Viðskiptaráð birti í vikunni umsögn sína um frumvarp iðnaðarráðherra um breytingu á húsaleigulögum. Frumvarp þetta kveður á um skráningarskyldu á húsaleigusamningum í sérstakan gagnagrunn hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Markmiðið er að bæta upplýsingaöflun um leigumarkaðinn og sérstaklega til þróun á húsaleigu. Varar ráðið löggjafann við að íþyngja leigusölum með því að skylda þá til að skrá leigusamninga á heimasíðu stofnunarinnar.
Viðskiptaráð varar við því að frumvarpið verði samþykkt í óbreyttri mynd „þar sem vegið er freklega að trúnaði og friðhelgi einkalífs þeirra sem gera með sér leigusamninga,“ eins og segir í umsögn þess. Einnig telur ráðið að aukið umstang leigusala við að skrá leigusamninga á heimasíðu HMS gæti leitt til minna framboðs og hærri húsaleigu. Telur Viðskiptaráð að með því að íþyngja leigusölum kunna þessar breytingar að hafa öfug áhrif og auka hvata leigusala til að leigja á svörtum markaði.
Þess vegna reynir á jafnvægislist stjórnvalda við að vernda einkaréttarlega samninga og trúnað sem um þá á að ríkja, ásamt því að setja ekki reglur sem íþyngi leigusölum. Ráðið telur að markmið um að bæta upplýsingaöflun sé jákvætt, en segir að þær skráning þeirra geti haft fælandi áhrif.
Varar ráðið sérstaklega við að þær upplýsingar sem kunni að fást með þessari skráningu um verðþróun á leigumarkaði verði nýttar til verðstýringar. Segir í umsögn þess að „til leigusamninga er ekki stofnað nema ef báðir samningsaðilar telji sig hafa ávinning af því“. Niðurstaða þeirra samninga byggist á mörgum breytilegum þáttum og skipta þar mestu verð, ástand, fjármögnun og staðsetning húsnæðis. Að mati Viðskiptaráðs er svo eðlilegt að um þessa samninga gildi trúnaður.
Leggst því ráðið gegn því að frumvarpið verði samþykkt í óbreyttri mynd.
Myndin er af Svanhildi Hólm Valsdóttur framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs.