Ríkissáttasemjari gerir tilboð Samtaka atvinnulífsins að sínu

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari tilkynnti í morgun að hann hygðist leggja tilboð Samtaka atvinnulífsins undir atkvæði Eflingarfólks en ekki taka neitt tillit til krafna Eflingar. Þetta gerir hann í krafti valds síns til að leggja svokallaðar miðlunartillögur fyrir samtök verkafólks og fyrirtækjaeigenda. Hingað til hafa miðlunartillögur tekið mið af kröfum beggja aðila. Aðalsteinn brýtur þá hefð og stillir sér upp með fyrirtækjaeigendur gegn forystu verkalýðsfélags.

Til að fella miðlunartillögu þarf meira en helmingur þeirra sem greiða atkvæða að hafna henni. Og mótatkvæðin þurfa að vera meira en fjórðungur atkvæðabærra félaga, sem í tilfelli Eflingar eru um 6.460 manns, sem miðað við formannskjörið fyrir tæpu ári. Það er fleira fólk en tók þátt í þeim kosningum, en þá kusu 3.900 manns. Það þarf því sögulega kosningaþátttöku til að fella miðlunartillöguna. Aðalsteinn var í raun að setja samning SGS yfir Eflingu áður en félagið gat boðað til verkfalla.

Aðalsteinn sagði á blaðamannafundi í morgun að kjaradeilur liðinna ára, frá því að hann var ráðinn til starfs sáttasemjara, hefðu verið strembnar en deila Eflingar við Samtök atvinnulífsins væru í al­gjör­um og hörðum hnút og al­gjör­lega stál í stál.

Þessi frásögn passar illa við söguna. Fyrir lífskjarasamninga voru verkföll, annars hefðu ekki náðst fram þær kjarabætur sem þar voru. Það sama má segja um kjaradeilu Eflingar við Reykjavíkurborg og síðar Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar leystist deilan ekki fyrr en eftir verkföll.

Nú grípur Aðalsteinn til miðlunartillögu í miðri atkvæðagreiðslu Eflingarfélaga um verkfallsboðun, sem er einstakt í sögunni. Ummæli Aðalsteins á fundinum um að verkföll væru ófriðarvegferð sem muni hafa áhrif á samfélagið allt benda til að sérstakrar sýnar á verkfallsvopnið, sem launafólk hefur beitt í meira en öld og hefur verið forsenda þess að það hafi getað bætt kjör sín.

Í byrjun vikunnar mátti skilja á Samtökum atvinnulífsins að fólk þar væri bjartsýnt um að verkfallsboðunin yrði felld. Þegar dagarnir hafa liðið hefur komið í ljós að svo er ekki, allt bendir til að verkfall Eflingar á Íslandshótelum verði samþykkt.

Í ljósi þess er ákvörðun Aðalsteins um að taka upp tilboð annars deiluaðila og kalla það sína miðlunartillögu enn sérstakari.

Samstöðin mun greina frá viðbrögðum forystu Eflingar þegar þau berast.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí