Sagan á bak við kenninguna um hvarf Geirfinns, um dráttarbrautina, bílferðina til Keflavíkur og spírasmyglið á upphaf sitt í drykkjurausi Guðmundar Agnarssonar. Þótt lögreglan hafi afskrifað þetta sem raus, urðu öll grunnatriði sögunnar að burðarvirki ákærunnar, dómsins og forsenda langra gæsluvarðsúrskurða. Hér segir frá því hvernig fylleríisröfl kastaði harmi og angist yfir líf fjölda fólks.
Geirfinnur Einarsson hvarf þriðjudagskvöldið 19. nóvember 1974. Tæpu ári síðar sagði Guðmundur Agnarsson börnum sínum, tengdasyni og eiginkonu frá hlutdeild sinni í dauða Geirfinns. Fjölskyldunni er skiljanlega brugðið og hvetja þau manninn til að gefa sig fram. Sem hann gerir ekki. Hann heldur áfram drykkju, fer að heiman og þvælist um bæinn.
Sonur hans fer hins vegar til lögreglunnar og endursegir söguna sem faðir hans hafði sagt. Njörður Snæhólm tók af honum skýrslu og yfirheyrði líka móður hans, systur og mág.
Sagan var svona í endursögn Jóns Daníelssonar í bók hans Sá sem flýr undan dýri:
„Guðmundur hafði játað aðild sína að hvarfi Geirfinns fyrir börnum sínum og tengdasyni að kvöldi 20. október og þá verið talsvert drukkinn. Guðmundur sagðist hafa kynnst Sigurbirni Eiríkssyni, þegar þeir lágu saman á sjúkrahúsi og þeir verið lítils háttar kunnugir síðan. Guðmundur var vélstjóri að mennt og haustið 1974 bauð Sigurbjörn honum starfa við að sækja smyglvarning út á sjó skammt frá Keflavík. Fyrsta ferðin var farin fljótlega. Guðmundur tók traustaki bát frænda síns í Keflavík, en Geirfinnur kafaði eftir smyglinu.
Í nóvember var aftur farið að sækja smygl. Guðmundur átti að vera á vakt á Landsspítalanum og stimplaði sig þar inn, en tók svo hvítan sendibíl í eigu spítalans og ók honum til Keflavíkur. Þangað komu þeir ekki fyrr en eftir tilsettan tíma og Magnús Leópoldsson fór inn og hringdi í Geirfinn. Guðmundur sótti aftur trillu frænda síns og nú var Sigurbjörn Eiríksson líka kominn á staðinn og maður með honum.
Guðmundur stjórnaði bátnum, en Geirfinnur kafaði eftir smyglinu. Þeir voru búnir að fara tvær ferðir til lands, en í þriðju ferðinni, sem jafnframt átti að verða sú síðasta, kafaði Geirfinnur í froskmannabúningnum en kom ekki upp aftur. Guðmundur beið eftir honum í fjóra tíma, en taldi þá útséð um að Geirfinnur kæmi upp.
Þetta var sem sagt slys að sögn Guðmundar, en hann kvað sig hafa skort kjark til að skýra frá því. Að auki sagðist hann hafa verið undir pressu Sigurbjörns og þeirra félaga. Mátti jafnvel skilja á honum að hann hefði óttast um líf sitt.“
Í kjölfarið er Guðmundur handtekinn og látinn sofa úr sér í fangaklefa. Morguninn eftir er hann yfirheyrður og staðfestir að hann hafi sannarlega sagt þessa sögu, en að hún sé helberan uppspuna sagður til að gera sig breiðan þegar hann var drukkinn.
Lögreglan kannaði sannleiksgildi frásagnarinnar eins og fram kemur í grein Soffíu Sigurðardóttur í Kjarnanum, Endurunnar sögur og afturgengnir bílar.
„Lögregla aflar upplýsinga úr hafnsögumannabók Keflavíkur um ferðir fossa Eimskipafélagsins í nóvember og byrjun desember og þar er Goðafoss eingöngu skráður 3. – 4. desember. Vinnufélagi Guðmundar sagði það af og frá að Guðmundur hefði getað skotist frá af vakt til að sinna slíkum erindum og vera svo lengi fjarverandi.
Í frásögnum kemur líka fram að Guðmundur hafi fyrir nokkru tekið upp samband við konuna Gróu Bæringsdóttur sem sé fyrrverandi sambýliskona og barnsmóðir Sigurbjörns, þau slitið samvistum og hún gifst Ragnari Á. Magnússyni og bendlar Guðmundur hann líka við að standa að baki þessu bixi. Þá kemur Jón Ragnarsson við sögu þar sem þau Guðmundur og Gróa hafi þjórað ótæpilega á veitingastöðum hans.
Víkur svo sögunni fram til 17. febrúar 1976 að Guðmundur er kallaður aftur til skýrslutöku og er sú skýrsla á bls 87, tekin af E.N. Bjarnason lögreglumanni. Guðmundur staðfestir að fyrri skýrslur séu réttar og að hann hafi líklega reiðst Gróu og því reynt að ná sér niðri á henni og hennar fyrrverandi. Hann hafi ekki verið í neinum samskiptum við Sigurbjörn undanfarin ár, annað en að heilsa honum úti á götu. Svo endar skýrslan yfir honum svona: „Það, sem kunni að hafa verið haft eftir mætta varðandi einhverjar staðsetningar við höfnina í Keflavík, þá segir mætti þær vera algjörlega út í bláinn, hafi hann þá yfirleitt nokkurn tímann talað um þær við einn eða neinn.“
Í bók Jóns segir: „Lögreglan aðhafðist ekki meira varðandi Guðmund Agnarsson. Framburður eiginkonu hans gaf ástæðu til að draga í efa að hann væri alls kostar heill á geðsmunum. Hann hafði eitt sinn verið vistaður á Kleppi og þegar hann sagði þessa sögu, hafði hann alllengi verið í nánast samfelldum drykkjuskap.“
Og svo segir Jón: „Þótt fáránlegt sé, liggur þessi kjaftasaga eins og rauður þráður gegnum rannsókn Geirfinnsmálsins allt frá upphafinu í janúar og þar til Karl Schütz tók málið í sínar hendur í ágúst.“
Og grein Soffíu fjallar um þetta, hvernig öll efnisatriði sögunnar sem Guðmundur sagði fjölskyldu sinni drukkinn varð að burðarvirki játninga fólks nokkrum mánuðum seinna.
Soffía ber sögurnar saman:
„Í sögu Guðmundar fær Sigurbjörn hann til að sækja smygl, af því þá vantaði vélstjóra og Magnús er með í aðgerðunum og svo einhver sem hann gefur engin frekari deili á. Magnús fer inn í Hafnarbúðina til að hringja í Geirfinn. Þeir fara út á báti, sem Guðmundur sagði frænda hans hafa átt, en er í raun ekki viss um að hann hafi nokkurntíma átt bát. Smygl er sótt út á sjó skammt frá Keflavík. Í fyrra skipti er sótt lítið magn, en mikið í seinni ferð. Geirfinnur sækir góssið í sjóinn. Þá verður það slys að Geirfinnur fellur útbyrðis af bátnum og finnst ekki aftur. Notast er við gamla bryggju nærri gamla slippnum, sem vísar til Dráttarbrautarinnar. Síðar efast Guðmundur um að hafa gefið neina lýsingu á staðháttum. Farið er á hvítum sendiferðabíl til Keflavíkur og varningur fluttur með honum til Reykjavíkur, en ekki kemur fram hvert. Þrír menn eru nafngreindir, Geirfinnur og Klúbbmennirnir Sigurbjörn og Magnús.
Saga hinna:
Leitað er til Sævars um að selja smyglað áfengi. Magnús og Einar koma strax við sögu, en Valdimar og Sigurbjörn síðar. Fyrst hittast menn til að undirbúa plottið. Síðar er farið að sækja stóra sendingu. Stór hvítur sendiferðabíll kemur við sögu og við bætist að hann sé með gluggaröð á hlið. Rauður Fíat er einnig ýmist í förinni eða á bryggjusvæðinu. Farið er út á báti, en aldrei fæst lýsing á bátnum. Staðháttum við Dráttarbrautina er lýst eftir að lögregla er búin að fara með hina grunuðu í vettvangsferð. Geirfinnur bíður bana af slysförum er hann fellur útbyrðis af bátnum, en í síðari lýsingum bætast við átök við hann. Nafngreindir eru Geirfinnur, Magnús, Einar, Sigurbjörn og Valdimar og við bætast síðar fleiri einkum eftir myndasýningar lögreglunnar. Sævar, Erla og Kristján Viðar eru þátttakendur í málinu.“
Þetta er náttúrlega með ólíkindum. Hvernig stenst það að drukkinn maður getur mælt fram meginatriði í atburðarás sem hann þekkti ekkert til en sem síðan rennur út úr alls óskyldu fólki nokkrum mánuðum síðar?
Og inn í frásögn þessa manns, sem enginn vildi taka alvarlega, er sök varpað á Klúbbmenn, sem Erla Bolladóttir var dæmd fyrir að bendla við málið. Þeir voru hins vegar löngu tengdir málinu hjá lögreglunni, sem virðist hafa trúað sögu Guðmundar Agnarssonar þótt hún hafi ekki trúað honum. Þeir héldu sögunni en fundi annað fólk til að segja hana. Eins ótrúlega og það hljómar.
Myndin sem fylgir þessari frásögn er af Guðmundi Agnarssyni og sakborningum í Geirfinns- og Guðmundarmálum.
Við munum halda áfram að fjalla um Geirfinnsmálið á Samstöðinni. Annað kvöld munum við ræða við Jón Daníelsson blaðamann. Hér að neðan má sjá og heyra þrú viðtöl við Rauða borðið við áhugafólk um Geirfinnsmálið, fyrst við Soffíu Sigurðardóttur:
Síðan við Hjálmtý Heiðdal:
Og loks við Tryggva Hübner:
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga