Nýlega hafa verið uppfærðar töflur fyrir árið 2019 sem kasta mati á umfang tekjutaps ríkja af tekjuskatti fyrirtækja vegna tilfærslu skattbyrðar milli landa. Ísland tekur stórt stökk upp á við milli ára – var með um 18% tap af skattstofninum árið 2018 en nú 26%. Á heimsvísu er tekjutapið um 9-10%. Ísland er í flokki þeirra ríkja sem tapa hvað mestu úr landi.
Tekjustofn ríkisins af tekjuskatti fyrirtækja árið 2019 var 63 milljarðar króna. Beint tekjutap ríkisins nemur því rúmum 13 milljörðum króna af ólöglegum tilfærslum á hagnaði. Óbeint tap getur þó einnig verið umfangsmikið ef um starfsemi sem byggir á auðlindum þjóðarinnar þar sem auðlindarenta reiknast útfrá hagnaði sem röng mynd er dregin upp af ár frá ári.
Aðferðirnar sem alþjóðleg fyrirtæki nýta eru misjafnar eftir rekstrarumhverfi fyrirtækjanna. Lyfja- og tæknifyrirtæki byggja upp hugverkasöfn sem hafa lögverndaða rentu vegna einkaleyfa og flytja eignarréttinn af þeim til lágskattasvæða. Eins konar leigutekjur eru rukkaðar milli félaga til að eyða hagnaði félaga þar sem starfsemi og sala á sér stað og skatthlutfallið er hærra, en hagnaðurinn endar í félaginu þar sem hugverkin eru og þar eru samningar við stjórnvöld um lága skattbyrði, t.d. í Írlandi eða Belgíu.
Milliverðlagning er annað algengt form undanskots en oft hafa íslenskar útgerðir verið sakaðar um að vera í aðstöðu til að bjaga rétta verðmyndum afurða milli landa þar sem þessir lögaðilar eru eigandi fyrirtækja beggja megin viðskipta milli landa.
Í Samherjaskjölunum árið 2021 var að finna í tölvupóstsamskiptum Baldvins Þorsteinssonar, erfingja Samherjasamsteypunnar, skýran ásetning um að nýta lágskattasvæði til að annars vegar draga úr hagnaði sem væri stofn skattgreiðslu, en enn fremur að draga úr skiptahlut sjómanna.
„Með því að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins Kötlu Seafood getum við lækkað skiptahlut sjómanna og stjórnað betur á hvaða verðum við gerum upp. Tilgangurinn er eftirfarandi: Að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins þar sem enginn skattur er á hagnað fyrirtækisins. Við teljum Kýpur vera rétta landið. […] Með því að draga úr hagnaði þar og láta hagnaðinn myndast hjá sölufyrirtækinu þá tækist okkur að auka hagnað heildarinnar. Þetta teljum við nokkuð snyrtilega leið til að draga úr skattgreiðslum.“
Rannsókn málsins á Íslandi er enn á byrjunarstigi.
Árið 2017 var birt skýrsla Fjármála- og efnahagsráðuneytisins um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Þar var tap ríkisins vegna vantalinna eigna metið á bilinu 2,8-6,5 milljarðar á ári.
Lesa má um skýrslu og vinnu Gabriel Zucman og Ludvig Wier hér