En bætist við eigið fé Félagsbústaða

Matsbreytingar á eignum Félagsbústaða halda áfram að bæta eiginfjárstöðu félagsins. Þótt það sé ekki hægt að sækja þetta fé nema selja íbúðir félagsins, er hægt að nota sterka stöðu félagsins til endurfjármögnunar, og nota hana til að lækka leiguna umtalsvert. En ekki síður til að hefja byggingu íbúða og leysa húsnæðiskreppuna í borgina. Miðað við eðlilegt eiginfjárhlutfall gætu Félagsbústaðir byggt fyrir um 158 milljarða króna. Það jafngildir fjögur þúsund íbúðum ef byggingarkostnaður er tæplega 40 m.kr.

Matsbreytingar á eignum Félagsbústaða er ástæða þess að borgarsjóður er ekki rekinn með halla. 20,5 milljarða króna hækkun á verðmæti rúmlega þrjú þúsund íbúðum Félagsbústaða rífur samsteypu Reykjavíkur úr tapi yfir í hagnað.

Um síðustu áramót voru fasteignir Félagsbústaða metnar á 124 milljarða króna. Samkvæmt uppgjöri Reykjavíkur hafa þessar eignir hækkað um 20,5 milljarða króna og eru því metnar á um 144,5 milljarða króna.

Skuldir Félagsbústaða voru um 53,2 milljarðar króna um síðustu áramót og skuldbindingar vegna stofnframlaga um 5,9 milljarðar króna. Og eigið fé var því um 67,3 milljarða króna.

Þótt skuldir hafi hækkað eitthvað vegna verðtryggingar þá er það ekkert í líkingu við hækkun á matsverði íbúðanna, varla meira en 2,5 milljarðar króna umfram það sem félagið greiddi niður lánin.

Það má því ætla að í dag séu fasteignir Félagsbústaða og aðrar eignir um 147 milljarða króna virði en skuldir félagsins og skuldbingar ekki nema um 61,5 milljarður króna. Eigið fé félagsins er því nærri 85,5 milljörðum króna eða um 58%.

Eigið fé fasteignafélaganna sem skráð eru í kauphöllinni eru um 30% og það hlutfall er víða notað sem þumalputtaregla. Ef eigið fé er minna er hætt við að félög lendi í vanda ef fasteignaverð fellur. Ef það er meira hefur félagið vannýtta fjárfestingagetu. Hjá einkafyrirtækjum er þessi umframgeta oft greidd út til hluthafa.

Reykjavíkurborg gæti gert svipað með því að lækka einfaldlega leiguna og færa fátækasta fólkinu í Reykjavík hluta af arði Félagsbústaða vegna hækkunar fasteignaverðs. Það væri sannarlega fé vel varið.

Annar kostur væri að nýta eigið féð til að byggja nýjar íbúðir og koma fleiri fjölskyldum í öruggt skjól, fólk sem er úti á hinum ótamda leigumarkaði að borga okurleigu.

85,5 milljarða króna eigið fé gæti staðið undir um 199,5 milljarða króna skuldum, eða eign upp á 285 milljarða króna. Félagsbústaðir gætu því byggt fyrir um 158 milljarða króna en haldið eftir sem áður öruggu 30% eigin fé í Félagsbústöðum.

Fyrir 158 milljarða króna má byggja fjögur þúsund íbúðir á rétt tæplega 40 m.kr. hverja að meðaltali. Það eru um 100 þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, svo slík aðgerð hefði umtalsverð áhrif.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí