Sjálfstæðisflokkurinn reynir að bera af sér sök og bendir á saklausa

„Það væri fullkomið ábyrgðarleysi af hálfu fjármálaráðherra og ríkisstjórnar að grípa ekki til ráðstafana vegna gríðarlegs taps á gamla Íbúðalánasjóði – samfélagsbankanum sjálfum. Ef ekki verður reikningurinn sendur til skattgreiðenda langt inn í framtíðina,“ skrifar Óli Björn Kárason þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og reynir með því að ýta hneykslinu frá flokknum að einhverju allt öðru.

Eins og komið hefur fram á Samstöðinni er skuld Íbúðalánasjóðs tilkomin vegna stórkostlegs klúður ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar árið 2004. Þetta er rakið hér: Kveikti sjálfur á tímasprengjunni sem hann réttir nú almenningi. Og hér, þar sem forsagan er skýrð: Nýtt Icesave í boði Sjáfstæðisflokks og Framsóknar. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, fer síðan yfir söguna í dag: Reynt að aftengja efnahagslega kjarnorkusprengju sem búin var til úr pólitískum mistökum.

Þessi saga var líka rakin ítarlega í rannsóknarskýrslu Alþingis, sem nálgast má hér: Skýrsla nefndarinnar.

Allir sem vilja skoða sjá að rótin er ákvörðun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar um að bjóða út óuppsegjanleg skuldabréf til að fjármagna lán Íbúðalánasjóðs og lána síðan út uppgreiðanleg lán. Ríkisstjórnin vildi gera hvort tveggja í einu, að færa erlendum skuldabréfakaupendum bréf eins og þeir vildu og íslenskum íbúðakaupendum lán eins og þeir vildu.

Niðurstaðan var sprengja sem sprakk um leið og viðskiptabankarnir fóru í samkeppni við Íbúðalánasjóð haustið 2004, aðeins fáeinum mánuðum eftir að lögin voru samþykkt. Þá verður stærsti hluti vandans til.

Vandinn var aukinn með því að eldri skuldabréf, sem mátti kalla inn, var skuldbreytt í nýju óuppsegjanlegu bréfin. Þetta var ákveðið með sömu lögum.

Og ríkisstjórn og Alþingi var varað við afleiðingunum af þessum lögum, m.a. af Seðlabankanum sem stillti upp áhættunni á einfaldan hátt svo sjö ára barn átti að skilja. Hættan var lækkun vaxta vegna samkeppni frá bönkunum, sem í reynd var fyrirséð. Pétur Blöndal sagðist í ræðustól á þingi vilja að þingmenn greiddu atkvæði með opin augun, vitandi af þessari áhættu sem þeir væru að kalla yfir almenning.

Og það gerðu þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, og reyndar líka þingmenn Frjálslynda flokksins. Allur hópurinn samþykkti að leggja almenning undir þetta veðmál.

Þegar bankarnir fóru síðan í samkeppni við Íbúðalánasjóð um haustið gerðu stjórnvöld ekkert til að bregðast við heldur bættu við vandann, breyttu Íbúðalánasjóði í einskonar heildsölubanka fyrir einkabankana svo þeir fengju fjármagn til að lána íbúðareigendum sem fóru síðan með peninginn í íbúðalánasjóð til að greiða upp lánin þar. Sem auðvitað stækkaði enn gatið á Íbúðalánasjóði sem almenningur þarf á endanum að borga.

Það er því alrangt hjá Óla Birni, og reyndar öðru Sjálfstæðisflokksfólki sem borið hefur út það sama, að gatið á Íbúðalánasjóði sé afleiðing af félagslegum rekstri sjóðsins. Þetta er afleiðing af einkavæðingu íbúðalánanna, hvernig þau voru færð frá hinu opinbera og yfir til bankanna. Ríkisvaldið hafði án mikilla áfalla sinnt íbúðalánum frá því upp úr miðri síðustu öld í sérstökum sjóðum og frá ríkisreknum bönkunum þar á undan og á eftir.

Skuldin sem nú er að falla á almenning leggst til viðbótar við aðrar byrðar sem almenningur hefur þurft að taka á sig vegna einkavæðingar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í byrjun aldarinnar. Í skýrslu um tap lífeyrissjóðanna vegna einkavæðingar bankanna og bólunnar sem hún bjó til var tapið sagt vera um 700 milljarðar króna á núvirði. Og fannst flestum helst til of varlega áætlað.

Tap almennings af falli bankanna var gríðarlegt, svo mikið að margar fjölskyldur liggja enn eftir. Í raun er tapið ómetanlegt til fjár. Það er ekki aðeins að um tíu þúsund fjölskyldur hafi misst heimili sitt og þurft síðan að þreyja þorrann á okurmarkaði fyrir leiguhúsnæði, heldur braut Hrunið samfélagið niður; traust á öllum stofnunum samfélagsins hrundi, líka traust í almennum samskiptum. Öll grunnkerfi samfélagsins standa veik eftir, innviðir grotna og flest af þeim vandamálum sem þessi stórkostlega mislukkaða einkavæðing skyldi eftir eru enn óleyst.

Tapið vegna klúðursins með Íbúðalánasjóð frá 2004 er nú metið á um 200 milljarða króna. Það bætist við þá 70 milljarða króna á núvirði sem greiddir voru í sjóðinn á árunu 2012-14. Og þessi skuld getur orðið hærri.

Og tilboð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, sem er einn þeirra sem samþykktu lögin og bjó því til vandann, er að almenningur taki á sig 47 milljarða króna sem tap ríkissjóðs, til viðbótar við 70 milljarða króna sem þegar hafa verið greiddir. Og að restina, 153 milljarðar króna, verði lífeyrissjóðirnir látnir bera. Sem er auðvitað sami almenningur.

Tilboðið er sem sé að almenningur taki á sig 117 milljarða króna, rúmlega Landspítala, í skerðingu opinberrar þjónustu. Og 153 milljarða króna í skerðingu lífeyrisréttinda.

Lífeyrissjóðirnir keyptu ekki öll þess bréf í upphafi. Þá voru það erlendir brasksjóðir sem keyptu mest. Og útboðsskilmálar voru aðlagaðir að þeirra væntingum. Síðan hafa þessir sjóðir losað sig við bréfin til lífeyrissjóðanna, sem keyptu þau sem örugg verðbréf með ríkisábyrgð. Ábyrgð sem Bjarni Benediktsson vill nú smeygja sér undan.

Í tilboðini Bjarna fellst að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn taki ekkert á sig, flokkarnir sem þó bjuggu vandann til svo koma mætti íbúðalánum til banka í eigu flokksfélaga.

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ætla enga ábyrgð að taka, ekki frekar en þegar lífeyrissjóðirnir skruppu saman um 700 milljarða króna eða þegar 10 þúsund fjölskyldur urðu gjaldþrota vegna mislukkaðrar einkavæðingar þessara flokka.

Eins og 2004 er Sjálfstæðisflokkurinn með fjármálaráðuneytið og Framsókn með húsnæðismálin. Þessir flokkar ætla ekki einu sinni að biðja þjóðina afsökunar.

Nei, Óli Björn þingflokksformaður vill færa skömmina til þjóðarinnar, að hún kunni ekki að fara með rekstur opinberra sjóða. Að þjóðin hefði átt að hlusta á hann og aðra Sjálfstæðisflokksmenn og einkavæða meira og fyrr til að froða sér frá þeim skaða, sem einkavæðing Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur valdið þjóðinni.

Og fyrir utan Kjarnann og Samstöðina, þá bera allir fjölmiðlar út þennan söguskilning Óla Björns og félaga. Þótt fyrir liggi niðurstaða opinberrar rannsóknarnefndar að sökin sé öll Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí