Það var samdóma álit ræðufólks á mótmælunum á Austurvelli frá í vor að skýrsla ríkisendurskoðunar hafi staðfest allt sem þar var sagt. Skýrslan sýni að almenningur mat söluna rétt en stjórnvöld ekki. Ekkert af ræðufólkinu taldi sig þurfa að endurskoða neitt af því sem það sagði í vor, ef eitthvað væri hefði það mátt kveða sterkar að orði.
Íslandsbankasalan var framhaldssaga vikunnar við Rauða borðið. Á mánudaginn komu þeir Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis og Atli Þór Fanndal framkvæmdastjóri Transparency International – Iceland:
Á þriðjudaginn komu þau Ásta Lóa Þórsdóttir þingmaður og Þorvaldur Gylfason prófessor:
Og á miðvikudagskvöldið fóru þau Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir forseti félagsvísindadeildar á Bifröst og Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður yfir málið.
Það kemur fram í þessum samtölum að Íslandsbankasalan öll er gagnrýnisverð, ekki bara seinna útboðið. Augljóst sé að afslátturinn sem gefinn var í fyrra útboðinu var gríðarhár, ekki minni en 25 milljarðar króna.
Ræðufólkið var líka allt sammála um að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafi reynt að tefja málið og beina því í þann farveg sem þeim hentaði best með því að óska eftir úttekt Ríkisendurskoðunar. Sú stofnun er ekki fær um að skoða eða úrskurða um mikilvæga þætti þessa máls. Markmið ráðherranna var að beina umræðunni að einhverju smáatriði, frá megin atriðum máls. Það sést vel þessa dagana þegar Sjálfstæðisflokksfólk telur það brýnast að ræða hver sendi skýrsluna á fjölmiðla fáeinum klukkutímum fyrir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Þau sem komu að Rauða borðinu voru á því að þetta mál ætti eftir að lita alla umræðu á næstu vikum og mánuðum, enda væri það stórt og vont. Og að þrátt fyrir samræmd viðbrögð stjórnarflokkanna væri ólíklegt að Vg og Framsókn gæti fallist á að Bjarni Benediktsson fengi að sjá um frekari sölu ríkiseigna.
Ræðufólkið ræddi sérstaklega stöðu Katrínar Jakobsdóttur og Vg, hvernig Katrín og flokkur hennar er nú komin í þá stöðu að verja spillingu Sjálfstæðisflokksins. Það væri nokkur stefnubreyting frá uppruna Vg í Alþýðubandalaginu og Sósíalistaflokknum gamla.