Starbucks kaffihúskeðjan hefur lokað enn öðrum sölustaðnum eftir að starfsmenn kusu með því að bindast böndum í verkalýðsfélagi. Nýjasti staðurinn til að loka var með þeim fyrstu til að stéttafélagavæðast fyrr á árinu og hann var staðsettur í Seattle, heimaborg Starbucks. Fimm kaffihús í borginni hafa lokað á árinu og eitt til viðbótar mun loka í næsta mánuði. Allir staðirnir eiga það sameiginlegt að hafa stéttarfélagavæðst nýlega.
„Broadway og Denny kaffihúsin voru fyrstu staðirnir til að stéttarfélagavæðast í Seattle og einn af fyrstu stöðum í landinu eftir að kaffibarþjónar í Buffalo unnu fyrsta Starbucks stéttarfélagið,“ sagði Starbucks Workers United um fyrirhugaða lokun Broadway. „Nú er Starbucks að loka versluninni á afmæli þess aburðar. Þetta er skýrasta dæmið um hefndaraðgerðir sem þetta fyrirtæki hefur sýnt til þessa með því að loka stéttarfélagavæddu útibúi. Þetta er hneyksli. Starbucks og Howard Schultz eru að spila leiki með lífi verkafólks. Þau skortir virðingu ekki aðeins fyrir réttindum starfsmanna sinna, heldur fyrir lögum þessa lands.“
Starbucks heldur því hins vegar fram að lokanirnar hafi ekkert með stéttarfélagavæðinguna að gera heldur sé þetta gert af öryggisástæðum. Fyrirtækið hefur hins vegar ítrekað verið sektað fyrir að brjóta reglur National Labor Relations Board sem er stofnun á vegum Bandaríska ríkisins sem hefur eftirlit með vinnumarkaðnum þar í landi.
Virkni og áhugi á verkalýðsfélögum hefur farið vaxandi innan Bandaríkjanna undanfarin ár þó hún sé enn lítil sögulega séð. Aðeins um 10% launafólks er í verkalýðsfélagi í dag miðað við 20% árið 1983. Áhugi á verkalýðsfélögum hefur hins vegar ekki verið meiri í nærri 60 ár og ekki hafa fleiri vinnustaðir kosið með inngöngu í stéttarfélag síðan á upphafsárum aldarinnar.
Síðan fyrsta Starbucks kaffihúsið stéttarfélagavæddist í fyrra hafa meira en 250 kaffihús um öll Bandaríkin bæst í hópinn. Þá hafa starfsmenn margra sölustaða Apple og dreifimiðstöðva Amazon fyrirtækisins kosið að farið sömu leið undanfarin misseri.