Fær sjálfur 130 þús. kr. launahækkun í sumar

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari á von á um 130 þús. kr. launahækkun í ár en laun hans hækka í takt við vísitölu reglulegra launa ríkisstarfsmanna, eins og á við um þingmenn og æðstu embættismenn. Aðalsteinn er í dag með 1.883.249 kr. í laun, en mun hækka upp í um 2.015.000 kr. í sumar. Samkvæmt miðlunartillögu hans mun ræstingarfólk á hótelum hækka úr 374.658 kr. í 417.148 kr. eða um 42.490 kr. Aðalsteinn mun því fá þrisvar sinnum meiri hækkun til sín en hann ætlar fátæku láglaunafólki í tillögu sinni.

2019, ári áður en Aðalsteinn var skipaður ríkissáttasemjari voru sett ný lög um laun æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa. Þessi lög leystu kjaradóm af hólmi. Laun ríkissáttasemjara voru samkvæmt lögunum 1.593.322 kr. og skyldu hækka þaðan í frá í takt við launavísitölu sem mældi hækkun reglubundinna launa ríkisstarfsmanna.

Nokkrum mánuðum fyrr hafði verið gengið frá lífskjarasamningunum. Þá hækkaði grunnþrep 6. launaflokks upp í 291.158 kr., en algengast er að fólki í ræstingum og hótelþrifum sé borgað samkvæmt þessum taxta.

Þarna var Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari með um 5,5 sinnum hærri laun en konan sem þreif herbergin á Íslandshótelum. Munurinn var 1,3 m.kr.

Þetta voru launin sem Aðalsteinn Leifsson fékk þegar hann tók við af Bryndísi. Um sumarið fékk hann hækkun upp á rúmar 100 þús. kr. Sama ár fékk herbergisþernan á Íslandshótelum 24 þús. kr. hækkun á sín laun. Aðalsteinn fékk hækkun á við fjórar ræstingakonur.

Árið eftir hækkuðu laun Aðalsteins enn, nú um 105 þús. kr. Þá fékk ræstingakonan aftur 24 þús. kr. Aðalsteinn fékk því hækkun á við fjórar ræstingakonur og þriðjung af þeirri fimmtu.

Í fyrra fékk Aðalsteinn rúmlega 84.500 kr. í launahækkun. Sem er það lægsta sem hann hefur séð. En það ár hækkaði ræstingakonan meira en áður, því þá datt inn hagvaxtarauki frá lífskjarasamningunum. Samanlögð hækkun hennar varð 35.500 kr. Aðalsteinn fékk aðeins 2,4 sinnum meira en láglaunakonan hjá Íslandshótelum.

Nú hefur Aðalsteinn lagt fram miðlunartillögu sem hækkar laun ræstingakonunnar um tæplega 42.500 kr. Fastsetur laun hennar í 417.148 kr. á mánuði út þetta ár og fram að 1. febrúar á næsta ári. Konan fær 334.182 kr. útborgaðar sem í dag duga ekki fyrir framfærslu samkvæmt framfærsluviðmiði Umboðsmanns skuldara og húsaleigu á 50 fm. íbúð. Til að ná endum saman vantar konuna 28.300 kr. Og til að ná þeim þarf konan að vinna sér inn 48 þús. kr. Launahækkunin sem Aðalsteinn ætlar konunni er því minna en helmingur af því sem hún þarf til að eiga í sig og á.

Og svo kemur verðbólgan. Ef ofurbjartsýn verðbólguspá fjárlaga, sem lögð var til grundvallar kjarasamningum Starfsgreinasambandsins, gengur eftir mun konunni vanta um 50.700 kr. til að lifa af janúar á næsta ári. Til að finna þann pening þarf hún að vinna sér inn næstum 86 þús. kr. Launahækkunin hans Aðalsteins er þá aðeins þriðjungur af því sem konan þarf nauðsynlega að geta lifað af launum sínum. Í stað 42.500 kr. sem Aðalsteinn ákvað þyrfti konan að fá 128.500 kr.

Og hér kemur kaldhæðnin á bak við ólík örlög Aðalsteins og ræstingakonunnar. Miðað við hækkun reglulegra launa ríkisstarfsmanna fyrstu tíu mánuði síðasta árs má einmitt ætla að hækkunin sem Aðalsteinn Leifsson fær í sumar, og sem byggð verður á hækkun launa ríkisstarfsmanna á árinu 2022, verði á bilinu 128-130 þús. kr.

Og Efling var ekki að biðja um að konan fengið þær 128.500 kr. sem hún mun þurfa að ári ef verðbólga helst innan spár fjárlaga. Efling fór aðeins fram á tæplega 55 þús. kr. hækkun taxta og 15 þús. kr. framfærsluuppbót. Sem samanlagt er samt 50 þús. kr. minna en Aðalsteinn mun fá í sumar.

Í dæmunum hér að ofan er gert ráð fyrir að bjartsýnisspá fjárlaga gangi eftir, að verðbólgan verði aðeins 5,6% í ár. Svo til engar líkur eru á að spáin gangi eftir. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra heldur því ekki einu sinni fram. Staða konunnar á því eftir að verða enn verri en hér hefur verið sagt. Þegar hún mætir til samninga að ári mun hún krefjast 100-150 þús. kr. launahækkunar, bara til að skrimta út fyrsta mánuðinn.

Eins og áður sagði er staða konunnar nú sú að hún væri 28.300 kr. í mínus miðað við miðlunartillögu Aðalsteins. Þegar Aðalsteinn er búinn að borga sömu framfærslu og sama húsnæði á hann hins vegar 753.500 kr. eftir. Konan fær ekki frekari hækkanir út árið en Aðalsteinn á von á um 130 þús. kr. til að bæta sér upp það sem verðbólgan étur.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí