Girt verði fyrir arðgreiðslur til leikskóla

Bæjarpólitík 7. nóv 2022

Sósíalistar í Reykjavík lögðu í dag fram tillögu í Skóla- og frístundaráði um að fjármagn til sjálfstætt rekinna leikskóla fari í starf leikskólanna, en ekki í vasa eigenda. Þetta þýðir að þeim verði ekki lengur heimilt að greiða sér út arð. Þessu greindi borgarfulltrúi Sósíalista og fulltrúi þeirra í Skóla- og frístundaráði, Trausti Breiðfjörð Magnússon frá í dag.

Í skýrslu innri endurskoðunar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla frá því í mars 2022 kom fram að Reykjavíkurborg setti engin skilyrði um arðgreiðslustefnu eða meðhöndlun rekstarhagnaðar eins og gert er í þjónustusamningi við grunnskóla.

Sjálfstætt reknum grunnskólum sem fá fjárveitingar frá Reykjavík er óheimilt að greiða sér út arð, en hið sama gildir ekki um leikskóla. Í sumum tilfellum var arður greiddur út þó reksturinn væri rekinn í tapi. Arðgreiðslur gátu numið allt yfir tug milljóna.

Í tillögu Sósíalista er einnig tekið fram að takmörkun arðgreiðslna eigi við ef hinn sjálfstætt rekni leikskóli er seldur. Ekki er ljóst hvenær tillagan verður tekin til meðferðar en það er undir formanni ráðsins Árelíu Eydís Guðmundsdóttur komið hvenær hún verður tekin fyrir.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí