Mohammad Jafar Montazeri, yfir ríkissaksóknari Íran, segir siðgæðislögregluna hafa verið lagða niður nú þegar mótmælin þar í landi halda áfram á þriðja mánuðinn.
„Siðgæðislögreglan hefur engin tengsl við réttarkerfið og hefur hún verið lögð niður af sömu aðilum og stofnuðu hana upphaflega” sagði Montazeri þegar hann kom fram opinberlega á laugardaginn og var spurður hvers vegna ekki sæist lengur til þessara sérsveita. Engin önnur staðfesting þess að sveitirnar hafi verið lagðar niður hefur verið gerð opinber auk þess sem lögin um klæðaburð kvenna hafa ekki tekið neinum breytingum.
Mótmælin sem spruttu upp eftir að hinn 22ja ára gamla Mahsa Amini var handtekin af siðgæðislögreglunni þann 13. september og lést í kjölfarið hafa enn ekki dalað en konur hafa þar verið áberandi þar sem þær hafa jafnvel brennt höfuðklúta sína, skorið hár sitt og hrópað slagorðin „Konur, líf, frelsi!”. Konur í Íran hafa verið skyldugar til að bera höfuðslæður og hylja hár sitt síðan fljótlega eftir íslömsku byltinguna 1979 og hefur klerkastjórnin verið hörð á því að kvika ekki frá þeim lögum þar til nú nýlega að gefið hefur verið í skyn að þau yrðu milduð.
Hingað til hafa refsingar verið í því formi að flytja konur á svokallaðar endurmenntunarstöðvar, ökutæki þeirra verið gerð upptæk og þeim gert að greiða sektir. Þá hafa opinberir fulltrúar gjarnan lýst yfir vilja til að nota myndavélar og gervigreind til að hafa upp á brotum sem þessum og gera sektargreiðslur sjálfvirkari.
Mahsa Amini var á ferðalagi í Teheran ásamt fjölskyldu sinni og var að yfirgefa lestarstöð í fylgd bróður síns þegar siðgæðislögreglan stöðvaði för hennar og færði hana á slíka stöð. Vanalega þurfa konur að staldra við á endurmenntunarstöðvum í um klukkustund en Amini snéri ekki út þaðan af sjálfdáðum. Yfirvöld hafa nú birt myndband úr öryggismyndavél stöðvarinnar þar sem hún sést ganga inn í lögreglufylgd og fljótlega falla í gólfið sem að sögn yfirvalda var vegna hjartaáfalls. Þá eru til myndir af því þegar skyndihjálp berst en hún var flutt á sjúkrahús þar sem hún á að hafa fengið annað hjartaáfall. Henni var haldið sofandi í öndunarvél í nokkra daga á eftir þar til hún var úrskurðuð látin. Dánardómstjóri segir hana hafa látist vegna undirliggjandi veikleika í hjarta en fjölskylda hennar hefur haldið því fram að hún hafi verið barin með kylfu í höfuðið og höfði hennar svo verði barið í lögreglubíl og það leitt til dauða hennar.
Margir af fyrrum ráðamönnum í Íran hafa sent fjölskyldu Amini samúðarkveðjur og lýst yfir hluttekningu vegna fráfalls hennar en hávær krafa er uppi frá stórum hluta þjóðarinnar um að það verði gerð óháð rannsókn á banameininu enda skuli siðgæðislögreglan bera ábyrgð á lífi og limum fólks sem í haldi er. Mótmælin í Íran hófust innan við 48 klukkustundum eftir að Amini lést en stjórnmálagreinendur telja 43 ára niðurbælda reiði kvenna hafa brotist út enda geti allar konur í Íran speglað sig í atburðarásinni. Hvenær sem er og við hvaða aðstæður sem er getur kona í Íran átt von á því að vera stöðvuð af siðgæðislögreglu fyrir svokölluð lögbrot um klæðaburð. Lögin um slæðuburð kvenna hafa verið afar umdeild frá upphafi og eru mótmælin augljós krafa um aukin kvenréttindi í Íran auk þess sem margir mótmæla því að lifa undir íslamskri klerkastjórn.
Sameinuðu þjóðirnar hafa að undirlagi Þjóðverja og Íslendinga samþykkt að koma á rannsókn á meintum mannréttindabrotum Írana í tengslum við mótmælin síðustu mánuði en staðfest er að 300 manns hafi látist og 14000 manns hafi verið handtekin. Íranar hafa ekki viljað staðfesta þessar tölur að öðru leyti en að 50 öryggisverðir hafi látið lífið. Þá hafa í það minnsta sex manns fengið dauðadóm í kjölfar þess að mótmæla.
Rætt var við Kjartan Orra Þórsson miðausturlandafræðing við Rauða borðið fyrir helgi um ástandið í Íran. Sjá má og heyra viðtalið við hann hér: