„Þessa dagana ólgar bylting innan veggja Menntaskólans við Hamrahlið, þar sem ég á systur og mágkonu meðal nemenda, þar sem barnsmóðir mín og unnusta, hún Brynhildur mín, var í námi þegar henni var nauðgað fyrir meira en tíu árum,“ byrjar Matthías Tryggvi Haraldsson grein sem hann sendi Vísi, en Matthías er landsþekktur sem söngvari Hatara.
Brynhildur Karlsdóttir sendi grein inn á Vísi í gær þar sem hún skrifar um sína reynslu og segir sögu vinkonu sinnar:
„Þegar ég var sautján ára nemandi í MH var mér nauðgað af vini mínum og skólabróður. Þegar ég safnaði loksins kjarki til að segja skólayfirvöldum frá því mættu mér lokaðar dyr. Kvíðaköst, ótti og áfallastreita breyttu því ekki að ég hafði aldrei kært atvikið til lögreglu og skólastjórnendur gátu ekki boðið mér betur en að skipta um skóla. Draumaskólinn MH var í baksýnisspeglinum og fljótlega hætti ég að mæta í MK, þar sem ég þekkti engan, og flosnaði upp úr námi,“ skrifar Beynhildur.
„Á svipuðum tíma var besta vinkona mín hún Elísabet í svipuðu stríði,“ heldur hún áfram. „Hún kærði hrottalega nauðgun og studdi mál sitt með veigamiklum sönnunum. Samt þurfti hún að rekast á ofbeldismanninn á göngum skólans og sitja með honum í dönskutímum. Elísabet fékk hvergi réttlæti, enginn passaði upp á hana og hún ein var látin axla ábyrgð á því ofbeldi sem hún varð fyrir, sautján ára gömul. Hún framdi sjálfsmorð árið 2019.“
Matthías Tryggvi vill kalla tiltekna menn til ábyrgðar. Hann skrifar:
„Þeir heita Steinn Jóhannsson, rektor skólans, og Pálmi Magnússon, sem gegnir starfi áfangastjóra, sem hafa gjörsamlega skitið upp á bak í þessum málum,“ skrifar Matthías. „Klúðrið hefur bersýnilega gengið á samfleytt í meira en tíu ár svoleiðis að vanhæfni þeirra bergmálar í sársaukaþrungnum sögum fjölda þolenda, þar á meðal Brynhildar minnar, Elísabetar vinkonu sem tók sitt eigið líf og enn í dag í mótmælum nemenda,“ skrifar Matthías.
„Eitt nýlegasta dæmið eru viðbrögð þeirra Steins og Pálma við þessum mikilvægu tímamótum,“ heldur hann áfram. „Þegar löngu tímabær Metoo-bylgja menntaskólanema er í þann mund að rísa tekst þeim að ropa upp úr sér þvílíkri vanvirðingu og dirfast að kalla viðburðinn „hysteríu“. Slík ummæli afhjúpa heilan heim úreltra viðhorfa og sýna að þeir eiga ekkert erindi í þessa viðkvæmu umræðu, hvað þá að vinna með ungmennum. Gleymum því ekki að meira en 70 prósent þeirra sem leita til Stígamóta urðu fyrst fyrir ofbeldi á menntaskólaaldri, ef ekki fyrr. Finnst Pálma 70 prósent þeirra sem leita til Stígamóta vera hysterísk?
Þetta er kannski ósanngjörn spurning en stjórnendur skólans hafa ekkert gert til að svara henni hingað til. Þeir neita að tjá sig um þetta opinberlega og snubbótt yfirlýsing um verkferla er enginn sigur. Þá gat Steinn rektor varla nefnt orðið kynferðisofbeldi á nafn á skólafundinum, sem átti að vera sönnun þeirra um verkferla og fagmennsku. Þess í stað var rektorinn að sögn áreiðanlegra heimildarmanna minna „eins og kúkur“. Skólastjórnendur MH, girðið ykkur í brók, biðjið þolendur afsökunar eins og þið meinið það eða víkið úr starfi.“
Hér má lesa grein Matthíasar: Rektor MH „eins og kúkur“ í miðri byltingu.
Hér má síðan sjá og heyra viðtal við tvo nemendur MH við Rauða borðið í gærkvöldi þar sem ástandið í skólnaum var rætt; Jórunni Elenóru Haraldsdóttur og Glóeyju Kristjánsdóttur.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga