Ríkið niðurgreiðir íbúðarkaup eignafólks

Ríkið niðurgreiðir íbúðarkaup eignafólks Bob Blackman þingmaður breska íhaldsflokksins segir eignafólk og fjárfesta soga til sín húsnæðisbætur í gegnum eignarhald sitt á húsnæði á leigumarkaði. Nefnir hann sérstaklega erlenda fjárfesta sem hafa fjárfest grimmt í fasteignum á bretlandseyjum undanfarið. Hann segir ríkið niðurgreiða fjárfestingar eignafólks í gegnum húsnæðisbætur.

Húsaleiga hefur hækkað um 17% í London undanfarna tólf mánuði á meðan hún hefur hækkað um tæp fjögur prósent á landsvísu í Stóra-Bretlandi. Húsaleiga hækkaði um tvö prósent í Wales og tæp fjögur prósent í Skotlandi. Verðbólga á bretlandseyjum er 9.6%.

Hefur Blackman miklar áhyggjur af því hvernig fjárfestar nýta sér stöðu sína til að kaupa upp húsnæði til þess eins að hagnast á leigumarkaðnum. Tekur hann dæmi af fasteignaverkefnum sem hafa að mestu leyti endað í höndum fjárfesta sem setja íbúðirnar á leigumarkaðinn og hækka húsaleigu í sífellu. Óttast hann að tekjulágir og ungt fólk muni eiga erfitt með að koma sér inn á fasteignamarkaðinn undir þessum kringumstæðum.

Hlutfall íbúa á Bretlandi sem eiga eina íbúð hefur lækkað um eitt komma tvö prósentustig undanfarin áratug, en er þó á hægfara uppleið um þessar mundir. Bretar búa að því að rúm tuttugu prósent af öllu húsnæði er félagslega rekið og að árleg hækkun á húsaleigu þar í landi hefur einungis verið á bilinu 1-3% á ári undanfarin áratug.

Þrátt fyrir að staðan á húsnæðismarkaði í Stóra-Bretlandi sé margfalt betri en á Íslandi þá kallar Blackman ástandið “hinn fullkomna storm” þegar fjárfestar sópa til sín húsnæði til að leigja á okurleigu. Segir hann leigjendur ekki hafa efni á leigunni, og því krefst það hærri húsnæðisbóta. Þannig er ríkissjóður landsins, peningar skattgreiðenda notaður til að niðurgreiða fjárfestingar eignafólks á fasteignamarkaði.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí