Bæklingur Reykjavíkur um uppbyggingu íbúða sem kom út 2. nóvember síðastliðinn kostaði 13.322.240kr fyrir virðisaukaskatt. Til samanburðar er áætlað að borgin spari 9.859.000kr á því að skera niður í þjónustu við unglinga í félagsmiðstöðvum á næsta ári.
Upphæð vegna gerðar bæklingsins var opinberuð á borgarráðsfundi í dag. Þar var verið að bregðast við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þar sem spurt var hver kostnaðurinn væri.
Athygli vekur að víða hefur verið skorið niður í borgarkerfinu. Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar héldu því fram að þeim hafi samt tekist að verja grunnþjónustuna. Að öllum steinum hafi verið velt við.
Hins vegar er það staðreynd að útgáfa ritsins kostar meira en borgin sparar á því að loka félagsmiðstöðvum unglinga fyrr á næsta ári. Hingað til hafa þær verið opnar til 22:00 á kvöldin, en meirihluti borgarstjórnar ákvað að skera niður með því að loka þeim 15 mínútum fyrr á á næsta ári.
Umræddan bækling má sjá í rafrænu formi með því að smella á þennan hlekk: https://reykjavik.is/sites/default/files/2022-11/Uppbygging_borgin_2022_72.pdf