sif í spilaranum hér að ofan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga