Nawal Ben Hamou þingmaður sósíalistaflokksins og húsnæðismálaráðherra í Brussel lagði til á nýlegum fundi með ráðherrum héraðsins að leigjendur fái forkaupsrétt á því húsnæði sem þeir leigja verði það sett á sölu. Mætir tillagan þó mikilli andstöðu frjálslynda miðjuflokksins DéFi sem og samtaka fasteignasala í Belgíu. Tillaga Hamou kemur til vegna erfiðrar stöðu á leigumarkaði og vill hún með henni tryggja húsnæðisöryggi leigjenda í Brussel.
Tillagan gerir ráð fyrir að leigjendur fái tveggja mánaða umhugsunartíma áður en eignin er auglýst til sölu og að fasteignaverðið taki mið af mældu verðlagi á fasteignamarkaði. Gert var ráð fyrir þessari ráðstöfun sem hluti af neyðaráætlun stjórnvalda sem var samþykkt í janúar 2021 en hún miðaði að því að styrkja stöðu leigjenda í héraðinu.
Fasteignasalar í Belgíu mótmæla þessari tillögu harðlega og segja hana muni þyngja allar hreyfingar á fasteignamörkuðum. Samkvæmt tillögunni munu kaupsamningar leigjenda og eigenda verða milliliðalausir og því missa fasteignasalar af þeim þóknunum sem þeir annars fá við hefðbundin fasteignaviðskipti, því mótmæla fasteignasalarnir.
Ben Hamou lagði að sama skapi til að komið verði á leigubremsu í Brussel og að hún taki mið af hækkandi orkuverði. Munu því leiguíbúðir njóta leigubremsunnar í hlutfalli við aukinn kostnað vegna orkunotkunar. Þannig verða þau heimili á leigumarkaði sem verst verða úti varin fyrir hækkunum.
Var tillagan samþykkt nú um miðjan október og mega því íbúðir með lægsta orkunotkun hækka samkvæmt vísitölu verðlags einu sinni á ári, íbúðir í orkuflokknum neðar um 50% af vísitölunni en húsaleiga á öðrum íbúðum verður fryst. Þrjátíu prósent íbúa í Brussel sem búa á orkufrekum heimilum eru því komnir í algert skjól og þurfa ekki að óttast fekari hækkanir á húsaleigu. Kollegi Ben Hamou í Flæmingjalandi hefur einnig lagt fram mjög áþekka tillögu til varnar leigjendum í héraðinu.
Húsaleiga hefur hækkað að jafnaði um 2.5% í Brussel á síðustu sex mánuðum sem er methækkun og er meðal-húsaleiga komin í hundrað og fimmtíu þúsund krónur á mánuði. Hækkunin er mest á smærri íbúðum eða fjögur prósent en húsaleiga á einbýlishúsum hefur hækkað minnst eða um hálft prósent.