Segir námslán búa til skuldafangelsi

Umboðsmaður skuldara Ásta S. Helgadóttir skrifar pistil í Vísí í dag þar sem hún gagnrýnir lagabreytingar um námslán og bendir á mismunun hvað varðar afskriftir á skuldum námslána eftir að lög um Menntasjóð tóku gildi 2020 og leystu af hólmi eldri lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Við gildistöku nýju laganna voru felldar niður ábyrgðir á lánum þeirra sem stóðu í fullum skilum við lánasjóðinn. Þeir sem ekki voru í skilum voru skildir eftir en að mati umboðsmanns skuldara voru það mistök að fella ekki niður ábyrgðarmannakerfið í heild sinni.

Ásta bendir á að tilgangurinn með niðurfellingu ábyrgða, hafi verið sá að koma til móts við kröfur samfélagsins um að hver lánþegi skuli sjálfur vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu eigin námslána.

Hún veltir einnig upp þeirri spurningu hvort lánþegar og ábyrgðarmenn þeirra, þar sem lánin voru ekki í skilum við gildistöku laganna, hafi verið nægjanlega upplýstir um að ábyrgðarskuldbindingar á lánum yrðu felldar niður ef vanskil yrðu gerð upp.

Sérákvæði um fyrningarfrest í kjölfar gjaldþrotaskipta

Þá bendir umboðsmaður á mismunun í lögunum í kjölfar gjaldþrotaskipta. Sett voru sérákvæði í lögin um Menntasjóð námsmanna sem undanskilja námslán tveggja ára fyrningarfresti í kjölfar gjaldþrotaskipta og hefur umboðsmaður gagnrýnt það. Fyrningarfrestur námslána er 10 ár frá lokum gjaldþrotaskipta, en Menntasjóðurinn getur haldið kröfum lifandi um aldur og ævi með því að slíta fyrningu krafnanna, t.d. með fjárnámsaðgerðum. „Þessi breyting hefur leitt til þess að engin endanleg lausn er fyrir þá lánþega og ábyrgðarmenn, sem munu um ókomna framtíð aldrei geta greitt af skuldbindingum sínum” segir Ásta. Þetta skapi ójafnræði milli kröfuhafa ef allir aðrir séu undir hinni almennu tveggja ára fyrningarreglu.

Menntasjóður námsmanna komi til móts við skuldara
Þá bendir hún réttilega á að við fjárhagserfiðleika skuldara geti sú staða komið upp að kröfuhafar þurfi einfaldlega að að afskrifa hluta af kröfusafni sínu og eigi Menntasjóður námsmanna eigi ekki að vera nein undantekning þar frá öðrum lánastofnunum.

„Embættið hefur séð ítrekuð dæmi um t.d. örorkulífeyrisþega sem tóku námslán í tíð eldri laga og hafa engin tök á að standa undir þeim. Vissulega er hægt að sækja um undanþágu frá afborgunum en er það eðlileg leið að einstaklingar þurfi að sækja um slíkar undanþágur ár eftir ár?” spyr hún.

Vantar endapunktur fyrir þau sem eru ógjaldfær

Að mati embættisins segir Ásta að það sé mikilvægt að huga að endapunkti fyrir þann minnihlutahóp einstaklinga sem er og verður ógjaldfær til að greiða af kröfum sínum og spyr hvort það þjóni tilgangi að halda kröfum endalaust lifandi gagnvart þessum hópi einstaklinga. Í þessu samhengi segir hún umboðsmann skuldara vilja vekja athygli á þeirri mismunun sem er á milli lánþega sem tóku lán í tíð eldri laga og þeirra sem taka lán á grundvelli núgildandi laga. „Í núgildandi lögum er til staðar heimild til að afskrifa eftirstöðvar lána þegar lánþegi nær 66 ára aldri, sé lánþegi í fjárhagserfiðleikum.

Krafa um ábyrgðarmenn

Þá segir umboðsmaður það vera enn við lýði hjá Menntasjóði námsmanna, að þeir sem lendi í í vanskilum með greiðslu námslána og vilja semja um þau fái á sig þá kröfu að þurfa ábyrgðarmann á skuldabréf til uppgreiðslu vanskilanna. Lánþegum sé þannig stillt upp við vegg og séu tilneyddir til að blanda þriðja aðila í skuldamál sín. Sama segir hún gilda um lánþega sem af einhverjum ástæðum hafi fengið ofgreidd námslán. Ef þeir geta ekki endurgreitt hina ofgreiddu fjárhæð með eingreiðslu, sé gerð krafa um að þeir útvegi ábyrgðarmann á skuldabréf til greiðslu ofgreiddra lána. Embættið hafi séð dæmi þess að ábyrgðarmenn geti sjálfir verið illa staddir fjárhagslega og geti það leitt til vítahrings varðandi skuldbindinguna.

Líf fólks í heljargreipum vegna gallaðs regluverks

Umboðsmaður segir að þegar krafa fari í löginnheimtu þá geti hún verið fljót að hækka mikið vegna innheimtukostnaðar lögmanna og álagningu dráttarvaxta. Við gerð nýju laganna hafi verið tekið til skoðunar að opna á þann möguleika að embætti sýslumanna eða Skatturinn tækju að sér verkefni vegna innheimtu námslána og var talið æskilegt að ráðuneytið myndi halda áfram að skoða þær útfærslur. Innheimtukostnaður vegna vanskila sé oft sá hluti sem leggst hvað þyngst á fólk sem komið er með lán sín í vanskil. Því væri skynsamlegt að endurmeta hvernig haga bæri innheimtu námslána og hvort hún ætti heima hjá einkaaðilum, lögmannsstofum, sem hafa hag af innheimtunni í formi innheimtukostnaðar eða hjá hinu opinbera.

Samkvæmt lögum Menntasjóð námsmanna er tilgreint að þau skuli endurskoðuð innan þriggja ára frá því að þau komu til framkvæmda. Embætti umboðsmanns skuldara bindur því vonir um að hugað verði vel að þeim athugasemdum sem lagðar voru fram í greininni. Umboðsmaður bætir svo við „Umbætur á meðferð og innheimtu námslána, bæði gagnvart eldri lánum og lánum teknum í tíð núgildandi laga, eru nauðsynlegar, svo líf fólks sé ekki í heljargreipum vegna gallaðs regluverks”.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí