„Í byrjun næstu viku lýkur þessum kafla valdabaráttunnar í ASÍ. Næst snúa nýju valdhafarnir sér að samfélaginu í heild. Það er eins gott að verða við öllu búinn,“ skrifar Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra og áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins í Moggann í grein þar sem meirihlutanum í Alþýðusambandinu er líkt við valdaránsfólk.
„Samstaða Ragnars Þórs og Vilhjálms Birgissonar, verkalýðsforingja á Akranesi, með Sólveigu Önnu ræðst ekki af virðingu fyrir meginsjónarmiðum ASÍ heldur af fíkn í völd,“ skrifar Björn og enduróma gagnrýni minnihlutans í ASÍ og þeirra Drífu Snædal, fyrrum forseta, og Höllu Gunnarsdóttur, fyrrum framkvæmdastjóra. Það er því augljóst að málflutningur þeirra tveggja til átakanna fellur vel að afstöðu Valhallar til verkalýðsbaráttu.
Björn skrifar: „Í fyrrnefndu samtali við Morgunblaðið gaf Halla Gunnarsdóttir til kynna að atburðarásin að valdatöku þessarar róttæku blokkar innan ASÍ hefði „verið ákveðin fyrirfram, með aðstoð fræðilegra kenninga“. Hún nefnir ekki kenningarnar en þær má líklega finna í boðskap öfgamanna til vinstri, sósíalistanna, sem stóðu upphaflega að valdatöku Sólveigar Önnu í Eflingu og fengu síðan Ragnar Þór og Vilhjálm á sitt band.“
Björn Bjarnason hefur alla sína æfi skrifað um rauðu hættuna, skrifaði erlendar fréttir fyrir Morgunblaðið á tímum kalda stríðsins og hefur aldrei yfirgefið það stríð. Hann tekur því fagnandi málflutningi minnihlutans í ASÍ og starfsmannanna sem hafa sagt upp. Samkvæmt leiðarbók kalda stríðsins er það ávallt einskonar valdarán byggt á undirróðri og kúgun þegar róttækt fólk og flokkar fá lýðræðislegt umboð. Og það hefur einmitt verið erindi minnihlutans í ASÍ, að lýðræðisleg niðurstaða sé ólýðræðisleg ef hún gefur róttæku fólki umboð.
Þótt Björn Bjarnason sé kominn á eftirlaun er hann enn áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum og skrifar aldrei neitt sem ekki mál túlka sem afstöðu flokksins. Hann skrifar í Sunnudagsmoggann og er reglulega fenginn af ráðherrum flokksins til stefnumörkunar.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga