Í kvöld eftir klukkan tíu verða 48 ár liðin frá því að Geirfinnur Einarsson hvarf frá heimili sínu í Keflavík. Talið var að hann hafi haldið til fundar við ókunnugan mann í Hafnarbúðinni í Keflavík og ekkert hefur spurst til hans síðar.
Soffía Sigurðardóttir, mikil áhugamanneskja um þetta hvarf, lýsti þessu svo í grein fyrir tveimur árum, sem hún kallaði Rannsóknin sem hvarf í Keflavík: „Vitað er með góðri vissu að vinur Geirfinns, sem hafði verið í heimsókn, skutlaði honum að Hafnarbúðinni um kl. 22 um kvöldið og að hann kom þangað inn og keypti sígarettupakka og fór. Kona hans sagði hann hafa komið heim aftur, fengið símtal og farið rétt strax út aftur og í það skiptið á bíl þeirra. Daginn eftir fara kona hans, vinir og vinnufélagar að grennslast fyrir um hann, spurðu m.a. lögreglu hvort þeir vissu eitthvað um hann og vinir hans fundu bílinn skammt frá Hafnarbúðinni. Á fimmtudagsmorgninum hóf lögreglan formlega leit og lýsti eftir Geirfinni í útvarpi og með mynd af honum í blöðum og sjónvarpi. Fjölmennir leitarflokkar frá björgunarsveitum leituðu víða næstu daga, á landi og með ströndum og köfuðu í höfninni og þyrla Gæslunnar leitaði úr lofti.
Lögreglan ræddi við nokkra einstaklinga og tók formlega skýrslu af sumum þeirra. Fljótlega barst grunur lögreglu að því að hvarf Geirfinns mætti rekja til ókunnugs manns sem kom inn í Hafnarbúðina og fékk að hringja þaðan á svipuðum tíma og kona Geirfinns segir að hann hafi fengið símtal sem varð til þess að hann fór út aftur. Reyndi lögregla að láta gera eftirmynd af þessum manni, en erfiðlega gekk að ná fram mynd sem vitni sammæltust um eða felldu sig við. Þessi myndagerð endaði með leirstyttu af mannshöfði, sem eftir það gekk undir nafninu Leirfinnur,“ skrifar Soffía.
Það sem á eftir fylgdi var ein af mestu ráðgátum Íslandssögunnar; hvernig rannsóknin á þessu máli gat vafið svo upp á sig að fjöldi manna var hnepptur í gæsluvarðhald og hópur fólk dæmdur fyrir aðild að morðum á Geirfinni og Guðmundi Einarssyni, ungum manni sem hafði horfið í Hafnarfirði 26. janúar þetta sama ár fyrir tæpri hálfri öld.
Við ræddum við Soffíu og fleira áhugafólk um Geirfinns- og Guðmundarmál við Rauða borðið og reyndum að ná utan um þessa sögu. Hvað var það sem dreif rannsóknina áfram, hvernig sögurnar kviknuðu sem síðar urðu að atburðarás sem sett var í ákæru og hvers vegna þetta mál gekk svo langt, varð að margföldu dómsmorði.
Í tilefni dagsins eru hér þessi viðtöl. Í þeim er mikil þekking á þessu máli og djúp greining. Því miður er það svo að fræðasamfélagið hefur brugðist í þessu máli. Þrátt fyrir mikilvægi þessa máls og hversu sérstakt það er og áhugavert, eru ekki til neinar rannsóknir á því. Ekki í afbrotafræði, ekki í lögfræði, ekki í sagnfræði, ekki í félags- eða stjórnmálafræði, ekki í fjölmiðlafræði né öðrum fræðigreinum sem gætu fjallað um þetta. Það mætti meira að segja rannsaka málið í guðfræði, því þáttur fangelsispresta í málinu var merkur og mikilvægur, gæti varpað ljós á mikilvægi sálgæslu. En það er varla til BA-ritgerð, hvað þá meistararitgerð og engir prófessorar hafa staðið fyrir rannsókn á þessu máli.
Og þrátt fyrir endurupptökuna, undirbúning hennar og síðan dóminn þar sem málinu var vísað frá hefur hið opinbera ekki gert þetta mál upp, svo hægt sé að skilja út á hvað það gekk. Dómarafélagið hefur heldur ekki tekið á því, ekki félög lögreglunnar, lögfræðinga, blaðamanna.
Þau sem hafa haldið málin opnu og eru enn að rannsaka það, skrifa um það og byggja upp frekari þekkingu er fólk sem kalla mætti alþýðufræðinga. Og kannski er það eini farvegurinn sem getur haldið utan um þetta mál sem afhjúpaði algjörlega öll grunnkerfi samfélagsins sem vanhæf, heimsk og grimm.
Hér er yfirlit yfir hluta af starfi alþýðufræðinganna. Haldið verður áfram að rekja fleiri þætti við Rauða borðið á næstu mánuðum.
Fyrst var rætt við Soffíu Sigurðardóttur:
Síðan við Hjálmtý Heiðdal:
Þá við Tryggva Hübner:
Einnig var rætt við Jón Daníelsson:
Og Tryggva Rúnar Brynjarsson:
Og loks við Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson:
Myndin er af frétt Vísis fjórum dögum eftir hvarf Gerifinns.