Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði á þingi að ætlunin væri að hækka framlög til Sjúkratrygginga um 100 m.kr. í umræðum um uppsögn Maríu Heimisdóttur forstjóra stofnunarinnar. Hann sagðist vonast til að það myndi duga stofnuninni en María sagði upp um miðja síðustu viku.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu átti að skera 194 m.kr. af stofnunni. Nú er Willum til í að bakka með rétt rúman helming af þeim niðurskurði.
Í bréfi sínu til starfsmanna Sjúkratrygginga í morgun sagði María ekki getað borið ábyrgð á rekstri Sjúkratrygginga þar sem stofnunin sé vanfjármögnuð.
Meginhlutverk Sjúkratrygginga er að semja við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk, stofnanir í eigu félagssamtaka og einkafyrirtæki. Sem kunnugt er hafa samningar við sjálfstætt starfandi lækna verið lausir í fjögur ár.