Ríkissáttasemjari er ekki sjálfstætt embætti samkvæmt lögum

Samkvæmt lögum er embætti ríkissáttasemjara ekki sjálfstætt eins og margir virðast ganga út frá. Þess vegna er hægt að kæra ákvarðanir hans og þar með miðlunartillöguna til ráðherra. Ráðherra ber að taka þá kæru til efnislegrar meðferðar samkvæmt stjórnsýslulögum. Annað hvort var það ætlun löggjafans að hafa þetta svona eða það hefur einfaldlega gleymst að tryggja sjálfstæði ríkissáttasemjara í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Þetta var meðal þess sem kom fram í samræðum þeirra Gísla Tryggvasonar lögmanns og Sigurðar Péturssonar sagnfræðings við Rauða borðið. Gísli fór þar yfir lagalegar hliðar deilu ríkissáttasemjara við Eflingu, og í raun gervalla verkalýðshreyfinguna.

Hann sagði að af atvikalýsingum hafi Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari líklega ekki farið að ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur um að ráðgast við deiluaðila áður en miðlunartillaga er lögð fram. Lögin gera ekki ráð fyrir að hann breyti tillögu sinni eftir aðfinnslur deiluaðila, en þau gera ráð fyrir að hann ráðgist við aðila. Og þá er ekki nóg að kynna þeim orðinn hlut þegar hann hefur mótað tillöguna og boðað til blaðamannafundar til að kynna hana.

Og eru það nægar forsendur fyrir dómara héraðsdóms til að dæma miðlunartillöguna ólöglega? Já, ég tel svo vera, svaraði Gísli.

Gísli fór einnig yfir stjórnsýslukæru Eflingar til vinnumarkaðsmálaráðuneytisins. Hann sagði að sér hefði komið á óvart að í lögunum er ekki tilgreint að embætti ríkissáttasemjara sé sjálfstætt eins og á við um mörg mikilvæg embætti. Og þar með heyri embætti ríkissáttasemjara líkast til undir stjórnsýslulög og kæra má ákvarðanir hans til ráðuneytis. Sem þá verður að taka efnislega afstöðu í málinu.

Þetta er þveröfugt við það sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson vinnumarkaðsmálaráðherra virðust halda og sömuleiðis Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Og reyndar Ásmundur Stefánsson fyrrum ríkissáttasemjari einnig. Öll ganga þau út frá að ríkissáttasemjari einn geti tekið ákvörðun um innihald og tímasetningu miðlunartillögu og það sé í raun utan lögsögu ráðherrans að hafa skoðun á því hvort rétt sé á málum haldið. Svo er ekki. Ríkissáttasemjari heyrir undir vinnumarkaðsmálaráðuneytið og þangað má kæra ákvarðanir hans.

Og þar sem embættið virðist heyra undir stjórnsýslulög má jafnframt krefja það um skrá yfir öll samskipti ríkissáttasemjara í aðdraganda þess að hann tók hina örlagaþrungnu ákvörðun sem gróf undan trausti verkalýðshreyfingarinnar á embættið. Við hverja ráðfærði Aðalsteinn sig? er einmitt spurning sem Efling hefur krafið embættið svara um.

En þótt þessi deila sé spennandi lögfræði þá á hún sér pólitískar hliðar, sögulegar og samningatæknilegar. Þeir Gísli og Sigurður ræddu þær hliðar einnig við Rauða borðið. Og voru sammála um að miðlunartillagan væri efnislega sérstök, að sáttasemjari hafi tekið tilboð annars deiluaðilans og gert að sínu. Og að tímasetningin, að skella fram miðlunartillögu í miðri atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun, væri óheppileg, svo ekki sé meira sagt.

Þeir reyndu líka að ráða í hvers vegna Aðalsteini hafi fundist nauðsynlegt að leggja tillöguna fram á þessum tímapunkti. Vanalega koma miðlunartillögur fram þegar umræður eru í strandi eftir að verkföll hafa staðið yfir um einhvern tíma. En þeir gáfust í raun upp fyrir þessari þraut, fundu engar haldbærar skýringar á því hvers vegna þessi miðlunartillaga var lögð fram á þessum tíma.

Heyra má og sjá samtalið við þá Gísla og Sigurð í spilaranum hér að ofan.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí