Verkalýðshreyfingin ræðst á sitt besta fólk

Verkalýðsmál 8. okt 2022

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir að verkalýðshreyfingin hafi árum saman ráðist að sínu besta fólki. Því sé haldið fram að það fólk sé vont og eigi að hypja sig, fólkið sem er tilbúið að rífast og berjast. Þau sem gera það ekki eru sögð kunna að spila með og eigi að ráða, þótt það sé aldrei útskýrt hvers vegna.

Sólveig Anna rakti meðal annars baráttu Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akranes, í Helgi-spjalli við Rauða borðið í morgun. Hvernig reynt hefði verið að þagga niður í honum innan hreyfingarinnar og á þingum ASÍ fyrir það eitt að bera fram tillögur sem nutu mikils fylgis innan grasrótarinnar. Á þingum ASÍ hafi Vilhjálmur verið truflaður í sínum málflutningi, fundarstjóri hafi þaggað niður í honum og einu sinni var meira að segja skrúfað niður í hljóðnemanum meðan Vilhjálmur var í ræðustól.

Níðgreinin sem forystufólk í nokkrum félögum skrifuðu einkum um Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, í vikunni, en vissulega líka um Sólveigu Önnu sjálfa, var af sama meiði. Þar var Ragnari lýst sem hálfgerðum ofstopamanni, sem er lýsing sem þau sem þekkja til Ragnars Þórs kannast engan veginn við.

Stjórn VR svaraði þessum óhróðri með grein á Vísi í gærkvöldi og þar stendur m.a: „Við stjórnarfólk í VR erum ólíkur hópur og alls ekki alltaf sammála og vissulega langir stjórnarfundir oft á tíðum en Ragnari Þór hefur tekist að byggja upp góðan liðsanda í hópi stjórnar þar sem frjáls og opin skoðanaskipti eiga sér stað og allar raddir fá að heyrast.“

Þessi lýsing passar betur við Ragnar Þór að sögn Sólveigar Önnu en þær lýsingar sem settar voru í grein andstæðinga hans í vikunni. Það sé augljóst að þar hafi fólkið skrifað gegn betri vitund, inn í andrúm sem það taldi viljugt til að taka við lygum um Ragnar Þór.

Sólveig Anna sagði það augljóst af þessari aðför að andstæðingar breytinga telja allt leyfilegt. Hún hafi sjálf mátt upplifa það frá því að hún tók við sem formaður Eflingar. Það virðist engin takmörk fyrir því hvað þykir boðlegt að segja um hana eða bera upp á hana. Morgunblaðið hafi t.d. birt upplognar sakir á nýja forystu Eflingar og allir meginstraumsmiðlar hafi sóst eftir að flytja frásagnir andstæðinga hennar af því hversu ill manneskja hún er. En þegar Kjarninn sagði á fimmtudaginn frá innbroti Agnieszku Ewu og Ólafar Helgu Adolfsdóttur í tölvupóstinn hennar hafi enginn miðill fjallað um það, nema hvað Vísir reyndi að stilla þessu klára lögbroti upp sem einhverjum slag á milli kvenna.

Sólveig Anna lýsti innkomu sinni inn í hreyfinguna þannig að henni hafi verið gert ljóst að hún væri boðflenna og yrði að beygja sig undir þær reglu sem fyrir voru. Það var einskis virt að hún hafi komið inn með afgerandi stuðning sinna félaga. Það var ekki bara að henni hafi ekki verið heilsað, heldur hafi ekkert verið gert með tillögur hennar eða kröfur. Og um leið og hún kom hafi fólk króað hana af til að segja henni hvað Vilhjálmur Birgisson væri ómögulegur maður. Það var ekki sagt hvað hann átti að hafa gert af sér, heldur var Sólveig Anna vöruð við honum eins og væri hann hættulegur dólgur.

Sólveig Anna sagði skondið að sjá Björn Bjarnason taka undir allt sem Drífa Snædal, fyrrum forseti ASÍ, og Halla Gunnarsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri sambandsins, hefðu sagt. Það væri kostulegt bandalag kvenna úr Vg og innsta kjarna Valhallar.

En þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Morgunblaðið hefði frá upphafi verið farvegur fólks innan Eflingar og verkalýðshreyfingarinnar sem vildi koma höggi á Sólveigu Önnu og þau sem beittu sér fyrir harðari verkalýðsbaráttu. Þar renna hagsmunir þeirra sem vilja halda Alþýðusambandinu óbreyttu saman við hagsmuni þeirra sem eiga Ísland, þeirra sem eiga atvinnutækin.

Aðspurð um þá ákvörðun Samfylkingarinnar að stilla sér upp gegn breytingum innan verkalýðshreyfingarinnar með vali á fólki í Verkalýðsmálaráð flokksins og því hvernig það hefur beitt sér, sagðist Sólveig Anna þykja þessi ákvörðun undarlega. Eina leiðin til að skilja hana væri að horfa til minnkandi áhrifa Samfylkingarinnar innan hreyfingarinnar, en margir lykilmenn hennar sem hefðu horfið á braut út af breyttri stefnu og áherslum hafi verið Samfylkingarmenn.

Sólveig Anna telur fullvíst að Ragnar Þór muni fá góða kosningu sem forseti ASÍ. Hann hafi unnið til þess, skapað sér traust innan hreyfingarinnar. Hún telur að eftir að hafa fallið í forsetakjöri muni Ólöf Helga bjóða sig fram sem annan varaforseta á móti Sólveigu Önnu. Hún segir Ólöf Helga líti á sig sem forystumanneskju andspyrnunnar innan verkalýðshreyfingarinnar og hafi hegðað sér þannig síðustu mánuði. En Sólveig Anna segist ekki óttast mótframboðið.

Framundan eru mikil átök í samfélaginu, að sögn Sólveigar Önnu, og því sé mikilvægt að verkalýðshreyfingin nái vopnum sínum og sé fær um að berjast fyrir hagsmunum sinna félaga. Auðvaldið og valdastéttin veit að kapítalisminn mun keyra inn í hverja krísuna á fætur annarri og það mun valda óróa og kalla á viðbrögð þeirra sem þurfa að bera kostnaðinn af kreppu, verðbólgu og hruni. Þess vegna sé róið að því öllum árum að endurvekja Salek-samkomulagið í einhverri mynd, sem í raun gengur út á að aftengja forystu verkalýðshreyfingarinnar við sína félaga og gera hana að samverkafólki eigenda landsins, þeirra sem eiga atvinnutækin, og valdastéttar ríkisins um að ákvarða launabreytingar og afgreiðslu á kröfugerð hreyfingarinnar.

Það er óendanlega mikilvægt að koma í veg fyrir þessar ráðagerðir því það er aðeins með öflugri verkalýðshreyfingu sem byggir á kröfur fjöldans sem við getum náð einhverjum árangri fyrir okkar félagsfólk.

Um þetta og margt fleira var rætt í Helgi-spjalli Rauða borðsins við Sólveigu Önnu. Samtalið má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí